Ársskýrsla 2019

16.06.2020

Heimilisiðnaðarsafnið er viðurkennt safn og starfar í samræmi við safnalög nr. 141/2011 og þarf að uppfylla fjölmörg skilyrði bæði um eignarhald og ábyrgð á rekstri. Öll vinna í safninu er í samræmi við stofnskrá og skipulagsskrá sem Safnaráð staðfestir. Viðurkennd söfn skulu hafa starfsleyfi frá heilbrigðis- og eldvarnareftirliti og hafa öryggis- og viðvörunarkerfi í lagi. Eftirlit sé með ljósmagni, hitastigi og rakastigi í húsnæði þess, til staðar sé neyðaráætlun fyrir gesti, starfsfólk og safnkost, þá sé aðgengi allra gesta í samræmi við lög og reglugerðir. 

Skráning á safnmunum þarf að uppfylla skilmála Safnaráðs og lögð áhersla á að faglega sé unnið að söfnun og varðveislu. Stunda skal rannsóknir á þeim menningararfi sem safnið geymir og miðla niðurstöðum t.d. með útgáfu og öðrum kynningum, taka þátt í samstarfi svæðisbundið og á landsvísu svo nokkuð sé nefnt. Forstöðumaður skal hafa menntun á ábyrgðarsviði safnsins eða hafa aflað sér  hæfni og færni til reksturs á safni. 

Safnaráði er samkvæmt safnalögum falið að hafa eftirlit með viðurkenndum söfnum sem starfa eftir skilmálum þess um starfsemi viðurkenndra safna.

Eftirlitið í meginatriðum er þríþætt:

  1. Eftirlit með rekstri safns – Þetta er árlegt eftirlit sem er framfylgt með því að viðurkennd söfn skila Árlegri skýrslu til Safnaráðs.
  2. Eftirlit með húsakosti safns, aðbúnaði safnkosts, varðveislu gripa og öryggismálum. Þetta eftirlit fer fram á nokkurra ára fresti og er framkvæmt af eftirlitsnefnd Safnaráðs.
  3. Eftirlit með skráningu gripa og aðgengi að safnkosti og sýningum. Framfylgt með úttekt sérfræðinga á staðnum og gögnum eftir þörfum.

Heimilisiðnaðarsafnið var valið til eftirlits árið 2018 og hefur nú þegar hafið vinnu að ýmiss konar lagfæringum með tilliti til athugasemda og ábendinga sem fram komu í Eftirlitsskýrslum Safnaráðs á síðasta ári.

Fjárhagur

Rekstur safnsins hefur undanfarin ár staðið í járnum. Á síðasta ári náðist þó eilítill hagnaður en gæta þarf ítrustu sparsemi í öllum rekstrarútgjöldum og velja vandlega þau verkefni og viðhald á safnhúsinu sem farið er í það árið. Á síðasta ári var aðal viðhaldsverkefnið að laga sitthvað varðandi raflagnir með tilliti til athugasemda Mannvirkjastofnunar. 

Framlag Byggðasamlags um atvinnu- og menningarmál hækkaði um 450 þúsund krónur frá fyrra ári þ.e. í 6.milljónir og samtals lagði Safnasjóður til verkefna og reksturs kr.3.150 þúsund. Aðrir styrkir komu frá Uppbyggingarsjóði til reksturs kr. 1 milljón og 400 þúsund til verkefna, frá Menningarsjóði Kaupfélags Skagfirðinga kr. 300 þúsund, Sambandi Austur-húnvetnskra kvenna kr. 40 þúsund, Kvenfélagi Svínavatnshrepps kr. 30 þúsund til endurbóta og Húnavatnshreppi vegna viðburða kr. 50 þúsund.

Vísast nánar í ársreikninga safnsins.

Sérverkefni – lopapeysuverkefni

Í nokkur undanfarin ár hefur í ársskýrslum verið getið um farandsýningu íslensku lopapeysunnar sem Heimilisiðnaðarsafnið tók þátt í ásamt Hönnunarsafni Íslands og Gljúfrasteini – húsi skáldsins. Sýningin var fyrst opnuð í Hönnunarsafni Íslands þann 15. desember 2017. 

