Ársskýrsla 2017

11.07.2018

Það er mikil ábyrgð og heiður sem einu byggðarlagi hefur hlotnast að eiga dýrgrip eins og
Heimilisiðnaðarsafnið á Blönduósi, safn sem margir vildu gjarnan hafa í sínum ranni og hlúa
að af metnaði, safn sem nýtur daglegrar viðurkenningar gesta og fræðafólks sem það
heimsækja og þekkja.

Heimilisiðnaðarsafnið er viðurkennt safn í samræmi við safnalög nr. 141/2011 og þarf að
uppfylla fjölmörg skilyrði bæði um eignarhald og ábyrgð á rekstri. Öll vinna í safninu er í
samræmi við stofnskrá og skipulagsskrá sem Safnaráð staðfestir.

Viðurkennd söfn skulu hafa starfsleyfi frá heilbrigðis- og eldvarnareftirliti og hafa öryggis- og
viðvörunarkerfi í lagi. Eftirlit sé með ljósmagni, hitastigi og rakastigi í húsnæði þess, til staðar
sé neyðaráætlun fyrir gesti, starfsfólk og safnkost þá sé aðgengi allra gesta í samræmi við lög
og reglugerðir.

Skráning á safnmunum þarf að uppfylla skilmála Safnaráðs og lögð áhersla á að faglega sé
unnið að söfnun og varðveislu. Stunda skal rannsóknir á þeim menningararfi sem safnið
geymir og miðla niðurstöðum t.d. með útgáfu og öðrum kynningum , taka þátt í samstarfi
svæðisbundið og á landsvísu. Forstöðumaður skal hafa menntun á ábyrgðarsviði safnsins eða
hafa aflað sér hæfni og færni til reksturs á safni.

Stjórnendum safnsins er löngu orðið ljóst að geymslu- og vinnurými safnsins er veikasti
hlekkurinn í þróun og eflingu þess. Án úrbóta á þessum þáttum blasir við stöðnun.

Fjárhagur

Eins og sjá má í ársreikningum safnsins hefur orðið nokkur bati í afkomu þess á árinu 2017
þar sem tókst að greiða upp tap ársins 2016 og skila örlitlum afgangi. Skýringin fellst fyrst og
fremst í því að viðhald og endurbætur á húsnæði safnsins var látið sitja á hakanum. Þá varð
hækkun á liðnum „aðrir styrkir“ sem má fyrst og fremst að rekja til framlags
Uppbyggingarsjóðs sem veitti kr. 1 milljón í rekstrarstyrk. Einnig veitti Kaupfélag Skagfirðinga
styrk til reksturs að upphæð kr. 300 þúsund, Þá veittu Kvenfélagið Vaka á Blönduósi kr. 100
þúsund, Kvenfélagið Vonin kr. 25 þúsund og Samband Austur-húnvetnskra kvenna 40 þúsund
krónur til reksturs safnsins. (Sjá ársreikninga).

Það er hinsvegar ljóst að rétt eins og undanfarin ár, stendur reksturinn í járnum. Það verður
að segjast að það er mjög erfitt að reka stofnunina á þann hátt sem gert hefur verið og þessi
þrönga staða heftir alla þróun og umbreytingar.

 

Sérverkefni – lopapeysuverkefni

Það er ánægjulegt að geta þess að farandsýningin um íslensku lopapeysuna sem
Heimilisiðnaðarsafnið tók þátt í ásamt Hönnunarsafni Íslands og Gljúfrasteini – húsi skáldsins,
var opnuð í Hönnunarsafni Íslands þann 15. desember sl.

Eins og áður hefur komið fram er Farandsýningin byggð á rannsóknarskýrslu Ásdísar
Jóelsdóttur, lektors við háskóla Íslands, sem vann hana að tilstuðlan samstarfsverkefnis
nefndra safna. Þá er vert að geta þess að fyrir síðustu jól kom út bók um íslensku
lopapeysuna eftir Ásdísi Jóelsdóttur, sem er að mestu byggð á rannsóknarskýrslunni.
Fyrir stuttu barst fyrirspurn frá Nord Atlantes Brygge í Kaupmannahöfn um að fá að setja
sýninguna upp í byrjun desember á þessu ári og jafnvel að fá hana nokkru fyrr til að setja upp
í sendiráðinu í Kaupmannahöfn. Erindið hefur verið afgreitt jákvætt og vonumst við
aðstandendur þessa verkefnis, að það muni vekja athygli á söfnunum þremur.

