Ársskýrsla 2023

26.06.2024

Inngangur

Ágætis aðsókn var að Heimilisiðnaðarsafninu á árinu og fjöldi safngesta hefur náð sér á strik eftir Covid lægðina og var rúmlega 3500 manns.

Starfsemi safnsins var mjög fjölbreytt og eins og venja ber til var ný sérsýning opnuð í safninu, haldnir stofutónleikar, fyrirlestrar, skólaheimsóknir, auk töluverðrar rannsóknarvinnu, ásamt mikilli vinnu í innra starfi safnsins.

Hér skal minnt á að Heimilisiðnaðarsafnið er viðurkennt safn sem starfar í samræmi við safnalög nr. 141/2011. Safnið þarf að uppfylla fjölmörg skilyrði bæði um eignarhald og ábyrgð á rekstri. „Safn skal vera í eigu opinberra aðila, sjálfseignarstofnunar, félags eða fyrirtækis sem tryggir safninu fjárhagsgrundvöll fyrir eðlilega starfsemi þess og skipar því stjórn. Safn skal ekki rekið í hagnaðarskyni“.

Viðurkennd söfn skulu hafa starfsleyfi frá heilbrigðis- og eldvarnareftirliti og hafa öryggis- og viðvörunarkerfi í lagi. Eftirlit sé með ljósmagni, hitastigi og rakastigi í húsnæði þess, til staðar sé neyðaráætlun fyrir gesti, starfsfólk og safnkost, þá sé aðgengi allra gesta í samræmi við lög og reglugerðir.

Skráning á safnmunum þarf að uppfylla skilmála Safnaráðs og lögð áhersla á að faglega sé unnið að söfnun og varðveislu. Stunda skal rannsóknir á þeim menningararfi sem safnið geymir og miðla niðurstöðum t.d. með útgáfu og öðrum kynningum, taka þátt í samstarfi svæðisbundið og á landsvísu svo nokkuð sé nefnt. Forstöðumaður skal hafa menntun á ábyrgðarsviði safnsins eða hafa aflað sér  hæfni og færni til reksturs á safni.

Safnaráði er samkvæmt safnalögum falið að hafa eftirlit með viðurkenndum söfnum sem starfa eftir skilmálum þess um starfsemi viðurkenndra safna.

Eftirlit safnaráðs er þríþætt:

  1. Eftirlit með rekstri. Þetta er árlegt eftirlit sem er framfylgt með því að viðurkennd söfn skila Árlegri skýrslu til Safnaráðs.
  2. Eftirlit með húsakosti, aðbúnaði safnkosts, varðveislu gripa og öryggismálum. Þetta eftirlit fer fram á nokkurra ára fresti og er framkvæmt af eftirlitsnefnd Safnaráðs.

Heimilisiðnaðarsafnið fékk heimsókn eftirlitsaðila Safnaráðs haustið 2022 og eins og kom fram í síðustu ársskýrslu var loka niðurstaða eftirlitsaðila eftirfarandi: Starfsmenn safnsins eru vel meðvitaðir um varðveislumál og hugsa mjög vel um safnkostinn. Heimilisiðnaðarsafnið þarf ekki frekari heimsókn. Eftirlitsaðili metur að safnið hafi formlega lokið 2. hluta eftirlits.

  1. Eftirlit með skráningu gripa og aðgengi að safnkosti og sýningum. Framfylgt með úttekt sérfræðinga á staðnum og gögnum eftir tilefnum.

 

Fjárhagur

Erfitt hefur verið að ná endum saman í rekstri Heimilisiðnaðarsafnsins. Kemur þetta sérstaklega niður á eðlilegu viðhaldi á húsakosti safnsins.

Framlag Byggðasamlags um menningar- og atvinnumál stóð í stað frá fyrra ári og nam 6.9 milljónum króna til reksturs safnsins. Verkefnastyrkir Safnasjóðs námu samtals 2.7 milljónum.

Aðrir styrkir komu frá Uppbyggingarsjóði til reksturs kr. 900.000 og 600.000 þúsund til verkefna, frá Menningarsjóði Kaupfélags Skagfirðinga kr. 300 þúsund. Þá má nefna að aðgangseyrir og aðrar tekjur námu rúmlega 4.7 milljónum króna. Vísast hér nánar í ársreikninga safnsins.

