Upplestur á aðventu

12.12.2017

Það var ljúf og notaleg stemmning í Heimilisiðnaðarsafninu þann 1.
desember síðastliðinn er gestir sötruðu heitt súkkulaði , mauluðu
smákökur og hlýddu síðan á upplestur úr nýum bókum.

Sigmundur Ernir Rúnarsson kynnti og las upp úr bókinni Rúna –
Örlagasaga sem hann skrifaði um Rúnu Einarsdóttur frá Mosfelli í
Svínavatnshreppi. Mjög ánægjulegt var að Rúna var sjálf viðstödd
athöfnina og áritaði bækur ásamt höfundi.

Þá las Sigmundur einnig upp úr sinni eigin bók sem ber nafnið
Flökkusögur.

Einnig las Kolbrún Zophoníasdóttir upp úr bókinni Ekki vera sár eftir
Kristínu Steinsdóttur.

Í lokin var sagt stuttlega frá bókinni um Íslensku lopapeysuna eftir
Ásdísi Jóelsdóttur. Bókin er byggð á rannsóknarskýrslu Ásdísar sem
hún vann vegna samstarfsverkefnis Heimilisiðnaðarsafnsins,
Hönnunarsafns Íslands og Gljúfrasteins, húss skáldsins.
Þá var minnt á bókina Prjónað af fingrum fram eftir Kristínu
Schmidhauser Jónsdóttur sem kom út fyrir ári síðan á aldarafmæli
Aðalbjargar Jónsdóttur. Í tilefni þeirra tímamóta samanstendur
Sumarsýning safnsins í ár af nokkrum kjólum sem Aðalbjörg hannaði
og prjónaði.