Eins og áður hefur komið fram er farandsýningin byggð á rannsóknarskýrslu Ásdísar Jóelsdóttur, lektors við Háskóla Íslands, sem vann hana að tilstuðlan samstarfsverkefnis nefndra safna. Fyrir jólin 2017 kom einnig út bók um íslensku lopapeysuna eftir Ásdísi Jóelsdóttur, sem er byggð á rannsóknarskýrslunni. Fyrrihluta árs 2018 var sýningin sett upp á Nord Atlantes Brygge og fór síðan til Odense. Síðstliðið vor kom sýningin heim og var sett upp hér í Heimilisiðnaðarsafninu. Næsti viðkomustaður hennar verður í safnahúsinu Sagnheimum í Vestmannaeyjum en þangað verður hún flutt nú á vordögum. 

Verður að segjast að við aðstandendur þessarar sýningar erum afar ánægðar með hve sýningunni hefur verið tekið vel og virðist ætla að eiga góðan líftíma.

Viðburðir

Sumarsýningin „Íslenska lopapeysan“ farandsýning – uppruni, saga og hönnun, var opnuð fimmtudaginn 30. maí. Björg Baldursdóttir, frá Kvæðamannafélaginu Gná, kvað stemmur bæði í upphafi athafnar og í lokin og var gerður góður rómur að. Eins og venjulega var ágætis aðsókn við opnunina og þáðu gestir kaffi og kleinur og áttu notalega samverustund.

Alþjóðlegi safnadagurinn var haldinn þ. 18. maí en þema hans var að þessu sinni „söfn sem menningarmiðstöðvar: Framtíð hefðarinnar“. 

Á Húnavöku var eins og venjulega margt um manninn og létu gestir í ljósi ánægju með sýningar safnsins.

Fyrirlestrar um söðla og reiðtygi voru haldnir þ. 1. september. Sigríður Sigurðardóttir, sagnfræðingur flutti fyrirlesturinn Prýðileg reiðtygi og Ragnheiður Þórsdóttir, veflistakona og kennari flutti fyrirlestur um Söðuláklæðin gömlu. Fyrirlestrarnir voru tileinkaðir evrópskum menningarminjadögum.

Á aðventu nánar tiltekið þ. 7. desember kynntu höfundarnir Sr. Sigurður Ægisson frá Siglufirði og Sigurður H. Pétursson, fyrrum dýralæknir frá Merkjalæk, nýútkomnar bækur sínar og lásu upp úr þeim. Einnig lásu Kolbrún Zophoníasdóttir og Sigurjón Guðmundsson úr nýútkomnum bókum.

Stofutónleikar Heimilisiðnaðarsafnsins fóru fram sunnudaginn 15. desember. Hjónin Hugrún Sif Hallgrímsdóttir og Jón Ólafur Sigurjónsson báru hitann og þungann af tónleikunum, en þeim til aðstoðar voru hjónin Sigríður Stefánsdóttir og Halldór Ólafsson. Efnisskráin var fjölbreytt og seinni hluti hennar með jólaívafi. Tónleikarnir voru sérstaklega vel sóttir og skapaðist náinn samhljómur milli flytjenda og gesta sem er einmitt einkenni góðra stofutónleika. Eftir báða þessa aðventuviðburði þáðu gestir heitt súkkulaði og smákökur.

Heimsóknir grunnskólabarna héraðsins er fastur liður í starfsemi safnsins. Nemendur fá þá leiðsögn um safnið og síðan tækifæri til að kemba og spinna og fylgja þræðinum í vef. Töluvert er um heimsóknir nemenda innlendra sem erlendra á efri skólastigum s.s. frá Listaháskóla Íslands, Myndlistaskólanum í Reykjavík og ýmsum framhaldsskólum. Þá er vert að geta þess að listafólk sem dvelur í Kvennaskólanum heimsækir safnið 

Innra starf

Rannsóknarvinna á árinu 2019 tengdist eins og oft áður fyrst og fremst ritgerðum nemenda á efri skólastigum. Þá vann Inga Arnar Kristjánsdóttir að framhalds rannsókn á munum tengdum íslenska þjóðbúningnum.

Styrkjandi forvarsla var ekki unnin á munum safnsins á síðasta ári þar sem ekki fékkst styrkur til þeirrar vinnu frá Safnasjóði. Hins vegar var lögð áhersla á að vinna enn meira að varðveislu safnmunanna og ljósmyndun en Safnasjóður veitti styrk til þeirra verkefna.

Góðar gjafir berast og á síðasta ári var sagt frá munum sem aðstandendur Aðalbjargar Jónsdóttur, sem lést árið áður gáfu til safnsins. Í sumar færði Ragnhildur Hermannsdóttir, dóttir Aðalbjargar safninu til viðbótar tvo handprjónaða kjóla eftir móður sína.