Eftir því sem fjárráð hafa leyft hefur verið unnið að viðhaldi safnhússins. Á síðastliðnu ári tókst að fara í viðgerð á þaki Útsaumsstofunnar (hvíta herbergi) þar sem orðið hafði vart við leka sem ógnaði safnmunum. Hafa því þök tveggja salarrýma fengið viðhlítandi viðgerð en farið var í svipaðar aðgerðir á þaki þjóðbúningastofunnar fyrir þremur árum síðan. Áætlað er að fara í samskonar viðgerð á þriðja salarkubbnum fljótlega á næsta ári. Erfitt hefur verið að komast fyrir  rakaskemmdir og leka í tengigangi en verið er að leita leiða til varanlegra úrbóta  sem hætt er við að verði kostnaðarsamar.

Viðburðir

Sumarsýning safnsins var opnuð með viðhöfn í byrjun júní. Að þessu sinni var sýningin helguð handverks – og listamanninum Philippe Ricart sem lagði sérstaka áherslu á að viðhalda gömlum íslenskum handverkshefðum og nota íslenskt hráefni og efnivið eins og kostur var. Það var nýbreytni að í fyrsta sinn voru verk sumarsýningarinnar/sérsýningarinnar eftir karlmann, látinn einstakling, sem var af erlendu bergi brotinn en hafði búið á Íslandi frá árinu 1979. Martha Ricart, dóttir Philippe og konu hans Jóhönnu Hálfdánsdóttur, opnaði sýninguna og dótturdóttir hans, Alda Ricart, spilaði á þverflautu fyrir gesti.  Aðgangur var ókeypis á opnunina en fjölskylda listamannsins bauð upp á léttar veitingar. Uppbyggingarsjóður styrkti verkefnið.

Alþjóðlegi safnadagurinn var haldinn þann 18. maí en yfirskrift hans var að þessu sinni „Söfn, sjálfbærni og vellíðan“.

Á Húnavöku voru Stofutónleikar Heimilisiðnaðarsafnsins haldnir. Það var Alexandra Chernyshova, sópran og tónskáld sem flutti blandaða dagskrá. Má segja að Alexandra hafi í bókstaflegri merkingu sungið sig inn í hug og hjörtu viðstaddra en á þessum tónleikum myndaðist einstök stemning. Að afloknum tónleikum þáðu gestir  veitingar að hætti safnsins sem voru innifaldar í aðgangseyri. Uppbyggingarsjóður styrkti viburðinn.

Heimsóknir grunnskólabarna héraðsins sem er fastur liður í starfsemi safnsins fóru fram  fyrri hluta árs og eins og venja er til fengu börnin leiðsögn um safnið sem og að kemba, spinna og vefa í vefstól. Listafólk sem dvelur í Kvennaskólanum heimsækir safnið eftir þörfum. Töluvert er um sérstakar móttökur nemenda á efri skólastigum svo og ýmissa sérfræðinga á sviði textíls og eða sagnfræði vegna hugmyndaöflunar og ýmiss konar rannsóknarvinnu.

Fræðilegir fyrirlestrar hafa verið fastir liðir á haustdögum í Heimilisiðnaðarsafninu. Í þetta sinn heimsóttu okkur feðginin Jón Jónsson og Dagrún Ósk Jónsdóttir, þjóðfræðingar á Ströndum. Í

farteskinu höfðu þau sögur og fróðleik fyrir fullorðna um gömlu íslensku jólafólin. Ágætis aðsókn var á viðburðinn og að sjálfsögðu ókeypis aðgangur og kaffi og meðlæti að honum afloknum.

Námskeið um íslenska búninga og þróun þeirra til þjóðbúninga var haldið fyrir safnafólk á haustdögum í Heimilisiðnaðarsafninu. Hjónin Hildur Rosenkjær, sagnfræðingur og klæðskeri og Ásmundur Kristjánsson, gullsmiður sem er sérfróður um búningaskart, héldu fyrirlestur/námskeið um fatnað og búningaskart.

Upplestur á aðventu er einn af hefðbundnum viðburðum Heimilisiðnaðarsafnsins og fór fram á aðventu. Í upphafi minntust viðstaddir Sigurjóns Guðmundssonar sem í mörg ár hefur verið einn af föstum lestrarvinum safnsins. Lesið var úr nokkrum nýjum bókum og voru upplesarar að þessu sinni þau Magdalena Berglind Björnsdóttir, Benedikt Blöndal og Kolbrún Zophoníasdóttir. Ágætis aðsókn var að upplestrinum og á eftir var sötrað heitt súkkulaði og maulaðar smákökur og var aðgangur ókeypis.

