Ársskýrsla 2013

6.04.2014

Þegar horft er til ársins 2011 hvað varðar fjárhagslega afkomu Heimilisiðnaðarsafnsins má sjá að tekist hefur að snúa vörn í sókn. Rauntekjur á milli áranna 2012 og 2013 hækka þó aðeins um tvöhundruð þúsund krónur þar sem styrkir að upphæð rúmlega fimm hundruð þúsund krónum eru eyrnarmerktir þakviðgerð á gamla safnhúsinu. Fyrst og fremst hefur jákvæð afkoma skapast vegna mikils aðhalds í rekstri.

Gestakomur voru aðeins færri en á síðastliðnu ári. Athyglisvert er að um helmingur gesta eru erlendir. Eins og venja hefur verið er ókeypis aðgangur við opnun Sumarsýningar og við Upplestur á aðventu. Þá var ekki inntur aðganseyrir á íslenska Safnadeginum né á Safna og setra deginum. Þetta ásamt fækkun gesta skýrir lægri tekjur af aðgangseyri.

Sumarsýningin, Lesið í prjón, eftir Hélene Magnússon var opnuð formlega sunnudaginn 2. júní. Jamilla Attaoul, fulltrúi frá bandaríska sendiráðinu á Íslandi opnaði sýninguna. Fyrir utan ávörp við opnunina, þá söng Ásdís Guðmundsdóttir nokkur lög við undirleik Sorin Lazar. Þessi sýning er að því leiti sérstök að hún tengist útkomu bókar Hélene Magnússon, Icelandic Handknits sem kom út vorið 2013 í Bandaríkjunum. Bókin fjallar um prjón í Heimilisiðnaðarsafninu og á sýningunni er að finna 25 flíkur sem er fjallað um í bókinni, annarsvegar endurgerðar í sömu mynd eftir flíkum sem til eru í safninu og hinsvegar flíkur sem Hélene hefur hannað með innblæstri frá gömlum safnmunum. Það liggur því mikil rannsóknarvinna á bak við þessa bók og útkoma hennar er mikill akkur fyrir Heimilisiðnaðarsafnið. Bókin kemur væntanlega út á íslensku á þessu ári.

Íslenski Safnadagurinn var haldinn hátíðlegur , en á þessum degi sýna konur ýmiss konar handavinnu, s.s. útsaum, gimb, hekl og prjón. Þá er kembt og spunnið og slegið í vef.

Á Húnavöku var boðið uppá dagskrá sem nefndist Sumargleði Heimilisiðnaðarsafnsins – Heljarinnar hekl – Hefðbundin tækni – óhefðbundin nálgun. Ragney Guðbjartsdóttir, frá Blönduósi, myndlistarmaður og leiðbeinandi á Punktinum, sýndi hekl úr óhefðbundnum efnum m.a. plasti, vír og gömlu fötum. Þá sýndi Zac Monday, listamaður frá Los Angeles, gjörninga úr hekli. Allir fengu smakk af rabbabaradjúsi ásamt gamla íslenska kremkexinu. Nefna má að safnhúsið var skreytt að utan með hekluðum dúllum og dúkum. Vakti þetta allt saman óskipta athygli safngesta. Þá tók safnið þátt í útilífssýningunni Upplifun í Hrútey á Húnavöku og setti þar upp sýningu.

Söguleg safna og setra helgi var haldin á haustdögum en í þetta sinn var ekki boðið uppá sérstaka dagskrá.

Á aðventu var upplestur úr nýjum bókum sem var að vanda fjölsóttur og gæddu gestir sér á heitu súkkulaði og viðeigandi meðlæti. Eins og oft áður tengdust höfundarnir og/eða bækur sem lesið var úr héraðinu.

Heimsóknir grunnskólabarna og annarra nemenda eru árlegar, þar sem nemendur fá leiðsögn um safnið og síðan tækifæri til að kemba og spinna og fylgja þræðinum í vef.

Námskeið í þjóðbúningasaumi var haldið fyrrihluta árs. Saumuðu konur 19. aldar og 20. aldar upphluti, einnig peysuföt, skyrtur og svuntur. Námskeiðið var fullsetið. Leiðbeinandi var Helga Sigurbjörnsdóttir á Sauðárkróki.

