Ársskýrsla 2018

29.04.2019

Húnavatnsþingi hlotnast mikill heiður og jafnframt ábyrgð, að eiga dýrgrip eins og
Heimilisiðnaðarsafnið á Blönduósi. Þetta er safn sem mörg byggðarlög vildu hafa í sínum
ranni og hlúa að og efla, enda nýtur það einróma viðurkenningar gesta og fræðafólks sem
hingað koma vítt að úr heiminum.

Heimilisiðnaðarsafnið er viðurkennt safn og starfar í samræmi við safnalög nr. 141/2011 og
þarf að uppfylla fjölmörg skilyrði bæði um eignarhald og ábyrgð á rekstri. Öll vinna í safninu
er í samræmi við stofnskrá og skipulagsskrá sem Safnaráð staðfestir.

Viðurkennd söfn skulu hafa starfsleyfi frá heilbrigðis- og eldvarnareftirliti og hafa öryggis- og
viðvörunarkerfi í lagi. Eftirlit sé með ljósmagni, hitastigi og rakastigi í húsnæði þess, til staðar
sé neyðaráætlun fyrir gesti, starfsfólk og safnkost, þá sé aðgengi allra gesta í samræmi við lög
og reglugerðir.

Skráning á safnmunum þarf að uppfylla skilmála Safnaráðs og lögð áhersla á að faglega sé
unnið að söfnun og varðveislu. Stunda skal rannsóknir á þeim menningararfi sem safnið
geymir og miðla niðurstöðum t.d. með útgáfu og öðrum kynningum, taka þátt í samstarfi
svæðisbundið og á landsvísu. Forstöðumaður skal hafa menntun á ábyrgðarsviði safnsins eða
hafa aflað sér hæfni og færni til reksturs á safni.

Safnaráði er samkvæmt safnalögum falið að hafa eftirlit með viðurkenndum söfnum sem
starfa eftir skilmálum þess um starfsemi viðurkenndra safna. Á síðasta ári var
Heimilisiðnaðarsafnið valið til eftirlits safnaráðs og var það í hópi 20 viðurkenndra safna
víðsvegar af landinu.
Eftirlitið er þríþætt:

 1. Eftirlit með rekstri safns – Þetta er árlegt eftirlit sem er framfylgt með því að
  viðurkennd söfn skila Árlegri skýrslu til Safnaráðs.
 2. Eftirlit með húsakosti safns, aðbúnaði safnkosts, varðveislu gripa og öryggismálum.
  Þetta eftirlit fer fram á nokkurra ára fresti og er framkvæmt af eftirlitsnefnd
  Safnaráðs.
 3. Eftirlit með skráningu gripa og aðgengi að safnkosti og sýningum. Framfylgt með
  úttekt sérfræðinga á staðnum og gögnum eftir þörfum.

Fjárhagur

Ljóst er að rétt eins og undanfarin ár, stendur rekstur safnsins í járnum og erfitt að reka
stofnunina á þann hátt að hún uppfylli allar þær skyldur sem henni eru settar og verður að
segjast að þessi þrönga staða heftir alla þróun og umbreytingar.

Framlag Byggðasamlags um atvinnu- og menningarmál hækkaði um 150 þúsund krónur frá
fyrra ári þ.e. í 5.550 þúsund krónur og samtals lagði Safnasjóður til verkefna og reksturs kr.
2.100 þúsund. Aðrir styrkir komu frá Uppbyggingarsjóði til reksturs kr. 1 milljón og 350
þúsund til verkefna, frá Menningarsjóði Kaupfélags Skagfirðinga kr. 300 þúsund, Kvenfélagi
Svínavatnshrepps kr. 50 þúsund og Kvenfélaginu Voninni kr. 25 þúsund. Þá hlotnaðist safninu
arfur frá dánarbúi Maríu M. Magnúsdóttur að upphæð kr. 217.103. Vísast nánar í
ársreikninga safnsins.

Sérverkefni – lopapeysuverkefni

Áður hefur verið getið um farandsýningu íslensku lopapeysunnar sem Heimilisiðnaðarsafnið
tók þátt í ásamt Hönnunarsafni Íslands og Gljúfrasteini – húsi skáldsins. Sýningin var fyrst
opnuð í Hönnunarsafni Íslands þann 15. desember 2017.

