Ársskýrsla safnsins 2015

30.04.2016

Heimilisiðnaðarsafnið er viðurkennt safn í samræmi  við  safnalög nr. 141/2011. Á síðasta ári voru safngestir u.þ.b. 3.400 og eru erlendir gestir þar í meiri hluta.  Flestir koma á eigin vegum en hópum hefur einnig fjölgað.

Rifjað skal upp að til að  safn hljóti viðurkenningu Safnaráðs  þarf það að uppfylla fjölmörg skilyrði t.d. að vera í opinberri eigu, sjálfseignarstofnun eða í eigu félags eða fyrirtækis , sem tryggir safninu fjárhagsgrundvöll til rekstrar og eðlilegrar starfsemi og skipar því stjórn. Þá skal safn ekki rekið í hagnaðarskyni, það skal hafa sjálfstæðan fjárhag, starfa eftir stofnskrá og/eða skipulagsskrá sem Safnaráð hefur staðfest, sbr. 7. gr. safnalaga. Stofnskrá skal birt í B-deild Stjórnartíðinda. Einnig þurfa viðurkennd söfn að hafa starfsleyfi frá heilbrigðis- og eldvarnareftirliti og hafa öryggis- og viðvörunarkerfi í lagi. Eftirlit sé með ljósmagni, hitastigi og rakastigi í húsnæði safnsins, til staðar sé neyðaráætlun fyrir gesti, starfsfólk og safnkost þá sé aðgengi í samræmi við lög og reglugerðir. Skráning á safnmunum þarf að uppfylla skilmála Safnaráðs og lögð áhersla á að faglega sé unnið að söfnun og varðveislu. Skila skal höfuðsafni (Þjóðminjasafni) stefnumörkun um starfsemina á fjögurra ára fresti. Safnið skal vera opið almenningi á auglýstum opnunartíma og upplýsingar um skráða gripi aðgengilegar almenningi. Stunda skal rannsóknir og miðlun og taka þátt í samstarfi svæðisbundið og á landsvísu. Safnið skal starfa í samræmi við siðareglur Alþjóðaráðs safna (ICOM) og ákvæði laga. Forstöðumaður skal hafa menntun á ábyrgðarsviði safnsins eða hafa aflað sér hliðstæðrar hæfni og færni.

Með fyrrnefndum Safnalögum  er verið að samræma starfsemi safna á Íslandi og tryggja að viðkomandi söfn starfi faglega. Einnig er verið að vekja eigendur safnanna til vitundar um að viðurkennd söfn  starfi eftir lögum sem um þau gilda og að þeir beri fjárhagslega og faglega ábyrgð á þeim.

Fjárhagur

Þrátt fyrir verulega fjárhagserfiðleika í árslok 2014 hefur náðst að skila örlitlum hagnaði á síðasta ári en eins og sjá má er rekstur safnsins þó í járnum.

Með vísan í  ársreikning sést að framlag sveitarfélaganna hækkaði um 50 þúsund krónur á milli ára. Framlag Safnasjóðs hækkaði um 450 þúsund,  en fyrir utan 1 milljón króna í rekstrarstyrk sem úthlutað er til allra viðurkenndra safna, fengust 1.3 milljónir í verkefnastyrki. Þá nema aðrir styrkir samtals 950 þúsundum og ber þar hæst styrki frá Uppbyggingarsjóði vegna ýmissa viðburða, en einnig veitti Kvenfélagið Vaka á Blönduósi safninu styrk að upphæð 100 þúsund krónur.  Þess ber að geta að Kvenfélagið Vaka afhenti einnig Heimilisiðnaðarsafninu tvær minningargjafir hvora um sig að upphæð kr. 25 þúsund til minningar um tvær félagssystur, þær Elísabetu Sigurgeirsdóttur og Margréti Ásmundsdóttur, sem létust með skömmu millibili. Báðar þessar heiðurskonur komu mikið við sögu og starf safnsins, Elísabet á upphafsárum þess en Margrét hin síðari ár.

Dálitlar birgðir eru til af Vefnaðarbók Halldóru en hvert selt eintak kemur inn sem hreinar tekjur þar sem allur kostnaður er löngu greiddur.

