Um safnhúsið

Heimilisiðnaðarsafnið var í afar þröngum húsakynnum, sem áður fyrr voru fjós og hlaða við Kvennaskólann á Blönduósi. Því var ákveðið að byggja nýtt hús sem tengdist gamla safnhúsinu.

Fyrsta skóflustungan að viðbyggingu við Heimilisiðnaðarsafnið á Blönduósi var tekin 6. okt. árið 2001. Teiknistofa Guðrúnar Jónsdóttur sá um hönnun byggingarinnar. Verkfræðistofa Þorsteins Magnússonar annaðist verkfræðiþjónustu og verkfræðifyrirtækið Víkingur hf. um rafteikningar.

Húsið er um 248 fm. Að grunnfleti auk 90 fm. kjallara og tengist nýja húsið því gamla á báðum hæðum og er lyfta á milli hæða.

Í húsinu eru þrír sýningarsalir, kaffirými og snyrtingar, auk skrifstofu og þjónusturýmis.

Í kjölfar útboðs var samið við Jón Eiríksson ehf. um byggingu og fullnaðarfrágang hússins og var það afhent 31. janúar árið 2003.

Vígsla safnsins fór fram á uppstigningardag, þann 29. maí 2003 að viðstöddu miklu fjölmenni.