Frá stofutónleikum

8.08.2017

Góð aðsókn var að Stofutónleikum Heimilisiðnaðarsafnsins sem haldnir voru sl.
sunnudag þ. 30. júlí. Það var Sigurdís Tryggvadóttir, frá Ártúnum sem steig þar á
stokk ásamt félögum sínum þeim Ævari Erni Sigurðssyni sem spilaði á
kontrabassa og Skúla Gíslasyni sem lék á trommur, en báðir eru útskrifaðir frá
Tónlistaskóla FÍH. Sjálf lék Sigurdís á píanó ásamt því að lesa upp ljóð eftir
frænda sinn Jónas Tryggvason en mörg lögin voru samin af Sigurdísi við ljóð
eftir hann.
Sigurdís er eins og vinir hennar einnig útskrifuð frá Tónlistaskóla FÍH í
rytmískum píanóleik auk þess að vera með kennarapróf. Fyrstu spor hennar
voru við Tónlistarskóla Austur-Húnavatnssýslu, síðar lá leiðin til Akureyrar í
Menntaskólann þ.s. hún fór á listnámsbraut og tók framhaldspróf í klassískum
píanóleik frá Tónlistarskólanum á Akureyri. Innan skamms mun Sigurdís hefja
framhaldsnám í Odense í Danmörku.
Áheyrendur fögnuðu vel unga tónlistarfólkinu og ekki annað hægt en að heillast
af hæfileikum þeirra þar sem allt féll saman – einbeiting, ástríða, fegurð og
léttleiki í túlkun efnisskrárinnar.
Eftir tónleikana var boðið upp á kaffi og ástarpunga sem gestir gerðu góð skil.

IMG_4629

Picture 1 of 7