Söfnunarstefna

Tilgangur stofnunarinnar er að reka Heimilisiðnaðarsafnið á Blönduósi. Hlutverk þess er söfnun, varðveisla og skráning hverskonar heimilisiðnaðar á landsvísu. Safnið skal vera kennslu-, fræðslu- og rannsóknarstofnun fyrir innlenda og erlenda nemendur og fræðafólk. Þá skal safnið standa fyrir málþingum, námskeiðum og fyrirlestrum auk sérstakra nemendasýninga á handbragði fyrri tíma.

Alla muni svo sem  hverskyns hannyrðir, sýnishorn heimilisiðnaðar að fornu og nýju sem safnið eignast, skal skrásetja, merkja og varðveita með eins tryggum hætti og unnt er. Hvorki má gefa né selja þá muni sem safnið hefur eignast, nema fyrir liggi einróma samþykki stjórnar. Ekki er safninu skylt að veita viðtöku munum eða öðrum minjum sem sérstakar kvaðir fylgja um varðveislu.

Með vísan til stofnskrár  um Heimilisiðnaðarsafnið á Blönduósi og ofangreindra markmiða stofnunarinnar, hefur stjórn hennar samþykkt eftirfarandi:

  • að lögð verði höfuðáhersla á söfnun og varðveislu ýmiskonar tóvinnu og hannyrða (textílmuna),
  • að muni sem tengjast viðkomandi verkiðnaði, s.s. rokka, kamba, prjóna, heklunálar, spunavélar, kembivélar o.þ.h., skuli varðveita í safninu,
  • að safnið geti verið lifandi vettvangur fyrir kynningar og fræðslu á handverki fyrri tíma, sem var snar þáttur af daglegum störfum á heimilum,
  • að dyr safnsins standi opnar innlendum sem erlendum fræðimönnum sem vilja stunda rannsóknir í safninu,
  • að hlúa að og efla Halldórustofu, sem er sérstök deild innan safnsins helguð lífi og starfi Halldóru Bjarnadóttur 1873-1981. Hún ánafnaði Heimilisiðnaðarsafninu síðustu eigum sínum.

Samþykkt af stjórn Heimilisiðnaðarsafnsins á Blönduósi

1. nóvember 2013