Farandsýningin er byggð á rannsóknarskýrslu Ásdísar Jóelsdóttur, lektors við Háskóla Íslands,
sem vann hana að tilstuðlan samstarfsverkefnis nefndra safna um íslensku lopapeysuna. Fyrir
jólin 2017 kom einnig út bók um íslensku lopapeysuna eftir Ásdísi Jóelsdóttur, sem er að
mestu byggð á rannsóknarskýrslunni.

Síðastliðið haust óskaði sendiráð Íslands í Kaupmannahöfn eftir að fá sýninguna til
Kaupmannahafnar. Var sýningin sett upp á Nord Atlantes Brygge. Síðustu mánuði hefur hún
verið í Odense. Nú er ákveðið að sýningin komi aftur heim og verður hún sett upp hér í
Heimilisiðnaðarsafninu og skartar sem sérsýning safnsins sumarið 2019.

Viðburðir

Sumarsýningin „Foldar skart“ var opnuð laugardaginn 2. júní. Sýningin er verk Louise Harris
og samanstendur af þæfðum myndum unnum úr íslenskri ull. Sýningarstjóri er Aðalsteinn
Ingólfsson, listfræðingur sem er þjóðkunnur fyrir störf sín í listaheiminum. Fjölmenni var við
opnunina og fyrir og eftir athöfnina lék Benedikt Blöndal létt lög.

Alþjóðlegi safnadagurinn var haldinn þ. 18. maí og í tilefni hans var safnið haft opið en
yfirskrift hans að þessu sinni var „Ofurtengd söfn: Ný nálgun, nýir gestir“.

Á Húnavöku var margt um manninn og eins og vant er á Húnavöku var safnhúsið og
ljósastaurar skreyttir m.a. með prjónagraffi.

Stofutónleikar Heimilisiðnaðarsafnsins fóru fram sunnudaginn 28. október. Það var dúettinn
„Duo Verum“ sem er skipaður Kristrúnu Helgu Björnsdóttur, flautuleikara og Þresti
Þorbjörnssyni gítarleikara. Tónleikarnir voru vel sóttir og hrifust gestir af fallegri mússík sem
listafólkið lýsti svo: Hugljúf og seyðandi tónlist með örlitlu uppbroti inn á milli – létt barrokk
stemning, innhverfur franskur móderismi og seyðandi argentískur tango.

Á aðventu kynntu höfundarnir Jón Björnsson frá Húnsstöðum og Sigurður Pétursson, fyrrum
dýralæknir frá Merkjalæk, nýútkomnar bækur sínar og lásu uppúr þeim. Einnig las Sigurjón
Guðmundsson frá Fossum, úr nýútkominni bók Hólmfríðar K. Gunnarsdóttur frá Æsustöðum.
Ágætis aðsókn var að upplestrinum og eins og venja er til var gestum í lokin boðið upp á heitt
súkkulaði ásamt smákökum sem og að eiga spjall við höfunda.

Heimsóknir grunnskólabarna héraðsins er fastur liður í starfsemi safnsins. Nemendur fá þá
leiðsögn um safnið og síðan tækifæri til að kemba og spinna og fylgja þræðinum í vef.
Töluvert er um heimsóknir nemenda innlendra sem erlendra á efri skólastigum s.s. frá
Listaháskóla Íslands, Myndlistaskólanum í Reykjavík og ýmsum framhaldsskólum. Þá er vert
að geta þess að listafólk sem dvelur í Kvennaskólanum heimsækir safnið eftir þörfum.

Innra starf

Samstarfssamningur Heimilisiðnaðarsafnsins og Þekkingarsetursins var endurnýjaður en
hann felur í sér 30 klukkustunda vinnuframlag sérfræðings í þágu safnsins. Einnig felur
samningurinn í sér að Heimilisiðnaðarsafnið stendur listafólki í Kvennaskólanum opið eftir
nánara samkomulagi. Þá samþykkti safnið aðgengi að munum safnsins til rannsókna vegna
verkefnisins „Bridging textiles to the digital future“ á vegum Þekkingarsetursins.
Rannsóknarvinna á árinu 2018 tengdist fyrst og fremst rannsóknum vegna ritgerða
nemenda á efri skólastigum.

