Ársskýrsla 2010

3.07.2011
Starfsmenn safnsins 2010; Margrét Arna Vilhjálmsdóttir, Elín Ósk Magnúsdóttir og Elín S. Sigurðardóttir, forstöðumaður.

Starfsmenn safnsins 2010; Margrét Arna Vilhjálmsdóttir, Elín Ósk Magnúsdóttir og Elín S. Sigurðardóttir, forstöðumaður.

Á liðnu ári var undirrituð endurgerð skipulagsskrá safnsins en segja má að skipulagsskráin hafi verið orðin úrelt fyrst og fremst vegna sameiningu sveitarfélaga. Þá gerðist sveitarfélagið Skagaströnd formlegur aðili að stofnuninni en Skagaströnd hefur alltaf veitt safninu rekstrarstuðning til jafns við önnur sveitarfélög héraðsins. Undirritunin fór fram að viðstöddu fjölmenni við við opnun Sumarsýningarinnar.
Eins og ársreikningar safnsins bera með sér eru rekstrargjöld Heimilisiðnaðarsafnsins fyrir árið 2010 nokkuð lægri en árið á undan sem helgast af því að ekki var unnið að neinu sérverkefni.
Kostnaður vegna útgáfu á Vefnaðarbók Halldóru sem var endurútgefin í fyrra er að fullu greiddur með styrkjum og sölu og mun sala bókarinnar hér eftir skila sér sem hreinar tekjur, þó að frádregnum sölu- og markaðskostnaði.
Á árinu naut Heimilisiðnaðarsafnið þess heiðurs að vera ásamt Byggðasafninu í Glaumbæ og Nýlistasafninu í Reykjavík tilnefnt til Íslensku Safnaverðlaunanna. Forseti Íslands afhenti Nýlistasafninu í Reykjavík Safnaverðlaunin 2010 við hátíðlega athöfn á Bessastöðum og hin söfnin fengu viðurkenningu.Í rökstuðningi dómnefndar segir svo varðandi Heimilisiðnaðarsafnið: Dómnefnd telur að Heimilisiðnaðarsafnið sé eitt þeirra safna á Íslandi sem hefur sýnt fram á mikilvægi þess að safna og varðveita þann hluta menningararfsins sem flestir hafa litið á sem hversdagslega hluti eins og textíl sem flokkasðist lengi vel sem heimilisiðja. Safnið hefur með útgáfum, málþingum og sýningum, sýnt fram á að textíll í allri sinni mynd er mikilvæg menningarverðmæti sem ber að varðveita og hlúa að. Textílarfleifðin er þar notuð markvisst sem grunnur að hönnun nýrra og skapandi muna.

Margrét Hallgrímsdóttir þjóðminjavörður, opnaði Sumarsýningu safnsins sem var í höndum tveggja listakvenna, þeirra Hildar Bjarnadóttur, myndlistamanns sem nefndi sína sýningu Engurgjöf og Steinunnar Sigurðardóttur, hönnuðar en sýning hennar bar yrfirskriftina Dress Collage.
Að vanda var Íslenski Safnadagurinn haldinn hátíðlegur með sérstakri dagskrá í safninu. Sýnt var hvernig tekið var ofanaf, kembt, spunnið og prjónað. Einnig sýndur margskonar útsaumur, heklað, gimbað og slegið í vef. Svipuð dagskrá var á Húnavöku og er kaffi og kleinur innifalið í aðgangseyri báða þessa daga ásamt smakki af hinni rómuðu Kosta sviðasultu.
Þó nokkur rannsóknarvinna átti sér stað í safninu á síðastliðnu ári. Ber þar hæst rannsóknarvinna Karls Aspelundar sem vinnur að doktorsritgerð sinni við Boston University um þjóðlegan klæðnað íslenskra kvenna.
Á ári hverju sinnir safnið töluverðri heimildarvinnu vegna margskonar verkefna nemenda á efri skólastigum en einnig fyrir ýmsa aðra fræðimenn. Skólaheimsóknir grunnskólabarna og annarra nemenda yfir vetrartímann eru fastir liðir. Reynt er að sinna þessum heimsóknum af alúð og veita börnunum nokkra safnfræðslu um leið og þau fá að spreyta sig á að kemba, spinna og búa til þráð. Þá eru einnig haldin stutt námskeið í safninu í útsaumi, hekli og prjóni, auk námskeiða í þjóðbúningasaumi sem haldin eru af og til.
Á hverju ári er unnið að skráningu á nýjum aðföngum en fjölmargir láta í ljósi áhuga á að koma munum til varðveislu í safninu, en þar sem geymslurými er mjög takmarkað er ekki hægt að taka við öllu.
Aðventustemningin nýtur mikilla vinsælda en í þetta sinn heimsótti Urður bókafélag safnið, kynnti útgáfu sína og lesið var úr nýútkomnum bókum. Einnig söng Samkórinn Björk við góðar undirtektir.
Síðar á aðventunni kynntu og lásu húnvetnskir höfundar úr nýútkomnum bókum. Venja er að bjóða gestum uppá súkkulaði, kaffi og jólasmákökur við þessi tækifæri.
Að ofanrituðu er ljóst að töluverð umsvif eiga sér stað í Heimilisiðnaðarsafninu og stofnunin vekur athygli. Eins og áður hefur komið fram í ársskýrslum safnsins er mikilvægt að við sem nær stöndum hugum að því að styrkja og standa vörð um þessa stofnun.
Það er einnig ljóst að fjöldi ferðamanna sem heimsækja safnið staldra við á öðrum stöðum í héraðinu og hafa þar með áhrif á aðra þjónustu í byggðarlaginu.
Margt ferðafólk og héraðsbúar heimsækja safnið árlega þar sem alltaf er eitthvað nýtt að sjá. Þessir safngestir eru í raun velunnarar safnsins og væri ánægjulegt ef sem flestir héraðsbúar sæu sér fært að gera árlega heimsókn að vana og styrkja með aðgangseyri sínum starfsemi stofnunarinnar.
Elín S. Sigurðardóttir, forstöðum.