Viðburðir

Sumarsýningin „Prjónað af fingrum fram“ sem opnuð var með viðhöfn þann 28. maí var í ár
samstarfsverkefni Heimilisiðnaðarsafnsins, Heimilisiðnaðarfélags Íslands og Kristínar
Schmidhauser Jónsdóttur. Heiti sýningarinnar vísar til samnefndrar bókar eftir Kristínu sem
kom út í tilefni aldarafmælis Aðalbjargar Jónsdóttur. Bókin er helguð fáguðu handverki og
listsköpun Aðalbjargar sem er samofin lífshlaupi hennar og minningum og er jafnframt
mikilvægur þáttur í menningar- og tóvinnusögu okkar Íslendinga.

Sýningin samanstendur af tólf handprjónuðum kjólum eftir Aðalbjörgu en hún mun hafa
prjónað rúmlega eitt hundrað kjóla. Kjólarnir eru mjög ólíkir hver öðrum en Aðalbjörg
prjónaði kjólana „af fingrum fram“ það er án nokkurra uppskrifta. Hápunktur athafnarinnar
var þegar Aðalbjörg sjálf 100 ára gömul steig í pontu og flutti ávarp.

Alþjóðlegi safnadagurinn var haldinn þ. 18. maí og í tilefni hans var safnið haft opið
sunnudaginn 21. maí og boðið upp á sérstaka leiðsögn. Þá voru einnig síðustu forvöð að sjá
Sumarsýningu safnsins frá árinu áður. Þema safnadagsins þetta árið var „Söfn og umdeild
saga“.

Á Húnavöku var margt um manninn og eins og vant er á Húnavöku var safnhúsið og
ljósastaurar skreyttir m.a. með prjónagraffi.

Stofutónleikar Heimilisiðnaðarsafnsins fóru fram þann 30. júlí. Í þetta sinn var það Jazztríó
Sigurdísar Söndru Tryggvadóttur frá Ártúnum sem steig á stokk. Unga tónlistarfólkið lék
tónsmíðar og útsetningar eftir Sigurdísi í bland við annað efni. Þá hafði Sigurdís samið lög við
ljóð eftir Jónas Tryggvason afabróður sinn sem voru einnig á efnisskránni.

Sérlega ánægjulegt var að fá tækifæri til að sjá og heyra fyrrum sumarstarfstúlku safnsins
sem var í forgrunni þeirra félaga. Eftir tónleikana þáðu gestir kaffi og meðlæti.

Á aðventu las Sigmundur Ernir Rúnarsson upp úr bók sinni Rúna Örlagasaga en sagan fjallar
um Rúnu Einarsdóttur frá Mosfelli. Einnig las Sigmundur upp úr bók sinni Flökkusögur og
Kolbrún Zophoníasdóttir las upp úr bókinni Ekki vera sár eftir Kristínu Steinsdóttur. Eins og
venja er til var gestum boðið upp á heitt súkkulaði ásamt smákökum.

Heimsóknir grunnskólabarna héraðsins er fastur liður í starfsemi safnsins. Nemendur fá þá
leiðsögn um safnið og síðan tækifæri til að kemba og spinna og fylgja þræðinum í vef.
Töluvert er um heimsóknir nemenda innlendra sem erlendra á efri skólastigum s.s. frá
Listaháskóla Íslands og ýmsum framhaldsskólum. Þá er vert að geta þess að listafólk sem
dvelur í Kvennaskólanum heimsækir safnið eftir þörfum að lágmarki einu sinni í mánuði.

Innra starf

Samstarfssamningur Heimilisiðnaðarsafnsins og Þekkingarsetursins var endurnýjaður en
hann felur í sér 30 klukkustunda vinnuframlag sérfræðings í þágu safnsins. Einnig felur
samningurinn í sér að Heimilisiðnaðarsafnið stendur listafólki í Kvennaskólanum opið eftir
nánara samkomulagi. Þá samþykkti safnið aðgengi að munum safnsins til rannsókna vegna
verkefnisins „Bridging textiles to the digital future“ á vegum Þekkingarsetursins.
Rannsóknarvinna á árinu 2017 tengdist fyrst og fremst rannsóknum vegna ritgerða
nemenda á efri skólastigum. Fer töluverð vinna hjá forstöðumanni í heimildaöflun vegna
slíkra verkefna.

