Sérsýningar

Á hverju ári frá því nýja safnhúsið var vígt árið 2003 hefur verið opnuð ný sýning íslensks textíllistafólks í Heimilisiðnaðarsafninu á Blönduósi.

Um hefur verið að ræða bæði einkasýningar og samsýningar. Allar sýningarnar hafa verið mjög metnaðarfullar en um leið gjörólíkar og vakið mikla athygli sýningargesta og gefið hugmyndir um hve mikil fjölbreytni er í textílflóru Íslands. Sýningarnar eru gjarnan nefndar Sumarsýningar Heimilisiðnaðarsafnsins en hafa oftast staðið uppi frá vori til vors.

Yfirlit yfir Sumarsýningar safnsins aftur til ársins 2003.

2020 – 2021

Í þetta sinn eru það Arkir bókverkahópur, sem telur 11 íslenskar listakonur sem standa að sýningunni Spor í safninu. Nokkrar erlendar listakonur eiga einnig verk á sýningunni en þær eiga það sameiginlegt að hafa dvalið á Textílsetrinu/Textílmiðstöðinni í Kvennaskólanum á Blönduósi.

Vegna heimsfaraldurs COVID-19 voru gestakomur sumarið 2020 takmarkaðar. Sýningin var því framlengd um eitt ár.  
 
 
 
 

2019

„Íslenska lopapeysan“ farandsýning – uppruni, saga og hönnun, var opnuð í safninu fimmtudaginn 30. maí. 2019. Um er að ræða samstarfsverkefni Heimilisiðnaðarsafnsins, Hönnunarsafns Íslands og Gljúfrasteins.  Sýningin var fyrst opnuð í Hönnunarsafnið Íslands 2017 en var svo sett upp árið 2018 á Nord Atlantes Brygge í Kaupmannahöfn og í Odense síðar sama ár 
 
 
 
 

2018

Sumarsýning Heimilisiðnaðarsafnsins – Foldarskart var opnuð í sumarbyrjun 2018. Sýningin er unnin af Louise Harris og samanstendur af þæfðum myndum unnum úr íslenskri ull. Sýningarstjóri er Aðalsteinn Ingólfsson, listfræðingur sem er þjóðkunnur fyrir störf sín í listaheiminum.
 
 
 
 
 
2017

Sýningin er samstarfsverkefni Heimilisiðnaðarsafnsins á Blönduósi, Heimilisiðnaðarfélags Íslands og Kristínar Schmidhauser Jónsdóttur. Sýningin ber heitið „Prjónað af fingrum fram“ og vísar þar til samnefndar bókar eftir Kristínu sem kom út í tilefni aldarafmælis Aðalbjargar Jónsdóttur. Er bókin helguð fáguðu handverki og listsköpun Aðalbjargar sem er samofin lífshlaupi hennar og minningum og er jafnframt mikilvægur þáttur í menningar- og tóvinnusögu okkar Íslendinga.

Á sýningunni eru 12 handprjónaðir kjólar eftir Aðalbjörgu og eru flestir í eigu fjölskyldu hennar en einnig nokkrir sem lánaðir eru frá Heimilisiðnaðarfélagi Íslands. Kjólarnir eru allir frábrugðnir hver öðrum, en Aðalbjörg prjónaði kjólana „af fingrum fram“ það er án nokkurra uppskrifta, lét innri tilfinningu, liti og form ráða för. Það tók hana um það bil einn mánuð að prjóna hvern kjól en þá var fædd ný hugmynd sem hún varð að koma frá sér.

 
2016

Sérsýning ársins ber heitið “Vinjar” og er eftir Önnu Þóru Karlsdóttur, myndlistarmann.Í verkum Önnu Þóru má sjá beina skírskotun til náttúrunnar og lífsbaráttunnar. Listrýnar hafa ævinlega lokið miklu lofsorði á sýningar Önnu Þóru og telja hana í broddi fylkingar í listsköpun þar sem grunnhráefnið er íslenska ullin.

 
 
 

2015

Guðrún Auðunsdóttir, opnaði sýningu sína “Fínerí úr fórum formæðra” vorið 2015.
Segja má að sýningin sé nokkurskonar óður til fortíðar enda tileinkuð því að 100 ár eru frá því að íslenskar konur fengu kosningarétt.
 
 
 
 
2014

Sérsýning safnsins “Sporin mín” eftir Þórdísi Jónsdóttur, var opnuð á Uppstigningardag vorið 2014.´
Fallegur útsaumur á púðum og veggteppum einkenna sýningu Þórdísar en íslenski þjóðbúningurinn hefur einnig gefið Þórdísi innblástur til sköpunar.
 
 
 

2013

Sumarsýningin “Lesið í prjón” eftir Hélene Magnússon var haldin í safninu sumarið 2013. Á sýningunni var að finna 25 flíkur sem fjallað er um í bókinni Icelandic Handknits sem kom út vorið 2013.

 

 

 

2012

Íris Ólöf Sigurjónsdóttir opnaði sýningu sína „Bútar úr fortíð“. Það má líka með sanni að segja að sýningin standi undir nafni en Íris vinnur sýninguna úr efnisbútum, hekluðum milliverkum, dúllum og dúkum.

 

 

 

2011

„Úr smiðju vefarans mikla“ er heiti Sumarsýningar safnsins 2011. Sýningin er yfirlitssýning á verkum Guðrúnar J. Vigfúsdóttur, veflistakonu frá Ísafirði.

 

 

 

2010


Steinunn Sigurðardóttir, hönnuður og Hildur Bjarnadóttir, myndlistamaður sýndu saman í safninu sumarið 2010. Steinunn nefndi sína sýningu DRESS COLLAGE en sýning Hildar bar nafnið ENDURGJÖF.

 

 

 

2009

Haldin var samsýning þriggja listakvenna í safninu árið 2009 sem bar heitið „Hring eftir hring“. Helga Pálína Brynjólfsdóttir, Rósa Helgadóttir og Kristveig Halldórsdóttir, unnu sameiginlega að undirbúningi þessarar sýningar með beinni skírskotun til safngripa í Heimilisiðnaðarsafninu og Halldórustofu.

 

2008

Einkasýning „Sólu“ , Snjólaugar Guðmundsdóttur var opnuð á vordögum 2008. Snjólaug sýndi þæfð og ofin verk og fylgdu ljóð öllum verkunum. Sýningin nefndist „Af fingrum fram“.

 

 

 

2007

Sumarsýningin 2007 var einkasýning Hildar Bjarnadóttur, myndlistamanns sem var á þessum tíma handhafi íslensku Sjónlistarverðlaunanna.

 

 

 

2006

Steinunn Sigurðardóttir, hönnuður, átti sýningu ársins 2006 þar sem nútíð og fortíð kallast á en eins og þekkt er gætir verulegra áhrifa frá íslenska kvenbúningnum í hönnun Steinunnar.

 

 

 

2005

„Straumur“ sýning Auðar Vésteinsdóttur veflistakonu í Heimilisiðnaðarsafninu árið 2005 sem var veflistarsýning en kveikjan að þeirri sýningu var Blanda og ósinn.

 

 

 

 

2004

Guðrún Gunnarsdóttir myndlistarmaður og textílhönnuður, opnaði 17. einkasýningu sína í Heimilisiðnaðarsafninu árið 2004 og nefndi sýninguna „Samtal við fortíð“.

 

 

 

2003

Um leið og safnið var vígt var fyrsta Sumarsýning safnsins opnuð og var það Hildur Hákonardóttir, veflistarkona sem reið á vaðið og sýndi veflistarverk í Heimilisiðnaðarsafninu.