Útgáfa

Vefnaðarbók Halldóru – sígilt alþýðurit

Vorið 2009 var bókin Vefnaður á íslenskum heimilum á 19. öld og fyrri hluta 20. aldar endurútgefin.

Heimilisiðnaðarsafnið á Blönduósi stóð fyrir útgáfu bókarinnar en hún hafði verið ófáanleg um langa hríð. Halldóra Bjarnadóttir (1873-1981) tók bókina saman og kom hún fyrst út á vegum Bókaútgáfu Menningarsjóðs og Þjóðvinafélagsins árið 1966. Bókin er sígilt og metnaðarfullt grundvallarrit um vefnað og listhneigð Íslendinga auk þess að vera ómetanleg heimild um heimilin og starfsskilyrði þeirra á 19. öld og fyrri hluta síðust  aldar.

Bókin er endurprentuð óbreytt frá útgáfunni 1966 ef frá er talinn ítarlegur formáli Áslaugar Sverrisdóttur, sagnfræðings sem varpar ljósi á persónuna Halldóru Bjarnadóttur. Einnig ritar Elín S. Sigurðardóttir, forstöðukona Heimilisiðnaðarsafnsins aðfaraorð. Hvorutveggja þýddi .Steinunn J. Ásgeirsdóttir á ensku. Þá eru í viðauka nokkrar nýjar ljósmyndir af munum sem getið er um og sýndir í bókinni, en varðveittir í Halldórustofu Heimilisiðnaðarsafnsins.

Markmið endurútgáfunnar er að halda á lofti mikilvægum hluta íslensks menningararfs og miðla honum til komandi kynslóða. Eins og komið hefur fram er hér á ferðinni sígilt rit, sumir tala um alþýðuþjóðfræði, sem nauðsynlegt er að sé til í öllum skólum og söfnum landsins, einnig er bókin tilvalin handbók fyrir hverskyns handverkshópa og fyrir alla þá sem sem vilja kynna sér ofangreindar heimildir.

Ljóst má vera að margar kvenfélagskonur eiga þessa bók frá fyrri tíð en einnig nokkuð víst að við erum margar sem ekki höfum átt þess kost að eignast bókina þar sem hún hefur ekki verið fáanleg til fjölda ára. Nefnt hefur verið við undirritaða að verðugt væri fyrir kvenfélög að kaupa bókina  til að gefa sínum félagskonum og velunnurum. Hafa nokkur félög nú þegar sýnt þeirri hugmynd áhuga.  Með því  væri í fyrsta lagi, verið að heiðra minningu hinnar merku konu Halldóru Bjarnadóttur sem var heiðursfélagi margra kvenfélaga , stofnaði Samband Norðlenskra kvenna og heiðursfélagi þess og síðast en ekki síst var hún heiðursfélagi Kvenfélagasambands Íslands sem um þessar mundir fagnar 80 ára afmæli sínu. Í öðru lagi mundi slíkt framtak styrkja útgáfuna og síðast en ekki síst mundi kvenfélagskonan sem hefur sinnt óeigingjörnu starfi kvenfélagsins eignast áhugaverða gjöf frá kvenfélaginu sínu.

Rétt er að geta þess að bókin var ekki prentuð í stóru upplagi og hafa ber hugfast spakmælið góða  Fyrstur kemur – fyrstur fær.

Bókin er fáanleg í Heimilisiðnaðarsafninu og öllum helstu bókaverslunum landsins, einnig hjá Heimilisiðnaðarfélagi Íslands, Þjóminjasafni Íslands og nokkrum fleiri söfnum.

Heimilisiðnaðarsafnið býður bókina á tilboðsverði á kr. 5.900,-.