Lopapeysuverkefni

Eins og kunnugt er veitti Safnasjóður rannsóknarstyrk til Heimilisiðnaðarsafnsins, Hönnunarsafns Íslands og Gljúfrasteins, til að rannsaka uppruna, hönnun og þróun íslensku lopapeysunnar. Ásdís Jóelsdóttir, lektor við Háskóla Íslands, vann að verkefninu og skilaði skýrslu sem var birt fyrri hluta síðasta árs á heimasíðum safnanna þriggja. Í framhaldi  veitti Safnasjóður sömu söfnum styrk að upphæð kr. 1.5 m. á síðasta ári til að gera farandsýningu sem byggð verði á rannsóknarskýrslu Ásdísar. Unnið er að þessu verkefni með hönnuðum og standa vonir til að sýningin verði tilbúin á árinu 2016.

 Viðburðir

Sumarsýningin „Úr fórum formæðra“ var opnuð með viðhöfn  sunnudaginn 30. maí. Sýningin sem er eftir Guðrúnu Auðunsdóttur, listakonu,  er óður til fortíðar, enda tileinkuð því að 100 ár voru frá því að íslenskar konur fengu kosningarétt. Í upphafi opnunarinnar hlýddu gestir á ljúfa fiðlutóna Sigrúnar Eðvaldsddóttur, fiðluleikara sem var viðstödd þessa hátíðarstund.

Íslenski Safnadagurinn  var haldinn þ. 17. maí og af því tilefni  voru haldnir Stofutónleikar með Dúó Stemmu sem skipað er, Herdísi Önnu Jónsdóttur og Steef van Oosterhout. Efnisskrá þeirra samanstóð af íslenskum þjóðlögum, þulum og vísum. Léku þau á marimbu, íslenskt steinaspil og margskonar hefðbundin og heimatilbúin hljóðfæri. Tónleikarnir voru einstaklega skemmtilegir en líka fróðlegir og áheyrendur í skýjunum eftir þennan einstaka atburð þar sem þeir upplifðu frábæra stemningu í tali, tónum og hljóðum.

Á Húnavöku var boðið upp á fyrirlestur sem  Kristín Ástgeirsdóttir sagnfræðingur hélt. Fyrirlesturinn var einn úr fyrirlestraröð, svokallaðra „Ömmu fyrirlestra“ sem haldnir voru víðsvegar um landið til að minnast þeirra tímamóta að 100 ár eru frá því að íslenskar konur fengu kosningarétt. Fyrilestur Kristínar bar yfirskriftina „En amma hafði á öldunni gát og aflann úr fjörunni dró“.  Kristín gaf viðstöddum innsýn í líf ömmu sinnar og langömmu og fléttaði saman við þjóðfélagsstöðu íslenskra alþýðukvenna fyrri tíma.

Sem endranær á  Húnavöku  var lífgað upp á safnhúsið,  m.a. hengdar upp gardínur utan á glugga að framanverðu með vísun til uppsetningar á gardínum heimila síðustu aldar.  Þá puttaprjónuðu sumarstarfsstúlkur safnsins lengjur sem þær vöfðu um ljósastaurinn hér framan við og var framlag þeirra til „prjónagraffs“ handverkskvenna sl. sumars.

Stofutónleikar  „Tríó Kalinka“. voru í ágúst. Tríóið skipa  Gerður Bolladóttir, sópran, Flemming Viðar Valmundarson, harmonikkuleikari og Marin Shulmina sem spilaði á domra sem er rússneskt hljóðfæri.  Efnisskrá þeirra var mjög fjölbreytt, íslensk og rússnesk þjóðlög og fjörugir dansar bæði frá Íslandi og Rússlandi. Undirtektir áheyrenda voru mjög góðar enda afar skemmtilegir tónleikar sem því miður of fáir sáu sér fært að njóta.

