Fastar sýningar

Stjórn safnsins mótaði stefnu um að þema þeirra sýninga sem upp yrðu settar í nýja húsinu skyldi vera þráðurinn. Þráðurinn sem grunnur handíða og tenging sögunnar þ.e. fortíðar við samtímann. Lögð skyldi áhersla á að sýningarnar kölluðu fram tíðaranda, hughrif og stemningu, fremur en að sýna marga líka muni í senn.

Eftirtaldar sýningar eru nú í safninu:

Sýning á útsaumi:

Þessari sýningu er sérstaklega ætlað að skapa upplifun og hughrif. Á sýningunni er til sýnis einkar fallegur nærklæðnaður kvenna frá fyrri tíð ásamt listilegum útsaumi, hekli og orkeringu. Til að skapa fjölbreytni og til að nýta sem best muni safnsins, er ýmsum munum skipt út á milli ára.

 

 

Sýning á þjóðbúningum:

Safnið hefur að geyma úrval íslenskra þjóðbúninga. Þar eru skautbúningar, upphlutir og peysuföt. Sumir búninganna eru frá seinnihluta 19. aldar og upphafi 20. aldar.

 

 

 

Ullarsýning:

Í þessari sýningu geta gestir fengið að þreifa á íslensku ullinni og finna mismuninn á togi og þeli. Á sýningunni er að sjá afar falleg handgerð sjöl, prjónuð og hekluð úr togi eða þeli. Í sumum þeirra hefur þráðurinn verið jurtalitaður en í öðrum fá náttúrulegir litir að njóta sín. Margar gerðir af útprjónuðum vettlingum, sokkum ásamt ýmsu fleiru má sjá í þessari sýningu.

 

 

Halldórustofa:

Halldórustofa er deild innan Heimilisiðnaðarsafnsins, staðsett í efri hluta gamla safnhússins. Hún er kennd við Halldóru Bjarnadóttur(1873-1981) sem var þjóðkunn kona. Hún var heimilisráðunautur Búnaðarfélags Íslands, gaf út ársritið Hlín um 44 ára skeið og stofnaði og rak Tóvinnuskólann á Svalbarði í Suður-Þingeyjarsýslu. Þekktust var Halldóra fyrir brautryðjandastörf er varða mennt og menningu kvenna og eflingu heimilisiðnaðar á tuttugustu öld.

Halldóra arfleiddi safnið að eigum sínum.

 

Gömul áhöld:

Spunavél, vefstóll, rokkar, prjónavélar og ýmiss konar áhöld sem notuð voru við heimilisiðnað eru til sýnis í safninu.