Ársskýrsla 2012

14.04.2013

Umtalsverður bati hefur náðst í afkomu Heimilisiðnaðarsafnsins á árinu 2012.  Er það fyrst og fremst því að þakka að tekjur hækkuðu um 1.4 millj. króna  á milli ára en rekstrargjöld stóðu nánast í stað.  Skýringin fellst í því að ekki var lagt í viðhald og endurbætur nema það allrar nauðsynlegasta, né til lagfæringa á föstum sýningum. Samt sem áður er gengið á þær litlu sjóðseignir sem safnið átti og ef svo heldur áfram, líður ekki á löngu þar til að safnið verður ekki rekstrarhæft. Í umsókn safnsins til sveitarfélaga héraðsins um rekstrarstyrk, hefur ítrekað verið bent á nauðsyn þess að gera við þakið á  gamla safnhúsinu og vonandi að eigendur safnsins leggji málinu lið hið fyrsta.

Aðsókn safngesta er nú að komast í svipað horf og var árið 2009, rúml. 3000 manns, eftir nokkra lægð og vonandi að þessi þróun haldi áfram á næsta sumri.

Sumarsýningin Bútar úr fortíð eftir Írisi Ólöfu Sigurjónsdóttur, var opnuð á vordögum, við það tækifæri tóku þau hjón Íris og Hjörleifur Hjartarson lagið, bæði innan dyra sem utan og var gerður góður rómur að. Nokkuð á annað hundrað gestir voru viðstaddir opnunina.

Íslenski Safnadagurinn var haldinn hátíðlegur sem endranær en venjan er á þessum degi að konur sýni ýmisskonar handavinnu, s.s. margskonar útsaum, gimb, hekl og prjón. Einnig er kembt og spunnið og slegið í vef og fá gestir að spreyta sig á vinnubrögðunum.

Á Húnavöku var boðið upp á sérstaka Þjóðbúningasýningu í samstarfi við Heimilisiðnaðarfélag Íslands. Sýningin var sérlega glæsileg en nokkrar konur frá Heimilisiðnaðarfélagi Íslands, lögðu land undir fót til að sýna búninga en einnig var heimafólk fengið til þess. Oddný Kristjánsdóttir, klæðskeri og kennari í Þjóðbúningasaum kynnti og stjórnaði sýningunni. Troðfullt var útúr dyrum. Þá var  safnið með í  útilífssýningunni Upplifun í Hrútey á Húnavöku og setti þar upp sýningu.

Heimilisiðnaðarsafnið tók þátt í Sögulegri safnahelgi sem haldin var á haustdögum. Í tengslum við hana var haldinn sérlega skemmtilegur viðburður þar sem ungar stúlkur sýndu nærklæðnað úr safnkosti safnsins frá fyrri hluta 20. aldar. Sumarstarfsstúlkurnar spiluðu á gitar og saxafón og sungu, en auk þess söng Alexandra Chernyshova nokkur lög m.a. íklædd fermingarkjól frá 1943.

Í lok nóvember voru  Stofutónleikar í safninu þar sem Rut Ingólfsdóttir, fiðluleikari hélt einleikstónleika. Einstök stemmning ríkti á þessum tónleikum og þótti tónleikagestum mikil upplifun að hlýða á einn fremsta listamann okkar á þessu sviði.

Á aðventu var upplestur úr nýjum bókum, viðburður sem alltaf mælist jafnvel fyrir.

Á öllum þessum viðburðum er gestum boðið upp á kaffi og kleinur eða annað meðlæti en á aðventu heitt súkkulaði og smákökur.