Þá hefur enn einn skautbúningur bæst við þjóðbúningaflóru safnsins. Búningurinn er saumaður af Elínu Ólafsdóttur (1851-1911) frá Sveinsstöðum, gefinn til safnsins af dótturdóttur hennar Valgerði Friðriksdóttur frá Vopnafirði.

Skráning og ljósmyndun á munum safnsins heldur áfram með styrk frá Safnasjóði. Á síðasta ári voru allir munir í Ullarsýningu safnsins ljósmyndaðir. Til upprifjunar skal nefnt að Þjóðbúningasýningin var ljósmynduð árið 2017 og Útsaumssýningin árið 2018. Meðfram hefur verið unnið að samræmingu og leiðréttingum á skráningum svo og að skrá inn ný aðföng. 

Að koma ull í fat er vefsýning ætluð sérstaklega fyrir grunnskólabörn. Safnasjóður styrkti gerð þessarar sýningar sem sýnir ferlið að breyta ull í þráð sem hægt er að vefa úr klæði. Uppistaða sýningarinnar eru ljósmyndir þar sem handtök eru sýnd í því ferli að breyta ull í fat. Texti fylgir myndunum og reynt að hafa orðalag á þann veg að grunnskólabörn eigi auðvelt með að skilja frásögnina. Ætlunin er að skoðun á vefsýningunni geti verið gott veganesti áður en nemendur heimsækja safnið, auk þess að vera grunnur að áframhaldandi vinnu þeirra að verkefnum sem tengjast þeirri verkmenningu sem safnið miðlar. Sýningin hefur verið sett inn á heimasíðu safnsins og skráð inn í Sarp.  http://textile.is/syningar-2/vefsyning-ad-koma-ull-i-fat/

Heimilisiðnaðarsafnið tók þátt í „List í 365 daga“  sem sett verður upp sem almanak. Þá tók safnið einnig þátt í rannsókn á sögutengdri ferðaþjónustu á Norðurlandi sumarið 2019.

Það skal nefnt að samkomulag var gert á milli Byggðasafns Skagfirðinga, Héraðsskjalasafns Skagfirðinga, Byggðasafns Húnvetninga og Strandamanna, Héraðsskjalasafns Vestur – Húnavatnssýslu, Héraðsskjalasafns Austur – Húnavatnssýslu og Heimilisiðnaðarsafnsins á Blönduósi, um að verði eitthvert safnanna sem aðilar eru að samkomulaginu fyrir áfalli, s.s. eldsvoða eða vatnsskaða, skuldbinda aðrir aðilar sig til að leggja fram aðstoð við björgun muna og/eða skjala í samráði við tryggingarfélag viðkomandi  safns.

Frá árinu 2017 hafa menningarminjasöfnin á Norðurlandi vestra þ.e. Heimilisiðnaðarsafnið Byggðasafn Skagfirðinga og Byggðasafn Húnvetninga og Strandamanna verið að efla samstarf safnanna t.d. með sameiginlegu námskeiðahaldi og feta sig áfram með hugmyndir um gagnkvæman stuðning. Hefur Safnasjóður nú síðustu tvö ár styrkt þetta samstarf.

Á síðasta ári var haldið Þjóðbúninganámskeið í safninu og sóttu það 8 konur – sumar að sauma fullbúna þjóðbúninga en aðrar hluta úr búningi.

Greinar um Heimilisiðnaðarsafnið og sýningar þess birtast á ári hverju í ýmsum dagblöðum, tímaritum íslenskum sem erlendum og á netmiðlum. Heimsókn Kristjáns Más Unnarssonar vegna þáttarins Ísland í dag vakti mikla athygli. Þá er mikið bloggað um safnið og töluverðar umræður og ábendingar um heimsóknir á samfélagsmiðlum. Safnið stendur gjarnan með fullt hús stiga hjá TripAdvisor

Það er slæmt að hafa lítil fjárráð til markaðssetningar. Við höfum þó reynt að vera með í sameiginlegum safnaauglýsingum bæði á landsvísu og hér í héraði. Það verður þó að segjast og oft verið um það rætt á ýmsum ferðamálafundum hér í sýslunni að það mætti alveg vekja meiri athygli á sjálfu sveitarfélaginu/sveitarfélögunum og hvað þau hafa upp á að bjóða. Litlar fjárvana stofnanir hafa takmarkaða burði til að markaðssetja sig.