Rannsóknarvinna hefur verið töluverð í safninu á undanförnum árum og bækur gefnar út í tengslum við þá vinnu. Á síðastliðnu ári má helst nefna Anni Bloch sem kom sérstaklega frá Danmörku til að rannsaka tengsl á milli íslenskra og danskra stafaklúta og skírnarkjóla. Hún hefur skrifað grein í tímaritið Haandarbejets Fremme um heimsókn sína hingað. Þá hefur undirrituð sinnt heimildaöflun vegna ýmissa verkefna nemenda á æðri skólastigum.

Heimilisiðnaðarsafnið og Þekkingarsetrið gerðu með sér samstarfssamning um vinnuframlag til safnsins og mun sá samningur verða endurnýjaður á árinu 2014.

Nýir safnmunir berast safninu árlega sem þarf að flokka, forverja og skrásetja. Er nú svo komið að rými í safninu er farið að takmarka getu þess til að taka við merkum gripum.

Handverkshópurinn Heimaiðjan sem ekki er starfandi lengur, afhenti safninu rúmlega 150 þúsund krónur með ósk um að peningunum yrði varið til kaupa á belti við 17. júní kyrtil. Upphæðinni hefur nú þegar verið ráðstafað sem hluta af kaupverði beltis og brjóstnælu við 17. júní kyrtilinn. Mun Fjallkonan skarta þessum munum í fyrsta sinn á þjóðhátíðardaginn okkar nú í sumar.

Fjárhagsstaða Heimilisiðnaðarsafnsins var fyrir tveimur árum mjög veik. Ákveðið var að gæta eins mikils aðhalds og hægt væri í rekstri án þess þó að það kæmi niður á lögbundinni safnastarfsemi. Ef til vill hefur verið gengið þar of langt með tilliti til eðlilegs viðhalds á eignum stofnunarinnar. Styrkir frá Menningarráði Norðurlands vestra hafa skipt sköpum vegna menningarlegra viðburða í safninu. Þá hefur stuðningur frá Atvinnuleysistryggingarsjóði vegna launakostnaðar sumarstarfsmanna haft mikla þýðingu. Kvenfélögin í héraði ásamt Sambandi austur-húnvetnskra kvenna, styrktu safnið um rúmlega hálfa milljón til þakviðgerðar á eldra húsi safnsins. Þá hafa sveitarfélögin einnig lagt hálfa milljón í það verkefni sem kemur til greiðslu á þessu ári.

Með nýjum safnalögum fékk Safnaráð það hlutverk að fjalla um viðurkenningu safna og afturköllun viðurkenningar áður en tilllögur þar að lútandi eru sendar ráðherra. Auk þess skal Safnaráð setja skilmála varðandi húsnæði, öryggismál, aðgengi, skráningarkerfi og faglegt starf sem söfn verða að uppfylla til að hljóta viðurkenningu. Safnaráð staðfestir stofnskrár safna en auk þess þurfa þau söfn sem sækja um viðurkenningu að leggja fram söfnunar- sýningar- og starfstefnu, sem og neyðaráætlun, starfsleyfi frá heilbrigðiseftirliti og brunavörnum og staðfestingu á virkni öryggiskerfa. Sé safn ekki viðurkennt er það ekki styrkhæft frá Safnaráði.

Glöggt er gests augað. Það er algengt að undirrituð fái kveðjur frá ánægðum safngestum bæði bréflega en ekki síst rafrænt. Þá er mikið bloggað um safnið og þau eru orðin mörg fagtímaritin þar sem ritaðar eru greinar um safnið eða einstaka muni þess. Safngestir innlendir og erlendir tala mjög oft um þá gersemi sem við séum með í höndunum – af hverju þetta safn sé staðsett hér en ekki í Reykjavík . Þetta segir okkur að við verðum að vera vakandi fyrir þessari viðkvæmu stofnun – stofnun sem virkilega hefur sýnt og sannað að hún stendur fyrir sínu og laðar að sér ferðafólk hvaðanæva að úr veröldinni.

Það er ánægjulegt að finna þá velvild og hlýju sem margir héraðsbúar sýna safninu með heimsóknum og/eða styrkja það á einn eða annan hátt. Aðstanendur Heimilisiðnaðarsafnsins þakka þennan stuðning og vonast til að sem flestir héraðsbúar sjái sér fært að heimsækja safnið árlega.

Elín S. Sigurðardóttir, forstöðum.