Húnavaka í safninu

18.07.2015

Eins og venja hefur verið undanfarin ár að þá býður Heimilisiðnaðarsfnið upp á sérstaka dagskrá á síðasta degi Húnavöku þ.e. sunnudaginn 19. júlí.

Í ár mun Kristín Ástgeirsdóttir, sagnfræðingur flytja Ömmufyrirlestur og hefst fyrirlesturinn kl. 14:00. Kristín nefnir fyrirlestur sinn “En amma hafði á öldinni gát og aflann úr fjörunni dró”. Kristín dregur upp mynd af ömmu og langömmu sinni en það má segja að mikil samsvörun hafi verið á lífi alþýðukvenna á öldinni sem leið burtséð frá því hvar á landinu þær höfðu búsetu. Eftir fyrirlesturinn mun Kristín bjóða upp á spjall við gesti – rifja upp minningarbrot frá lífi formæðra okkar. Þá mun einnig verða kaffi á könnunni.
Bæði fyrirlesturinn og Sumarsýning safnsins “Fínerí úr ´fórum formæðra” eru tileinkuð því að 100 ár eru frá því íslenskar konur fengu kosningarrétt.
Í tilefni dagsins eru konur hvattar til að taka fram þjóðbúninginn sinn og klæða sig uppá.