Styrkjandi forvörslu hefur verið haldið áfram með verkefnastyrk frá Safnasjóði. Á þessu ári
var unnið við forvörslu á fleiri sjölum sem hafa verið í sýningu og þykja ómetanleg. Vinnan
hefur verið í höndum Þórdísar Baldursdóttur, forvarðar.

Góðar gjafir berast safninu árlega sem of langt mál væri upp að telja. Þó skal nefnt að Ólafur
P. Sigurðsson færði safninu afar fallegan rokk sem var í eigu móður hans Ólafar Pálsdóttur,
myndhöggvara en er komin frá langömmu hans Þorbjörgu Halldórsdóttur (1851-1895),
prestfrúar á Auðkúlu. Einnig fylgdi nokkuð af handverki þessari gjöf. Þá óskuðu aðstandendur
Aðalbjargar Jónsdóttur, sem lést á síðasta ári þá 101 árs gömul og átti sumarsýningu safnsins
2017, eftir að safnið varðveitti ýmsa muni úr fórum hennar, sem komið gætu sér vel vegna
rannsóknaverkefna. Stundum þarf að neita viðtöku gjafa – annarsvegar vegna plássleysis en
einnig er lögð áhersla á í söfnunarstefnunni að ekki sé tekið við mörgum líkum eða
samskonar munum.

Skráning á munum safnsins er kominn á ytri vef Sarps. Unnið hefur verið að samræmingu og
leiðréttingum á skráningum, einnig ljósmyndun á þjóðbúningum safnsins, en árið 2017 fékkst
styrkur frá Safnasjóði til verkefnisins. Árið 2018 fékkst styrkur frá Safnasjóði til ljósmyndunar
á munum í Útsaumsherbergi. Verkinu er lokið og myndir af þeim munum komnar inn á Sarp.
Heimilisiðnaðarsafnið tók þátt í sameiginlegri vefsýningu Sarps, en rekstrarfélag Sarps,
Þjóðminjasafn Íslands og Listasafn Íslands, efndu til sameiginlegrar sýningar aðildarsafna
Sarps undir yfirskriftinni „Æskan á millistríðsárunum (1918 – 1939)“, má sjá þá muni á
vefsýningu Sarps sem Heimilisiðnaðarsafnið lagði til. Þá hefur rekstrarfélag Sarps farið af stað
með kynningarherferð sem hefur það meginmarkmið að auðvelda landsmönnum að tengja
heitið Sarpur við menningarsögulega gagnasafnið Sarp og sarpur.is. Einkunnarorð/slagorðið
er „Munir, myndir, minningar“ en Sarpur er gagnabanki um safnkost 50 mismunandi safna.

Greinar um Heimilisiðnaðarsafnið og sýningar þess birtast á ári hverju í ýmsum dagblöðum,
tímaritum íslenskum sem erlendum, svo og í sjónvarpsmiðlum og netmiðlum. Mikið er
bloggað um safnið og töluverðar umræður og ábendingar um heimsóknir á
samfélagsmiðlum. Það stendur gjarnan með fullt hús stiga hjá TripAdvisor.

Það er slæmt að hafa lítil fjárráð til markaðssetningar. Við höfum þó reynt að vera með í
sameiginlegum safnaauglýsingum bæði á landsvísu og hér í héraði. Það verður þó að segjast
og oft verið um það rætt á ýmsum ferðamálafundum hér í sýslunni að það mætti alveg vekja
meiri athygli á sjálfu sveitarfélaginu/sveitarfélögunum og hvað þau hafa upp á að bjóða.
Litlar fjárvana stofnanir hafa takmarkaða burði til að „markaðssetja“ sig.

Hið daglega starf

Starfshlutfall forstöðumanns hefur undanfarin fjögur ár verið 60% og er hann eini fastráðni
starfsmaður safnsins og annast og ber ábyrgð á allri starfsemi þess.

Það þykir alltaf jafn merkilegt að þetta litla safn geti staðið fyrir opnun nýrrar sérsýningar
árlega. Reyndar höfum við fengið dálítinn verkefnastyrk frá Uppbyggingarsjóði, sem dugir
skammt en hjálpar. Undirbúningur slíkrar sýningar er ótrúlega mikill. Mjög er sótt á um að fá
að halda sýningu í safninu og vandi að velja listafólk sem það hlotnast.

