Aðventustemning á bókakynningu

12.12.2013

Það er orðin hefð í Heimilisiðnaðarsafninu á Blönduósi að lesa upp úr nýjum
bókum á aðventu.

Reynt er að fá höfunda úr héraðinu eða nágrannabyggðum til að koma og lesa
upp úr bókum sínum og/eða kynna þær. Einnig er oft lesið úr bókum annarra
höfunda.

Í þetta sinn var lesið upp úr og kynntar mjög ólíkar bækur. Allar áttu þær
það þó sameiginlegt að höfundar og þýðendur hafa tengsl við héraðið og
nærsamfélagið.

Í upphafi var öllum gestum boðið upp á heitt súkkulaði og smákökur en Björn
Þór frá veitingastaðnum Pottinum kom óvænt færandi hendi með dýrindis
skyrtertur.

Síðan hófst upplestur og kynning á bókunum og kynnti Jón Rúnar Hilmarsson
nýja ljósmyndabók sem ber nafnið „Ljós og náttúra Norðurlands vestra“.
Sigríður Kristín Þorgrímsdóttir, las upp úr og sagði frá bók sinni „Alla mína
stelpuspilatíð“. Þá las Kolbrún Zophoníasdóttir upp úr ljóðabók Rúnars
Kristjánssonar frá Skagaströnd, en titill hennar er „Í norðanvindi og
vestanblæ“.

Sigurður H. Pétursson, fyrrum dýralæknir og sonur hans Pétur M. Sigurðsson
hafa þýtt bókina „Paradísarstræti“ eftir Ulla Lachaues og las Kristín Guðjónsdóttir
upp úr henni.

Að síðustu kynnti Gunnar Þór Jóhannesson og las upp úr bókinni „Ferðamál á
Íslandi“ sem hann ásamt Edward Hákon Huljbens hafa ritað.

Á eftir gafst gestum tækifæri til að spjalla við höfunda og kaupa áritaðar bækur
af þeim.

Rúmlega fimmtíu manns sóttu samkomuna og nutu notalegrar stemmningar í
Heimilisiðnaðarsafninu.