Fjölmenni við opnun sumarsýningar

12.07.2018

Sumarsýning Heimilisiðnaðarsafnsins – Foldarskart var opnuð laugardaginn 2. júní síðastliðinn. Sýningin er unnin af Louise Harris og samanstendur af þæfðum myndum unnum úr íslenskri ull. Sýningarstjóri er Aðalsteinn Ingólfsson, listfræðingur sem er þjóðkunnur fyrir störf sín í listaheiminum. Fjölmenni var við opnunina. Fyrir og eftir athöfnina lék Benedikt Blöndal létt lög og framkallaði ljúfa stemningu.

Sumarstarfsstúlkur safnsins eru þær Þórunn Guðmundsdóttir og Kristrún Hilmarsdóttir, báðar frá Blönduósi.

15 ár frá vígslu nýja safnahússins

Í ávarpsorðum Elínar S. Sigurðardóttur, forstöðumanns safnsins, kom fram að liðin væru 15 ár frá því nýja safnhúsið var vígt og tekið í notkun. Tveimur árum síðar var byggingarkostnaður greiddur að fullu. Rifjaði hún upp í örstuttu máli hvernig starfsemi safnsins hefur þróast úr lítilli stofnun í stofnun sem starfar eftir safnalögum og uppfyllir öll þau skilyrði sem sett eru af Safnaráði til að vera viðurkennt safn auk þess sem safnið hefur notið ýmissa annarra opinberra viðurkenninga fyrir starfsemi sína. Það sem þó hefði ekki breyst, er að forstöðumaðurinn safnsins væri ennþá í rúmlega hálfu stöðugildi og eini fastráðni starfskrafturinn.

Þá kom fram í máli Elínar að í raun mætti segja að samfélaginu hafi ekki borið gæfa og metnaður til að standa saman um að byggja meira á þeim menningarauði sem safnið geymir. Til þess hafi skort bæði fé til reksturs og víðtækari samstöðu um framtíðarsýn fyrir safnið. „Mér finnst við of oft ekki sjá þær perlur sem á götu okkar verða en það er mikill heiður og ábyrgð sem okkar byggðarlagi hefur hlotnast, að eiga dýrgrip eins og Heimilisiðnaðarsafnið á Blönduósi, safn sem margir vildu gjarnan hafa í sínum ranni og hlúa að af metnaði. Safn sem nýtur daglegrar viðurkenningar gesta og fræðafólks sem það heimsækja og þekkja. Þetta er sjálfstæð stofnun sem hefur verið rekin sem sjálfseignarstofnun í 25 ár. Sagan er hinsvegar mun lengri en eins og kunnugt er lögðu kvenfélagskonur grunninn að safninu og fyrsta sýning þess opnuð árið 1976,“ sagði Elín í ávarpi sínu.

Sumarsýningarnar hafa skapað sér sérstakan sess

Elín vék einnig að sýningarstefnu safnsins sem mörkuð var strax er nýja safnhúsið var tekið í notkun. Miðað var við að bjóða upp á nýstárlegar sýningar á safnmununum en einnig að bjóða íslensku textílistafólki að sýna list sína í safninu og nýta opna rýmið til þess. Litið var til þess að slíkt samstarf mundi skapa fjölbreytni í starfi safnsins og auka vægi þess, sem og að gestir safnsins hefðu á hverju ári alltaf tök á að sjá nýja sýningu. Lögð var áhersla á að sýningarnar væru ólíkar á milli ára, vektu athygli á textílflóru Íslands og hefðu listrænt og menningarlegt gildi, ásamt því að tengjast beint við safnmunina. „Og svo sannarlega hafa Sumarsýningarnar skapað sér sérstakan sess og markað Heimilisiðnaðarsafninu sérstöðu meðal annarra safna. Listafólk sækist eftir að fá að sýna í safninu og einnig kemur margt listafólk gagngert til að skoða safnið og sækja sér innblástur að listsköpun,“ sagði Elín.

Hreifst af sýningum Heimilisiðnaðarsafnsins

Louise Harris hefur haldið fjölmargar sýningar, einkum á stórum vatnslitamyndum um kvenímyndir tískuiðnaðarins. Louise gefur smá innsýn í vatnslitamyndirnar sínar en tvær þeirra eru nú til sýnis í safninu. Louise er hámenntuð frá helstu listaskólum Bretlands en býr og starfar á Íslandi. Fyrir þá sem hafa gaman af ættfræði skal það nefnt að Stephen eiginmaður Louise er sonur listakonunnar Karólínu Lárusdóttur.

Louise ávarpaði gesti, ræddi stuttlega um verkin sín og hina undurfallegu náttúru Íslands sem hefur haft mikil áhrif á hana. Í orðum listakonunnar kom meðal annars fram að hún hefði fyrst komið í Heimilisiðnaðarsafnið fyrir nokkrum árum og hrifist af sýningum þess og síðan átt þann draum að eiga kost á að sýna í safninu og nú væri sá draumur að rætast.

Aðalsteinn, sem opnaði sýninguna, talaði um að þetta væri eitt fallegasta safn landsins og að hér mætti byggja enn meira á þeim menningarauði sem safnið geymir og ekki aðeins að bjóða upp á textíllistsýningar, heldur almennar listsýningar. Í orðum sínum lagði hann áherslu á nauðsyn þess að eigendur safnsins héldu vel utan um þessa einstöku menningarstofnun sem væri héraðinu til sóma.

Fréttin birtist fyrst á www.huni.is.