Rausnarleg gjöf

16.01.2016

Í tilefni af því að þ. 17. janúar eru liðin 100 ár frá fæðingu Guðrúnar Jónsdóttur (Nunnu) frá Hnjúki komu afkomendur hennar saman og heimsóttu m.a. Heimilisiðnaðarsafnið á Blönduósi. Í safninu eru margir munir varðveittir eftir þær mæðgur Stefaníu Steinunni Jósefsdóttur ( 1886 – 1977) og Guðrúnu Jónsdóttur (1916 – 2014).

Magnús sonur Guðrúnar afhenti f.h. afkomenda hennar safninu hundrað þúsund krónur til að heiðra minningu þeirra mæðgna í tilefni tímamótanna og sagði „ Heimilisiðnaðarsafnið skipaði stóran sess í hjarta Nunnu, en hún hafði yndi af því að taka þátt í starfi þess, að klæða sig í upphlutinn og spinna á rokkinn fyrir sýningargesti, gaf það henni margar góðar stundir“.

Steinunn á Hnjúki var annáluð hannyrðakona og sitthvað sem varðveist hefur eftir hana er hreinasta list. Guðrún dóttir hennar var einnig mikil hagleikskona í höndum og sérlega flínk spunakona. Var hún ævinlega boðin og búin að koma í safnið með rokkinn sinn og spinna fyrir skólabörn og gesti. Guðrún var gjaldkeri safnsins á fyrstu starfsárum þess eða allt til þess tíma að mynduð var sjálfseignarstofnun um safnið árið 1993. Hún lét sér afar annt um safnið og lagði fram mikið og óeigingjarnt starf í þágu þess.

Elín forstöðumaður tók við gjöfinni og þakkaði fyrir hönd safnsins, einstakan rausnarskap fjölskyldunnar frá Hnjúki.