Á haustdögum tók safnið þátt í málþingi um Jóhönnu Jóhennesdóttur, frá Svínavatni, í samstarfi við Textílsetrið og Þekkingarsetrið . Í tilefni tímamótanna var sett upp sýning í safninu á munum eftir Jóhönnu sem eru varðveittir þar og hjá Heimilisiðnaðarfélagi Íslands. Einnig mátti sjá nokkra muni eftir hana sem eru í einkaeigu fjölskyldunnar. Málþingið tókst í alla staði vel og var mjög vel sótt.

Á aðventu var eins og venja er til lesið uppúr nýjum bókum í Heimilisiðnaðarsafninu. Annarsvegar kynntu höfundarnir Bjarni Guðmundsson og Sigrún Haraldsdóttir og lásu upp úr eigin verkum. Einnig las heimafólkið Páll Þórðarson og Stefanía Garðarsdóttir uppúr tveimur nýum bókum.

Heimsóknir grunnskólabarna héraðsins er fastur liður í starfsemi safnsins. Nemendur fá þá leiðsögn um safnið og síðan tækifæri til að kemba og spinna og fylgja þræðinum í vef.  Töluvert er um heimsóknir nemenda innlendra sem erlendra á efri skólastigum s.s. frá Listaháskóla Íslands og ýmsum framhaldsskólum. Þá er vert að geta þess að listafólk sem dvelur í Kvennaskólanum heimsækir safnið eftir þörfum  að lágmarki einu sinni í mánuði.

Innra starf

Samstarfssamningur Heimilisiðnaðarsafnsins og Þekkingarsetursins var endurnýjaður en hann felur í sér 30 klukkustunda vinnuframlag sérfræðings í þágu safnsins. Einnig felur samningurinn í sér að Heimilisiðnaðarsafnið stendur listafólki sem dvelst ótímabundið í Kvennaskólanum opið eftir nánara samkomulagi.  Ákveðið er að Katharina Schneider sæki með vorinu skráningarnámskeið hjá Sarpi og læri grunnatriði varðandi skráningu í það kerfi.

Rannsóknarvinna á árinu 2015 tengdist að þessu sinni aðallega vettlingum í safninu.  Guðrún Hannele, kennari og verslunareigandi,  hefur gert samning annarsvegar við safnið og hinsvegar við Forlagið um að gefa út bók sem byggir alfarið á vettlingum sem varðveittir eru í safninu. Eins og áður hefur komið fram var á fyrrihluta síðasta árs birt rannsóknarskýrsla eftir Ásdísi Jóelsdóttur um uppruna og þróun íslensku lopapeysunnar og tengsl hennar við íslenska arfleifð.  Þá felst töluverð vinna hjá forstöðumanni við heimildaöflun vegna verkefna- og rannsóknarvinnu  nemenda af öllu landinu á efri skólastigum.

Styrkjandi forvörslu (viðgerð) er lokið á söðuláklæði frá árinu 1850, en vinna við það verkefni var styrkt af Safnasjóði. Þá er hafin vinna við styrkjandi forvörslu á silkipúða sem þykir einstakur. Forvarslan er í höndum Þórdísar Baldursdóttur, forvarðar og vonandi að Safnasjóður sjái sér fært að styrkja fleiri þörf verkefni.

Árlega berast safninu munir sem þarf að flokka, forverja og skrásetja. Eins og sagt var frá í síðustu ársskýrslu höfðu munir Heimilisiðnaðarsafnsins um árabil verið skráðir í gagnagrunninn Microsoft Acces. Nú hefur verið gerður notendaleyfissamningur við Rekstrarfélag Sarps,  sem er viðurkennt skráningarkerfi safna og eitt af skilyrðum Safnaráðs fyrir viðurkenningu.  Á síðasta ári var unnið að yfirfærslu á safnmunaskrá Heimilisiðnaðarsafnsins inn í skráningarkerfi Sarps. Í framhaldinu verður mikil handavinna fólgin í samræmingu og leiðréttingum. Safnasjóður styrkti þetta verkefni á síðasta ári og standa vonir til að fáist framhaldsstyrkur.