Innra starf

Undanfarin ár hefur átt sér stað töluverð rannsóknarvinna á munum safnsins. Öll bréfagögn Halldóru Bjarnadóttur (HB) í eigu Heimilisiðnaðarsafnsins eru nú aðgengileg í Landsbókasafni – Háskólabókasafns. Áslaug Sverrisdóttir, sagnfræðingur lauk við að flokka viðauka við fyrri flokkun sem hún vann laust fyrir síðustu aldamót. Þá tók Áslaug að sér nýtt rannsóknarverkefni sem er greining og skráning textíla á Prufusafni HB og er því verki nú lokið. Í samantekt á skýrslu Áslaugar segir svo: Prufusafnið úr ull er að mati skrásetjara mikilvæg viðbót við heimildir um klæðnað landsmanna á síðari hluta 19. aldar og fyrri hluta þeirrar 20. Það er sem sé tengt verklagi og tækni gamla sveitasamfélagsins – ullarkömbum, halasnældum, rokkum, vefstólum, sauðalitum og jurtalitum. Um prufur úr bómull er það að segja að þær hafa skýra tengingu við húsmæðraskólana og  tengja safnið við upphaf borgarmenningar á Íslandi, búshluti sem voru skreyttir og innanstokks skreytingar. Í framhaldi er síðan vinna starfsmanna safnsins að skrásetja og ljósmynda prufusafnið og vista í Sarpi, skráningarkerfi safna. Hefur Safnasjóður veitt styrk til verkefnisins.

Önnur helsta rannsóknarvinna tengdist eins og oft áður að töluverðu leiti ritgerðum nemenda á efri skólastigum. Einnig er ævinlega nokkuð um beiðnir og í framhaldi aðstoð við innlenda og erlenda sérfræðinga á ýmsum sviðum sem  fá að nýta safnmuni til einstakra rannsóknaverkefna á sviði textíls og eða sagnfræði vegna hugmyndaöflunnar og ýmiss konar rannsóknarvinnu.

Góðar gjafir berast árlega og í þetta sinn ýmsar gjafir sem auðga safnkostinn.

Skráning og ljósmyndun á munum safnsins hefur haldið áfram með styrk frá Safnasjóði. Nú er komið að lokahnyggnum á þessu verkefni og standa vonir til að hægt verði að ljúka við ljósmyndun og skráningu á öllum munum safnsins á árinu 2024. Meðfram hefur verið unnið að samræmingu og leiðréttingum á skráningum svo og að skrá inn ný aðföng. Þetta hefur verið mikil og tímafrek vinna í innra starfi safnsins.  

Menningarminjasöfnin á Norðurlandi vestra þ.e. Heimilisiðnaðarsafnið, Byggðasafn Skagfirðinga og Byggðasafn Húnvetninga og Strandamanna hafa undanfarin ár átt í ýmiskonar samstarfi s.s. með sameiginlegu námskeiðahaldi, gerð vefsýninga ásamt gagnkvæmum stuðningi við hvort annað. Síðastliðið haust stóðu söfnin að námskeiði fyrir safnafólk um íslenska búninga og þróun þeirra. Veitti Safnasjóður samstarfsstyrk til verkefnisins.

Greinar um Heimilisiðnaðarsafnið og sýningar þess birtast á hverju ári í ýmsum dagblöðum, tímaritum íslenskum sem erlendum og á netmiðlum. Af og til erum við svo heppin að fá heimsóknir frá ljósvakamiðlum. Safnið stendur gjarnan með fullt hús stiga hjá TripAdvisor.

Undanfarin ár hafa verið gefnar út bækur á ýmsum tungumálum sem byggja á safnmunum Heimilisiðnaðarsafnsin. Nefna má bókina Íslenskir vettlingar eftir Guðrúnu Hannele, Íslenskt prjón og  Sokkar frá Íslandi eftir Hélen Magnússon, en allar bækurnar hafa vakið verðskuldaða athygli á safninu og þeim einstaka menningararfi sem þar er að finna. Fyrir utan þessar bækur eru ýmsar fleiri sem byggja að stórum hluta á rannsóknum muna safnsins.

