Viðburðir

Árleg sérsýning

Á hverju ári frá því nýja safnhúsið var vígt árið 2003 hefur verið opnuð ný sýning textíllistafólks í Heimilisiðnaðarsafninu á Blönduósi.

Um hefur verið að ræða bæði einkasýningar og samsýningar. Allar sýningarnar hafa verið mjög metnaðarfullar en um leið afar ólíkar og vakið mikla athygli sýningargesta. Yfirlit yfir sérsýningar má sjá hér á síðunni undir „Sýningar – Sérsýningar“.

 

Upplestur á aðventu

Aðventan er tími stemningar í Heimilisiðnaðarsafninu. Þá er lesið úr nýútkomnum bókum og algengt að höfundar sæki safnið heim en einnig sér heimafólk um upplestur.

Oft er margt um manninn á þessum samkomum og er öllum viðstöddum boðið uppá heitt súkkulaði og jólasmákökur.

 

 

Fyrirlestrar og málþing

Ýmiskonar fyrirlestrar og málþing eða málstofur fara fram í Heimilisiðnaðarsafninu sem of langt er upp að telja.

Ánægjulegt er þó að minnast málþings sem haldið var á haustdögum 2008 í tilefni að 135 ár voru liðin frá fæðingu Halldóru Bjarnadóttur. Fluttir voru fimm fyrirlestrar sem fjölluðu um líf og starf Halldóru og umbreytingu á hlutverki kvenna á Íslandi á síðustu öld. Í lokin fóru síðan fram pallborðsumræður þar sem gestir tóku þátt. Um það bil 70 manns sóttu málþingið sem var gestum að kostnaðarlausu en öllum málþingsgestum var boðið uppá súpu og salat – kaffi og kleinur og að síðustu sérrílögg að hætti H.B.

Í tengslum við Handverk og Hönnun mættu á svæðið þær listakonur sem unnu síðan að Sumarsýningu safnsins 2009.

Þetta málþing þótti takast mjög vel.

 

Námskeiðahald

Á hverju ári eru haldin námskeið í Heimilisiðnaðarsafninu, svo sem í útsaumi, hekli, prjóni ofl. Einnig eru haldin svokölluð „Örnámskeið“  sem eru aðeins þriggja klukkustunda námskeið og eru þá kennd grunnatriði í margskonar handavinnu.  Af og til eru svo haldin námskeið í þjóðbúningasaumi sem ná yfir nokkrar vikur í senn.

 

 

 

Stofutónleikar

Undanfarin ár hafa verið haldnir svokallaðir Stofutónleikar í Heimilisiðnaðarsafninu. Meðal listamanna sem komið hafaeru Rut Ingólfsdóttir, fiðluleikari; Ellen Kristjánsdóttir og Eyþór Gunnarson, Dúó Stemma og Skagfirski kammerkorinn. Hafa tónleikarnir ávallt mælst afar vel fyrir.