Greinar um Heimilisiðnaðarsafnið og sýningar þess hafa birst bæði á netmiðlum, blöðum og tímaritum hér á landi og erlendis. Bókin Íslenskt Prjón eftir Hélene Magnússon sem byggir á prjónuðum munum hér í safninu, hefur bæði komið út á íslensku og ensku og vekur veðskuldaða athygli. Er alveg ljóst að fjölgun gesta frá Bandaríkjunum tengist að stórum hluta þessari bók og virðast sumir safngesta koma í pílagrímsför til að upplifa það sem er að finna í safninu og fjallað er um í bókinni.

Hið daglega starf

Á síðasta ári var ákveðið að hækka starfshlutfall forstöðumanns í 60% en hann er eini fastráðni starfsmaður safnsins. Þess skal getið að 50% starfshlutfall er lágmarks starfshlutfall til að uppfylla skilyrði safnalaga.

Forstöðumaður ber ábyrgð á daglegum rekstri safnsins s.s. opnun safnins utan venjubundins opnunartíma, annast bréfaskriftir, gerð umsókna vegna rekstrar og annarra verkefna. Þá skipuleggur forstöðumaður og hefur umsjón með öllum viðburðum í safninu s.s. opnun sýninga, námskeiðum, skólaheimsóknum, fyrirlestrum, málþingum og tónleikum. Tekur á móti fræðafólki og aðstoðar það við rannsóknir og heimildaöflun. Forstöðumaður annast fjármál (þó ekki útreikning launa) og skrifar ársskýrslu og aðrar skýrslur. Forstöðumaður ber ábyrgð á þrifum og að munir safnsins séu varðveittir með öruggum hætti, hefur umsjón með rekstri og viðhaldi á húsnæði safnsins. Þá sér forstöðumaður um móttöku og forskráningu muna ásamt sérfræðimenntaðri aðstoðarkonu í hannyrðum. Með hliðsjón af fjárhag safnsins sá forstöðumaður sér ekki fært,  annað árið í röð, að sækja hinn árlega Farskóla safnamanna sem að þessu sinni var haldinn á Egilsstöðum en árið áður í Berlín.

Tvær námsstúlkur vinna í safninu á föstum opnunartíma á sumrin og undanfarin ár hefur fengist styrkur frá Atvinnuleysistryggingasjóði vegna hluta af launum þeirra, sem hefur komið sér afar vel.

Nokkrar eldri konur aðstoða í sjálfboðavinnu við móttöku og sýnikennslu nemenda á grunnskólastigi og hafa einnig tekið þátt í viðburðum s.s. á ísl.  Safnadeginum og Húnavöku.

Þá má geta þess að undanfarin ár hefur KPMG endurskoðun, skrifstofan á Blönduósi, annast launaútreikninga fyrir safnið án endurgjalds. Skal sá stuðningur hér með þakkaður.  Nú frá áramóum mun Blönduósbær annast bókhald og reikningsskil fyrir safnið.

 

Niðurlag

Eins og áður hefur komið fram voru gestir vel á fjórða þúsund og meirihluti þeirra erlendir og komu flestir á eigin vegum. Láta gestir í ljósi mikla ánægju með Heimilisiðnaðarsafnið. Margir tjá ánægju sína í gestabók safnsins.  Hlýjar kveðjur og umsagnir gefa byr undir báða vængi sem við aðstandendur þessa safns eigum að meðtaka og vera ánægð með. Undanfarin ár hefur mikil umræða skapast um textíl og textílmennt og ber þá gjarnan á góma þessi litli bær Blönduós og hvað hann hefur upp á að bjóða. Það hefur og sýnt sig að nemendur og listafólk ásamt  handverksfólki hefur nýtt sér þann brunn sem er að finna í safninu til fjölþættra rannsókna og útgáfu á bókum og fræðilegra ritgerða.

Heimilisiðnaðarsafnið er viðurkennt safn samkvæmt safnalögum sem við öll hljótum að vera stolt af. Það leggur hinsvegar miklar skyldur á okkur um að uppfylla skilyrði Safnalaga. Til að standa undir þeim skyldum, þarf að halda vel utan um þessa viðkvæmu og dýrmætu stofnun – það getum við vel gert með samstilltu átaki.

Að lokum skal bent á að hér á heimasíðu safnsin má sjá myndir frá ýmsum viðburðum ársins.

Elín S. Sigurðardóttir, forstöðum.