Þrátt fyrir takmörkuð fjárráð til markaðssetningar er reynt að vera með í sameiginlegum safnaauglýsingum bæði á landsvísu og  í héraði.

Hið daglega starf

Starfshlutfall forstöðumanns hefur síðustu árin verið 60% og er hann eini fastráðni starfsmaður safnsins og annast og ber ábyrgð á allri starfsemi þess. Venja er að ráða tvær sumarstúlkur sem starfa á aðal opnunartíma safnsins. Forstöðumaður reynir að sækja helstu safnafundi sem haldnir eru innanlands s.s. farskólafund safnamanna og fundi í Þjóðminjasafni.

Stefnumörkun í safnastarfi kom út árið 2021. Þar er m.a. lögð áhersla á samfélagslegt hlutverk safna og sameiginlegri ábyrgð samfélagsins. Lögð er áhersla á að eigendur safna setji sér eigendastefnu sem leitast við að skýra hlutverk og ábyrgð þeirra. Safnaráð veitir faglegt aðhald og eftirlit með starfi og rekstri viðurkenndra safna. Eigendur safna skulu tryggja fjármagn til reksturs og stuðnings til faglegs starfs á öllum sviðum þeirra.

Nokkrar umræður hafa verið um nauðsyn að einfalda eignarhald safna og með tilkomu sameiningar sveitarfélaga og vinnu við nýjar skipulagsskrár, bæri að skoða þennan þátt og breytingar á stjórnskipun safna. Horft skuli til þess að þróa söfnin í stærri stofnanir, hafa miðstöð í hverjum landshluta, vera samofin stærra umhverfi en okkar eigin, þar sem hægt sé að sækja faglega þjónustu. Einnig að nauðsynlegt sé að taka tillit til skyldna viðurkenndra safna og brýna eigendur safna að tryggja fjárhagslegt öryggi viðkomandi safns, enda skylda samkvæmt lögum.

 Á árinu 2023 var skipulagsskrá Heimilisiðnaðarsafnsins uppfærð með hliðsjón að fækkun sveitarfélaga sem að því standa.

Rifjað skal upp að SSNV lét vinna skýrslu/fýsileikakönnun um samstarf og hugsanlegar sameiningar safna í landshlutanum í samræmi við tillögu í Byggðaáætlun 2018-2024. Jón Jónsson og Eiríkur Valdimarsson sem báðir eru þjóðfræðingar og starfa hjá Rannsóknarsetri Háskóla Íslands á Ströndum, unnu skýrsluna.

Ef við rýnum í skýrsluna  segir m.a. svo um Heimilisiðnaðarsafnið, undir kaflanum Viðurkennd minjasöfn í landshlutanum.

„Heimilisiðnaðarsafnið á Blönduósi er með skýr markmið um söfnun, varðveislu og skráningu. Sérstaða þess er mikil á landsvísu og safnið er á margan hátt stórmerkilegt. Og síðan: Safnið er með minni viðurkenndum söfnum á landinu, hvað varðar veltu og fjármagn sem er til ráðstöfunar til rekstursins, en starfsemi þess er hinsvegar bæði viðamikil og mjög frambærileg á landsvísu. Þar er hugað að fræðslu, kennslu og rannsóknum, auk þess sem tekið er á móti og unnið með rannsakendum á þessu sviði. Árið 2010 var safnið tilnefnt til íslensku safnaverðlaunanna. Heimilisiðnaðarsafnið er duglegt að fá til sín fræðafólk sem hefur haldið þar erindi og fyrirlestra, einnig hefur verið samstarf um sérsýningar sem eru unnar t.d. með Hönnunarsafni íslands og Gljúfrasteini. Auk þess hafa textílhönnuðir og listafólk sett upp nýjar sérsýningar árlega á Heimilisiðnaðarsafninu, síðan starfsemin færðist í nýja húsnæðið árið 2003. Eins hefur verið margvíslegt samstarf við byggðasöfnin í landshlutanum, m.a. sett upp vefsýning sem er aðgengileg á Sarpnum (sarpur.is), skráningarkerfi safna“.

Á kynningarfundi um skýrslu Jóns og Eiríks var sett fram tillaga um þriggja ára verkefni 2022-2024  um samstarf og samtal og tóku forsvarsmenn Byggðsafns Skagfirðinga og Héraðsskjalsafns Skagfirðinga að sér að hafa veg og vanda að skipulagningu samstarfsins fyrsta árið. Á árinu 2023 undirbjuggu Héraðsskjalasafn A-Hún, Heimilisiðnaðarsafnið og Spákonuhof svokallaða Söguferð um Austur Húnavatnssýslu sem var ágætlega sótt og mæltist vel fyrir.

