Halldórustofa

Halldórustofa er sérstök deild innan safnsins, helguð lífi og starfi hinnar merku konu Halldóru Bjarnadóttur( 1873- 1981).

Þekktust var Halldóra fyrir brautryðjendastörf er varða mennt og menningu kvenna og eflingu heimilisiðnaðar á síðustu öld.

Halldóra lauk kennaranámi frá Noregi árið 1899 og kenndi veturinn eftir við Barnaskóla Reykjavíkur en hvarf svo aftur til Noregs þar sem hún stundaði kennslu allt til ársins 1908. Þá bauðst henni skólastjórastarf við Barnaskóla Akureyrar sem hún sinnti ásamt kennslu í 10 ár. Hún kom á ýmsum nýjungum í skólastarfi svo sem að kenna handavinnu sem þótti mikill óþarfi, því það gátu heimilin gert.

Halldóra sat ekki auðum höndum eftir að hún lét af skólastjórn. Hún sinnti kennslu meðal annars í Kennaraskóla Íslands,  hélt námskeið og fyrirlestra vítt og breitt um Ísland, vann að stofnun kvenfélaga og héraðssambanda þeirra og starfaði einkum með Sambandi norðlenskra kvenna . Halldóra vildi halda menningu kvenna á lofti og sýna hvað konurnar gerðu á heimilum sínum, hvernig hvert heimili var í raun verksmiðja, þar sem ull var snúið í fat.

Hún stóð fyrir fjölmörgum sýningum bæði innanlands og utan þar sem hún sýndi heimilisiðnað víðs vegar frá Íslandi, svo sem vettlinga,illeppa og sjöl, allt unnið frá grunni úr heimaspunnu og heimalituðu bandi. Á ferðum sínum um landið safnaði Halldóra alls kyns vefnaðar og prjónlesprufum, einnig tóskaparmunum og verkfærum tengdum tóskap. Margt af því sem hér er upp talið og sitthvað fleira er til sýnis í Halldórustofu.

Halldóra var heimilisráðunautur Búnaðarfélags Íslands, stofnaði og gaf út ársritið Hlín um 44 ára skeið og stofnaði  Tóvinnuskólann á Svalbarði í Suður -Þingeyjarsýslu þá komin á áttræðis aldur, og rak hann í nokkur ár.

Halldóra hélt bréfasambandi við ótrúlega margt fólk eða á milli 5-600 manns. Hún ritaði fjölda greina í blöð og tímarit, en einnig bókina VEFNAÐUR á íslenskum heimilum á 19. öld og fyrri hluta 20. aldar. Bókin kom upphaflega út árið 1966 og er frumútgáfan löngu uppseld. Heimilisiðnaðarsafnið réðst í að endurútgefa bókina og var þá bætt við formála um Halldóru eftir Áslaugu Sverrisdóttur, sagnfræðing sem einnig er þýddur á ensku. Fjöldi mynda prýða bókina, bæði gamlar svarthvítar myndir en einnig litmyndir af margskonar vefnaðarprufum og öðrum munum. Stór hluti þeirra textílmuna sem gerð eru skil í bókinni eru varðveittir í Halldórustofu. Einnig eru nokkrar nýjar litmyndir af munum í nýju útgáfunni.

Í raun er þessi bók mjög merkileg þar sem hún fjallar ekki aðeins um vefnað og listhneigð Íslendinga á fyrri tíð heldur fjallar hún líka um hvernig heimilið var uppbyggt og um starfsskilyrði fólks á þessum tímam. Má því segja að bókin sé einskonar alþýðuþjóðrit.

Halldóra bjó á Héraðshæli Austur- Húnvetninga (nú Heilbrigðisstofnunin á Blönduósi) síðustu æviár sín og þegar hún lagðist á hjúkrunardeildina ánafnaði hún Heimilisiðnaðarsafninu á Blönduósi síðustu eigur sínar. Munum hennar var komið fyrir í innra herbergi hins gamla safnhúss og það nefnt eins og áður hefur komið fram Halldórustofa. Eftir að nýja húsið var tekið í notkun var öll efri hæð gamla safnhússins helguð Halldóru og nefnd í daglegu tali  Halldórustofa.