Upplestur á aðventu í Heimilisiðnaðarsafninu

18.12.2016

 

Sem oftar myndaðist notaleg stemmning í Heimilisiðnaðarsafninu síðastliðinn föstudag þar sem gestir blönduðu saman geði á fleiru en einu tungumáli, sötruðu heitt súkkulaði og mauluðu smákökur. Um það bil 30 manns nutu þessa en fækkuðu í 24 þegar upplesturinn hófst.

Lestrarvinir safnsins þau Kolbrún Zophoníasdóttir, Sigurjón Guðmundsson, Berglind Björnsdóttir og forstöðukonan Elín S. Sigurðardóttir, kynntu og lásu upp úr nýjum bókum. Kolbrún gaf okkur innsýn í bók Arnaldar Indriðasonar, Petsamo og las fyrstu tvo kafla bókarinnar og ljóst að áheyrendur hefðu getað hugsað sér meira. Þá las Sigurjón úr bókinni Heiða – fjalladalabóndinn eftir Steinunni Sigurðardóttur, og vöktu skondnar lýsingar Heiðu á sjálfri sér hlátur viðstaddra. Berglind las upp úr bókinni Elsku Drauma mín eftir Vigdísi Grímsdóttur, hugljúfan kafla um minningar dóttur Nóbelsskáldsins okkar. Þá kynnti Elín bókina Af fingrum fram, líf og list Aðalbjargar Jónsdóttur, eftir Kristínu Schmidhauser Jónsdóttur, og las upp kaflann um Kvennaskólann á Blönduósi, en draumur Aðalbjargar var að komast í Kvennaskólann og sparaði hún hvern eyri til að láta þann draum rætast.

Elín gat þess að Sumarsýning Heimilisiðnaðarsafnsins á næsta ári yrði á nokkrum kjólum Aðalbjargar en hún mun hafa prjónað og hannað 100 kjóla sem er hver öðrum fallegri og myndir af mörgum þeirra prýða einmitt bókina. Minntist hún þess að Aðalbjörg varð 100 ára daginn áður.

Að lokum vakti Elín athygli á bók Guðríðar B. Helgadóttur, sem kom út á síðasta ári og ber titilinn „Þessi kona“ á tíunda tugnum. Bókin er í raun framhald af  bókinni „Þessi kona“ sem kom út árið 2010 og spannaði þá yfir tímabilið 1921 – 2010. En eins og segir í formála bókarinnar „En klukkan hélt áfram að tifa og konan að hugsa“.

Gestir voru glaðir í sinni er þeir héldu aftur út í skammdegið eftir notalega stund í safninu – enda hverjum þykir ekki gott að láta lesa stöku sinnum upphátt fyrir sig.