Styrkjandi forvörslu hefur verið haldið áfram með verkefnastyrk frá Safnasjóði. Á þessu ári
voru tekin fyrir einstaklega falleg þelsjöl sem þykja ómetanleg. Vinnan hefur verið í höndum
Þórdísar Baldursdóttur, forvarðar.

Góðar gjafir berast safninu árlega. Helst ber að nefna að á síðasta ári bættist enn einn afar
fallegur skautbúningur við þjóðbúningaflóru safnsins, gefinn af Hrafnhildi Schram,
listfræðingi. Þá bárust fallegir „ungpíu“ kjólar til safnsins – allir hannaðir og saumaðir af
Huldu Hjörleifsdóttur á árunum 1955 – 1975. Kjólarnir eru gott dæmi um hugvit og
saumaskap alþýðukonunnar um miðja 20. öld. Kjólarnir eru gefnir af börnum Huldu. Síðast
en ekki síst bárust merkir munir úr fórum Gerðar Pálsdóttur, (f. 1924) fyrrum
hússtjórnarkennara.

Oft þarf að neita viðtöku gjafa – annarsvegar vegna plássleysis en einnig er lögð áhersla á í
söfnunarstefnunni að ekki sé tekið við mörgum líkum munum.

Skráning á munum safnsins er kominn á ytri vef Sarps. Unnið hefur verið að samræmingu og
leiðréttingum á skráningum, einnig ljósmyndun á þjóðbúningum safnsins.

Greinar um Heimilisiðnaðarsafnið og sýningar þess hafa birst í dagblöðum, í Bændablaðinu
og Feyki svo og í sjónvarpsmiðlum, einnig á netmiðlum og ýmsum tímaritum hér á landi og
erlendis. Mikið er bloggað um safnið og töluverðar umræður og ábendingar um heimsóknir á
samfélagsmiðlum. Það er ekki oft sem okkur eru boðnar ókeypis auglýsingar en nú í haust
barst okkur boð um að vera í þýskri leiðsögubók ( guidebook) um Ísland. Í bréfinu kom fram
að Heimilisiðnaðarsafnið hafi verið kosið sem einn af hápunktum (highlights) af viðkomandi
ritstjóra og beðið um myndir af safnhúsinu og sýningum þess.

Það er oft slæmt að hafa lítil fjárráð til þess sem við köllum „markaðssetning“. Við höfum þó
reynt að vera með í öllum sameiginlegum safnaauglýsingum bæði á landsvísu og hér í héraði.
Það verður þó að segjast og oft verið um það rætt á ýmsum ferðamálafundum hér í sýslunni
að það mætti alveg vekja meiri athygli á sjálfu sveitarfélaginu/sveitarfélögunum og hvað þau
hafa upp á að bjóða. Litlar fjárvana stofnanir hafa takmarkaða burði til að „markaðssetja“
sig.

Hið daglega starf

Síðastliðin þrjú ár hefur starfshlutfall forstöðumanns verið 60% en hann er eini fastráðni
starfsmaður safnsins og annast og ber ábyrgð á allri starfsemi safnsins.
Það þykir undrun sæta að þetta litla safn geti staðið fyrir opnun nýrrar sérsýningar árlega.
Reyndar höfum við fengið svolítinn verkefnastyrk frá Uppbyggingarsjóði, sem dugir skammt
en hjálpar. Undirbúningur slíkrar sýningar er mikill og oftast nær liggur það fyrir með árs
fyrirvara hvaða sýning verður næst.

Margir safngestir undrast líka hve safnmunum er vel við haldið og þeir hreinir – það er ekki
alltaf algengt á söfnum. Hér á sér stað vorhreingerning á hverju ári og farið yfir alla safnmuni
í sýningum, sumir teknir útúr sýningum og hvíldir og aðrir settir inn til sýninga. Þá er reynt
daglega að lágmarka ryk – eftir hvern hóp þarf að þrífa gólf og snyrtingar, þannig að næsti
gestur fái þá tilfinningu að hann sé sá fyrsti þann daginn.

