Upplestur á aðventu í Heimilisiðnaðarsafninu!

10.12.2015

Góður rómur var gerður að kynningu og upplestri úr nýjum bókum í Heimilisiðnaðarsafninu sl. sunnudag.

Bjarni Guðmundsson kynnti og las upp úr bók sinni „Íslenskir sláttuhættir“ og Sigrún Haraldsdóttir kynnti og las upp úr ljóðabók sinni „Hvítir veggir“.

Þá las heimafólk upp úr tveimur öðrum bókum, annarsvegar „Hersetan á Ströndum og Norðurlandi vestra“ eftir Friðþór Eydal sem Páll Þórðarson las upp úr og hinsvegar „Dagar handan við dægrin“ eftir Sölva Sveinsson sem Stefanía Garðarsdóttir las uppúr.

Áður en upplesturinn hófst afhenti Hlíf Sigurðardóttir, formaður kvenfélagsins Vöku á Blönduósi tvö gjafabréf til Heimilisiðnaðarsafnsins, hvort um sig að upphæð kr. 25.000- til minningar um tvær félagssystur þær Elísabetu Sigurgeirsdóttur og Margréti Ásmundsdóttur en þær létust báðar með örstuttu millibili í nóvember. Þær komu mikið við sögu og starf safnsins, Elísabet á upphafsárum þess en Margrét nú hin síðari ár.

Í lokin sötruðu gestir súkkulaði og mauluðu smákökur og áttu notalega rabbstund.