Sumargleði í Heimilisiðnaðarsafninu á Húnavöku.

29.07.2013

Fjöldi manns heimsótti Heimilisiðnaðarsafnið um Húnavökuhelgina. Vakti skreyting safnhússins mikla athygli en þar gaf á að líta dúllur í öllum regnbogans litum hangandi í þakbrúnum og umhverfis ljósastauranna. Á sunnudeginum var sérstök dagskrá í safninu þ.s. Ragney Guðbjartsdóttir, myndlistamaður og leiðbeinandi hjá Punktinum sýndi gestum hvernig hægt er að nýta ýmisskonar efni með því að hekla úr því. Zac Monday, listamaður frá Los Angeles sem dvelur um þessar mundir í Kvennaskólanum sýndi heklaðan gjörning. Virtist gestum þarna vera á ferð furðuvera frá öðrum hnetti sem læddist um á meðal gesta og safnaði saman hekluðum dúllum sem lágu víðsvegar um safnið. Litlu börnin áttuðu sig fljótlega á því að þarna var á ferð gott skrímsli og hjálpuðu til við að finna dúllurnar.
Ömmudjús sem borið var fram í krukkum ásamt “Sæmundi í sparifötunum” runnu ljúflega niður hjá ungum sem öldnum og annaðslagið hljómuðu ljúfir píanó eða gítartónar framkallaðir af safnvörðunum Sigurdísi og Margréti Örnu.