Opnun sumarsýningar

1.06.2014

Það var hátíðisdagur í Heimilisiðnaðarsafninu á Uppstigningardag en liðlega 100 manns voru viðstaddir opnun sýningar Þórdísar Jónsdóttur, frá Akureyri, sem hún nefnir „Sporin mín.“

Við athöfnina söng Móheiður Guðmundsdóttir, við undirleik Guðmundar Árnasonar og Jóns Heiðars Sigurðssonar

Í ávarpi Elínar kom fram að ný sérsýning hefur verið opnuð í safninu á hverju ári frá 2003 þegar nýja hús safnsins var tekið í notkun. Sýningarnar hafa mælst afar vel fyrir eru mjög ólíkar frá ári til árs og gefa innsýn í textílflóru íslenskra textíllistamanna. Elín varpaði fram þeirri spurningu „ hvort það væri sjálfsagt mál að lítið safn opnaði nýja listsýningu á hverju vori“? Benti á hve mikill undirbúningur og skipulag þyrfti að eiga sér stað ekki aðeins vegna opnunar Sumarsýningar heldur líka vegna sumaropnunar safnsins og næsta víst að fáir gerðu sér grein fyrir hve marga enda þyrfti að hnýta. Hún sagði einnig að það að opna nýja sýningu, halda Stofutónleika, bjóða til upplesturs á aðventu sem væru örfá dæmi af sýnilegum viðburðum í safninu, skapaði fjölbreytileika í safnastarfsemina og í menningarlíf héraðsins.

Þá kom Elín inn á að Heimilisiðnaðarsafnið starfaði ekki aðeins eftir Stofnskrá, heldur líka söfnunar – sýningar – og starfstefnu. Safnaráð setur skilmála varðandi húsnæði, öryggismál, aðgengi, skráningarkerfi og faglegt starf, sem söfn verða að uppfylla til að hljóta viðurkenningu. Sé safn ekki viðurkennt er það ekki styrkhæft frá Safnaráði. Heimilisiðnaðarsafnið hefur hlotið skilyrta viðurkenningu Safnaráðs – það sem okkur vantar uppá er að skráningarkerfi okkar er ekki á veraldarvefnum, sagði Elín.

Elín kvað mikið rannsóknarstarf hafa verið unnið í safninu undanfarin ár. Nefndi hún í því sambandi bókina Icelandic Handknits, eftir Héléne Magnússon, sem kom út í fyrra á ensku en kemur út á íslensku innan tíðar. Bókin fjallar um prjón í Heimilisiðnaðarsafninu og hefur Elín ritað formála og ágrip af sögu safnsins í bókina. Bókin er mikil auglýsing fyrir safnið og Blönduós.

Sérstök kynning var síðan á listakonunni Þórdísi og verkum hennar, vísaði Elín m.a. í hennar eigin umsögn „ég þræði nál með litfögru garni og sting fyrsta sporið, þar með hefst dans sem ég og nálin stígum saman“. Þórdís fer ekki alltaf hefðbundnar leiðir, fer jafnvel af stað með fyrirfram ákveðið form og munstur í huga, en í vinnuferlinu fæðast oft á tíðum nýjar hugmyndir og verkið þróast í aðrar áttir.

Eftir að sýningin hafði verið opnuð, sagði Elín frá því að fyrrum starfandi handverkshópur „Heimaiðjan“ hefði í vetur gefið til safnsins kr. 150.000 krónur með ósk um að peningarnir yrðu látnir ganga upp í kaup á belti við 17. júní kyrtilinn sem Heimilisiðnaðarsafnið og Blönduósbær eiga saman. Stjórn safnsins tók þá ákvörðun að leggja framlag á móti sem tekið væri af reikningi Hollvina safnsins og að einnig yrði keypt brjóstnæla. Ákveðið var að beltisstokkarnir yrðu saumaðir á flauelisteigju svo það hentaði betur til notkunar. Kom og fram að nokkrir velunnarar safnsins leggðu  inn á reikning hollvina – þess vegna gátum við gert þetta sagði Elín en nefndi jafnframt að ýmsir aðrir leggðu hönd á plóg með öðrum hætti eins og til dæmis hún Björg frá Sveinsstöðum sem hefði þann sið að gefa kleinur með kaffinu fyrir opnun Sumarýningarinnar.

Tvær stúlkur munu starfa hjá Heimilisiðnaðarsafninu í sumar þær Sigurdís Sandra Tryggvadóttir, frá Ártúnum og Hrafnhildur Una Þórðardóttir frá Blönduósi.

Í lok dagskrár tóku gestir undir með tónlistarfólkinu og sungið var saman „Blátt lítið blóm eitt er“.

Gestir gæddu sér síðan á kleinunum hennar Bjargar og nutu þess að eiga stund með samborgurunum í kaffispjalli.