Forstöðumaður sótti Farskólafund safnmanna sem að þessu sinni var haldinn á Siglufirði,
einnig Vorfund Þjóðminjasafnsins, auk ýmissa annarra funda safnafólks.

Tvær námsstúlkur vinna í safninu á föstum opnunartíma á sumrin. Gerðar eru kröfur um að
starfstúlkur sinni safngestum með leiðsögn, skynji hvenær nærveru sé þörf og hvenær ekki,
komi hlýlega fram, séu rólegar og yfirvegaðir í fasi, þannig að jafnvel þó margt sé um
manninn fái gesturinn þá upplifun að hann sé einstakur.

Nokkrar eldri konur aðstoða í sjálfboðavinnu við móttöku og sýnikennslu nemenda á
grunnskólastigi og hafa einnig tekið þátt í viðburðum s.s. á Húnavöku. Síðast liðin ár hefur
Blönduósbær annast launaútreikninga fyrir safnið, en að öðru leiti eru allar fjárreiður og
bókhald á hendi forstöðumanns.

Niðurlag

Heimilisiðnaðarsafnið er viðurkennt safn að lögum. Samkvæmt stofnskrá safnsins er hlutverk
þess söfnun, varðveisla og skráning hverskonar heimilisiðnaðar á landsvísu. Safnið skal vera
kennslu- fræðslu- og rannsóknarstofnun fyrir innlenda og erlenda nemendur og fræðafólk.

Þá skal safnið standa fyrir málþingum, námskeiðum og fyrirlestrum auk sérstakra
nemendasýninga á handbragði fyrri tíma. Nánar skal kveða á um rekstur og hlutverk
Heimilisiðnaðarsafnsins í söfnunarstefnu, starfsstefnu og sýningarstefnu. Halldórustofa er
sérstök deild innan Heimilisiðnaðarsafnsins. Hún er helguð lífi og starfi Halldóru
Bjarnadóttur.

Að lokum skal bent á að fyrir utan Sumarsýningar safnsins, mynda munir safnsins nokkrar
„fastar“ sýningar.
1. Útsaumssýning – sérlega fallegur undirfatnaður kvenna og listfengar hannyrðir.
2. Sýning á þjóðbúningum – úrval íslenskra þjóðbúninga frá seinni hluta nítjándu
aldar til okkar dags.
3. Ullarsýning – þar sem vinnsluferli ullar er sýnt, gestir fá að handleika ullina og
finna mismuninn á milli togs og þels og spreyta sig við að kemba og spinna á
halasnældu.
4. Áhöld og verkfæri, mörg hver heimasmíðuð sem notuð voru við heimilisiðnað.
5. Halldórustofa – helguð lífi og starfi hinnar merku konu Halldóru Bjarnadóttur.
Heimilisiðnaðarsafnið er rétt eins og mörg söfn á Íslandi, stolt samfélagsins og hið eina sinnar
tegundar á Íslandi. Það varðveitir fyrst og fremst menningararf kvenna sem hefur fengið
fremur takmarkaða athygli í söfnum landsins.

Sumarsýningarnar hafa líka skapað samstarf, útvíkkað og tengt safnið við sköpun listar og
handverks í samstarfi við starfandi listafólk og hönnuði. Þetta er nýnæmi og sýnir glögglega
stöðugt hlutverk safnsins sem uppsprettu hugmynda í nýsköpun textílmenningar.
Safngestir telja vel á fjórða þúsund árlega og eru rúmlega helmingur safngesta erlendir
ferðamenn. Mörg dæmi eru um, að heimsókn í þetta litla safn sé eitt af aðalmarkmiðum
Íslands heimsóknarinnar og er greinilegt að umfjöllun um safnið á samfélagsmiðlum hefur
þar mikil áhrif auk afar jákvæðra greinaskrifa í erlend fagtímarit. Síðast en ekki síst virðist bók
Héléne Magnússon „Icelandic handknits“ eiga töluverðan þátt í fjölgun safngesta frá USA.

Heimilisiðnaðarsafnið er opið alla daga frá 1. júní til 31. ágúst og á öðrum tímum eftir
samkomulagi.

Bendi sérstaklega á heimasíðu safnsins www.textile.is þar sem sjá má sýnishorn af
Sumarsýningunum og öðrum menningarviðburðum safnsins ásamt yfirliti um starfsemi þess.

Elín S. Sigurðardóttir, forstöðum.