Það vekur eftirtekt hve safnmunum er vel við haldið og þeir hreinir og trúa sumir safngestir
því vart að um sé að ræða safnmuni, halda jafnvel að sitthvað sé endurgert. Á hverju ári er
farið yfir alla safnmuni í sýningum, sumir teknir útúr sýningum og hvíldir og aðrir settir inn til
sýninga. Veggir og gólf þrifið og reynt að lágmarka ryk. Markmið safnsins er að aðkoma
gesta sé þannig að þeir fái þá upplifun að vera fyrstir þann daginn.

Af og til er farskólafundur safnmanna haldinn erlendis og á síðasta ári var fundurinn haldinn í
Dublin á Írlandi. Undirrituð hefur ekki sótt þá fundi sem haldnir eru á erlendri grundu vegna
mikils kostnaðar.

Tvær námsstúlkur vinna í safninu á föstum opnunartíma á sumrin. Þá aðstoða nokkrar eldri
konur í sjálfboðavinnu við móttöku og sýnikennslu nemenda á grunnskólastigi.
Síðastliðin ár hefur Blönduósbær annast launaútreikninga fyrir safnið, en að öðru leiti eru
allar fjárreiður og bókhald á hendi forstöðumanns. Þá hefur bærinn einnig annast slátt á lóð
safnsins.

Niðurlag

Safngestir telja vel á fjórða þúsund árlega og eru rúmlega helmingur safngesta erlendir
ferðamenn. Mörg dæmi eru um, að heimsókn í þetta litla safn sé eitt af aðalmarkmiðum
Íslands heimsóknarinnar og er greinilegt að umfjöllun um safnið á samfélagsmiðlum hefur
þar mikil áhrif auk afar jákvæðra greinaskrifa í erlend fagtímarit. Síðast en ekki síst virðist bók
Héléne Magnússon „Icelandic handknits“ eiga töluverðan þátt í fjölgun safngesta frá
Bandaríkjunum.

Að lokum skal rifjað upp að fyrir utan Sumarsýningar safnsins, mynda munir safnsins nokkrar
„fastar“ sýningar.

 1. Útsaumssýning – sérlega fallegur undirfatnaður kvenna og listfengar hannyrðir.
 2. Sýning á þjóðbúningum – úrval íslenskra þjóðbúninga frá seinni hluta nítjándu
  aldar til okkar dags.
 3. Ullarsýning – þar sem vinnsluferli ullar er sýnt, gestir fá að handleika ullina og
  finna mismuninn á milli togs og þels og spreyta sig við að kemba og spinna á
  halasnældu.
 4. Áhöld og verkfæri, mörg hver heimasmíðuð sem notuð voru við heimilisiðnað.
 5. Halldórustofa – helguð lífi og starfi hinnar merku konu Halldóru Bjarnadóttur.

Heimilisiðnaðarsafnið er rétt eins og mörg söfn á Íslandi, stolt samfélagsins og hið eina sinnar
tegundar á Íslandi og varðveitir fyrst og fremst menningararf kvenna. Sumarsýningarnar hafa
líka skapað samstarf, útvíkkað og tengt safnið við sköpun listar og handverks í samstarfi við
starfandi listafólk og hönnuði. Þetta er nýnæmi og sýnir glögglega stöðugt hlutverk safnsins
sem uppsprettu hugmynda í nýsköpun textílmenningar. Og svo vitnað sé til orða Aðalsteins
Ingólfssonar í sýningarskrá síðustu Sumarsýningar „Foldarskart Louise Harris“:
„Aðstandendum þessarar sýningar var það fagnaðarefni þegar eitt fallegasta safn á landinu,
Heimilisiðnaðarsafnið á Blönduósi, samþykkti að taka verk Louise Harris til sýningar á þessu
ári“. Ætli megi ekki segja að „Glöggt sé gests augað“.

Heimilisiðnaðarsafnið er opið alla daga frá 1. júní til 31. ágúst og á öðrum tímum eftir
samkomulagi.

Bendi sérstaklega á heimasíðu safnsins www.textile.is þar sem sjá má sýnishorn af
Sumarsýningunum og öðrum menningarviðburðum safnsins ásamt yfirliti um starfsemi þess.

Elín S. Sigurðardóttir, forstöðum.