Frá opnun sumarsýningar

30.05.2012

Það var hátíð í bæ í Heimilisiðnaðarsafninu á Annan í hvítasunnu þegar Íris Ólöf Sigurjónsdóttir opnaði sýningu sína „Bútar úr fortíð“. Það má líka með sanni að segja að sýningin standi undir nafni en Íris vinnur sýninguna úr efnisbútum, hekluðum milliverkum, dúllum og dúkum.

Í ávarpsorðum Elínar Sigurðardóttur, forstöðukonu safnsins kom fram að allt frá því nýja safnhúsið var tekið í notkun árið 2003 hafi á hverju vori verið sett upp ný sérsýning textíllistamanns. Allar sýningarnar hafa verið gjörólíkar og fyrir þá sem ekki til þekkja má fá nasasjón af sýningum safnsins hér á heimasíðunni.

Íris stundaði textílkennaranám í Noregi og framhaldsnám i textílforvörslu í London. Auk þess hefur hún bætt við sig fjölda námskeiða í textílfræðum. Hún hefur unnið sem búningahönnuður og stílisti við leikhús, sjónvarp og kvikmyndir en lengst hefur hún starfað á sviði minjavörslu sem textílforvörður, fyrst á Árbæjarsafni en frá árinu 2002 við minjasafnið á Hvoli á Dalvík. Samhliða starfar Íris sem textílhönnuður og rekur eigin vinnustofu þar sem hún vinnur einkum með ull og silki, perlur og pappír.

Endurnýting og frumleg notkun hráefnis úr ýmsum áttum hefur frá fyrstu tíð verið stór og einkennandi þáttur í list Írisar.

Við opnunarathöfnina sungu þau hjón Íris og Hjörleifur Hjartarson nokkur lög sem gerður var góður rómur að.

Fjölmenni var við athöfnina og þakkaði Elín viðstöddum fyrir að koma og sýna stofnuninni þannig hlýju og jákvæðni með nærveru sinni. Minntist hún þess að þegar húsið var byggt lögðu margir hönd á plóginn með fjárframlögum inn á sérstakan hollvinareikning safnsins og ennþá sýna nokkrir safninu slíkan stuðning sem er ómetanlegur. Aðrir leggja safninu lið með annarskonar aðstoð en Björg sem gjarnan er kennd við Sveinsstaði bakaði fyrir safnið kleinur í tilefni dagsins eða svo notuð séu hennar orð „Þetta er mín aðferð til að vera vinur Heimilisiðnaðarsafnsins“.

Og svo sannarlega runnu kleinurnar hennar Bjargar út enda með afbrigðum góðar og margir munnarnir en í gestabók Írisar rituðu 110 manns nöfn sín.

Hér í myndasafni má sjá fleiri myndir frá opnun sýningarinnar.