Skólaheimsóknir í safnið

14.03.2016

Fyrir skömmu komu nemendur fimmta bekkjar allra grunnskóla héraðsins í hina árlegu heimsókn í Heimilisiðnaðarsafnið. Eins og venja er fá börnin leiðsögn og fræðslu um safnið. Þá fá þau að spreyta sig á að kemba og spinna ull – einnig að vefa. Börnin eru ævinlega mjög prúð og áhugasöm í þessum heimsóknum og finnst ótrúlegt að uppgötva hve langan tíma það tók að búa til þráð sem síðan var nýttur til að prjóna eða vefa efni í föt.

Meðfylgjandi myndir voru teknar af Sigríði B. Aadnegard, þegar börn úr 5. bekk Húnavallaskóla heimsóttu Heimilisiðnaðarsafnið.