Þekkingarsetur stofnað á Blönduósi

4.03.2012

Þann 29. febrúar 2012 var haldinn stofnfundur um Þekkingarsetur á Blönduósi.

Aðilar að setrinu eru Textílsetur Íslands, Heimilisiðnaðarsafnið, Laxasetur Íslands, Farskólinn, Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra, Blönduósbær, Húnavatnshreppur, Landsvirkjun og Háskólinn á Hólum.

Markmið Þekkingarsetursins er m.a. að vera miðstöð öflugrar rannsókna- og þróunarstarfsemi á Blönduósi, efla samstarf milli fyrirtækja og mennta- og rannsóknastofa á Blönduósi, bjóða fullkomna aðstöðu fyrir símenntun og fullorðinsfræðslu og hafa frumkvæði að rannsókna- og þjónustuverkefnum á sérsviði setursins sem eru: textíll, hafís og strandmenning og laxfiskar.

Þekkingarsetrið verður til húsa í Kvennaskólanum á Blönduósi. Kvennaskólinn verður 100 ára síðar á þessu ári og stofnun öflugs Þekkingarseturs á 100 ára afmælisári hússins verður mikil lyftistöng fyrir héraðið og mikill sómi sýndur gagnvart þessu merka menningarhúsi sem Kvennaskólinn á Blönduósi er.

Undanfarin þrjú ár hafa ríki og sveitarfélög í Austur-Húnavatnssýslu unnið að endurbótum á húsnæðinu og er gaman að sjá hve vel hefur tekist að nýta þetta fallega og fornfræga hús. Það hýsir nú Þórsstofu, Textílsetur Íslands auk þess að hægt er að sjá hvernig kvennaskólastúlkurnar höfðu það hér áður fyrr. Þar hafa Vinir Kvennaskólans innréttað nokkur herbergi í anda þess liðna þegar kvennaskóli var rekinn í húsinu.

Heimild: Huni.is

Mynd: Loftmyndir ehf.