Vel heppnaðir stofutónleikar

5.11.2018

Síðastliðinn sunnudag þ. 28. okt., voru haldnir Stofutónleikar í Heimilisiðnaðarsafninu á Blönduósi. Það var dúettinn “Duo Verum” sem er skipaður af Kristrúnu Helgu Björnsdóttur, flautuleikara og Þresti Þorbjörnssyni, gítarleikara sem flutti fjölbreytta tónlist. Bæði hafa þau áratuga reynslu sem hljóðfæraleikarar og kennarar en síðustu árin hafa þau einnig leikið mikið saman.

Efnisskráin var skemmtilega uppröðuð og þrátt fyrir ólík tónlistarverk mátti finna eins og ljúfan tónaþráð sem tengdi þau saman.
Undanfarin ár hefur Heimilisiðnaðarsafnið staðið fyrir Stofutónleikum, en sérstaða þeirra er að þeir eru gjarnan fluttir í litlum rýmum eða stofum og skapast þá eðlilega mikil nánd á milli flytjenda og tónleikagesta.

Stofutónleikar Heimilisiðnaðarsafnsins hafa verið mjög ólíkir á milli ára og oft þjóðþekkt fólk sem komið hefur fram en einnig ungt tónlistarfólk sem er að hasla sér völl á sviði tónlistar. Allir flytjendur hafa borið lof á hve ánægjulegt sé að spila í fjölnota rými safnsins þar sem hljómburður er sérlega góður.

Tónleikarnir sl. sunnudag voru vel sóttir og gestir hrifust af þessari fallegu mússík sem listafólkið lýsti svo: hugljúf og seyðandi tónlist en þó með örlitlu uppbroti inn á milli – létt barokk stemning, innhverfur franskur módernismi og seyðandi argentískur tango. Og svo sannarlega hreyfði hinn seyðandi tango “Piazzoll: Oblivion” við gestum, enda talinn fallegasti tango sem saminn hefur verið.

Í lokin þakkaði Elín, safnstjóri gestum fyrir komuna og lagði áherslu á að með slíkum viðburði sem þessum væri fyrst og fremst verið að stuðla að nýbreytni og frumkvæði í menningarlífi héraðsins. Það væri líka verið að þjóna markmiðum safnsins og safnastefnu á sviði menningarminja að vera lifandi og fjölþætt menningarstofnun. Þakkaði hún Uppbyggingarsjóði fyrir að styrkja tónleikana því án hans stuðnings væri þetta vart gerlegt.

Gestir þáðu síðan kaffi og “kruðerí” og áttu notalega samverustund í kaffirými safnsins.