 

Eins og áður hefur komið fram er mjög sótt á frá textíllistafólki að halda sérsýningu í safninu. Oft getur verið dálítill vandi að velja inn listafólk til sýningar en ævinlega er lagt upp með að hafa sýningarnar sem ólíkastar á milli ára og gefa sýn á fjölbreytileika textíllistarinnar á Íslandi.

Mikil áhersla er lögð á að halda vel utan um safnmunina og á hverju ári farið yfir alla muni í sýningum safnsins, sumir teknir útúr sýningum og hvíldir og aðrir settir inn í staðinn. Reynt er eftir fremsta megni að lágmarka ryk og óhreinindi á veggjum og gólfum og láta safngestir gjarnan í ljósi hve safnið sé hreint og góð upplifun að heimsækja það.

Húnabyggð annast launaútreikninga fyrir safnið, en að öðru leiti hafa allar fjárreiður og bókhald verið á hendi forstöðumanns. Þá hefur sveitarfélagið einnig annast slátt á lóð safnsins og ber að þakka þessa aðstoð.

Niðurlag

Við opnun Sumarsýningar safnsins sl. vor, var þess minnst að 20 ár væru liðin frá því nýja hús safnsins var vígt við hátíðlega athöfn. Í orðum forstöðumanns kom fram að tilkoma þessa húss hafi í raun opnað nýjar víddir um gott aðgengi gesta að safninu og munum þess. Safnmunum hafi fjölgað úr því að vera u.þ.b. 1200 í tæplega 4 þúsund. Safnið hafi hlotið mikla umfjöllun í margskonar miðlum, innlendum sem erlendum og einnig allnokkrar opinberar viðurkenningar. Þá hafi á þessum tuttugu árum nær 60 þúsund gestir heimsótt safnið og rúmlega helmingur erlendir ferðamenn. Dæmi væri um að heimsókn í safnið væri aðaltilefni heimsóknar til Íslands. Það væru því mikil og jákvæð áhrif sem safnið hefði á aðra þætti í ferðaþjóustu héraðsins sem seint væru ofmetin.

Að lokum skal rifjað upp að fyrir utan Sumarsýningar safnsins, mynda munir safnsins nokkrar „fastar“ sýningar.

  1. Útsaumssýning – sérlega fallegur undirfatnaður kvenna og listfengar hannyrðir.
  2. Sýning á þjóðbúningum – úrval íslenskra þjóðbúninga frá seinni hluta nítjándu aldar til okkar daga.
  3. Ullarsýning – þar sem vinnsluferli ullar er sýnt, gestir fá að handleika ullina og finna mismuninn á togi og þeli og spreyta sig á að kemba og spinna á halasnældu.
  4. Áhöld og verkfæri, mörg hver heimasmíðuð sem notuð voru við heimilisiðnað.
  5. Halldórustofa – helguð lífi og starfi hinnar merku konu Halldóru Bjarnadóttur.

Við mörg hér í héraði teljum að Heimilisiðnaðarsafnið sé rétt eins og mörg söfn á Íslandi, stolt samfélagsins og er það hið eina sinnar tegundar á Íslandi og varðveitir fyrst og fremst menningararf kvenna. Sumarsýningarnar hafa skapað samstarf, útvíkkað og tengt safnið við sköpun listar og handverks í samstarfi við starfandi listafólk og hönnuði. Þetta er nýnæmi og sýnir glögglega stöðugt hlutverk safnsins sem uppsprettu hugmynda í nýsköpun textílmenningar. Og það er ekki aðeins gestir og listafólk sem tala um fallegt safn heldur einnig þekktir listfræðingar sem tala og skrifa um að Heimilisiðnaðarsafnið sé eitt fallegasta safn landsins.

Heimilisiðnaðarsafnið er opið alla daga frá 1. júní til 31. ágúst og á öðrum tímum eftir samkomulagi. Bendi sérstaklega á heimasíðu safnsins textile@textile.is þar sem sjá má myndir og sýnishorn af sumarsýningunum og öðrum menningarviðburðum safnsins ásamt yfirliti um starfsemi þess.

Elín S. Sigurðardóttir, forstöðumaður