Hið daglega starf

Starfshlutfall forstöðumanns hefur síðustu árin verið 60% og er hann eini fastráðni starfsmaður safnsins og annast og ber ábyrgð á allri starfsemi þess. Auk þess reynir forstöðumaður að sækja helstu safnfundi sem haldnir eru innanlands s.s. farskólafund safnamanna sem á síðasta ári var haldinn á Patreksfirði og vorfund Þjóðminjasafnsins sem haldinn er árlega í Reykjavík.

Það þykir alltaf jafn merkilegt að þetta litla safn geti staðið fyrir opnun nýrrar sérsýningar árlega. Undirbúningur slíkrar sýningar er ótrúlega mikill. Mjög er sótt á um að fá að halda sýningu í safninu og vandi að velja listafólk sem það hlotnast. 

Það vekur eftirtekt hve safnmunum er vel við haldið og þeir hreinir og trúa sumir safngestir því vart að um sé að ræða safnmuni, halda jafnvel að sitthvað sé endurgert. Á hverju ári er farið yfir alla muni í sýningum, sumir teknir útúr sýningum og hvíldir og aðrir settir inn til sýninga. Veggir og gólf þrifið og reynt að lágmarka ryk. Markmið safnsins er að aðkoma gesta sé þannig að þeir fái þá upplifun að vera fyrstir þann daginn.

Tveir nemar námsstúlkur vinna í safninu á föstum opnunartíma á sumrin. Þá aðstoða nokkrar eldri konur í sjálfboðavinnu við móttöku og sýnikennslu nemenda á grunnskólastigi. 

Síðastliðin ár hefur Blönduósbær annast launaútreikninga fyrir safnið, en að öðru leiti eru allar fjárreiður og bókhald á hendi forstöðumanns. Þá hefur bærinn einnig annast slátt á lóð safnsins og ber að þakka þessa aðstoð. 

Niðurlag

Safngestir telja vel á fjórða þúsund árlega og eru rúmlega helmingur safngesta erlendir ferðamenn. Mörg dæmi eru um, að heimsókn í þetta litla safn sé eitt af aðalmarkmiðum Íslands heimsóknarinnar og er greinilegt að umfjöllun um safnið á samfélagsmiðlum hefur þar mikil áhrif auk afar jákvæðra greinaskrifa í erlend fagtímarit. Síðast en ekki síst virðist bók Héléne Magnússon „Icelandic handknits“ eiga töluverðan þátt í fjölgun safngesta frá Bandaríkjunum.

Að lokum skal rifjað upp að fyrir utan Sumarsýningar safnsins, mynda munir safnsins nokkrar „fastar“ sýningar. 

 

  • Útsaumssýning – sérlega fallegur undirfatnaður kvenna og listfengar hannyrðir.
  • Sýning á þjóðbúningum – úrval íslenskra þjóðbúninga frá seinni hluta nítjándu aldar til okkar dags.
  • Ullarsýning – þar sem vinnsluferli ullar er sýnt, gestir fá að handleika ullina og finna mismuninn á togi og þeli og spreyta sig á að kemba og spinna á halasnældu.
  • Áhöld og verkfæri, mörg hver heimasmíðuð sem notuð voru við heimilisiðnað.
  • Halldórustofa – helguð lífi og starfi hinnar merku konu Halldóru Bjarnadóttur.

 

Heimilisiðnaðarsafnið er rétt eins og mörg söfn á Íslandi, stolt samfélagsins og hið eina sinnar tegundar á Íslandi og varðveitir fyrst og fremst menningararf kvenna. Sumarsýningarnar hafa skapað samstarf, útvíkkað og tengt safnið við sköpun listar og handverks í samstarfi við starfandi listafólk og hönnuði. Þetta er nýnæmi og sýnir glögglega stöðugt hlutverk safnsins sem uppsprettu hugmynda í nýsköpun textílmenningar. Og það er ekki aðeins gestir og listafólk sem talar um fallegt safn heldur einnig þekktir listfræðingar sem tala og skrifa um að Heimilisiðnaðarsafnið sé fallegasta safn landsins og látið þau orð falla að okkur sem búum þetta hérað hafi hlotnast heiður en jafnfram ábyrgð að eiga dýrgrip eins og þetta safn.

Þá má ekki gleyma að heimsókn og viðdvöl gesta í safnið styður við annan atvinnurekstur og aðra þjónustu í héraðinu.

Heimilisiðnaðarsafnið er opið alla daga frá 1. júní til 31. ágúst og á öðrum tímum eftir samkomulagi. 

Bendi sérstaklega á heimasíðu safnsins www.textile.is þar sem sjá má myndir og sýnishorn af Sumarsýningunum og öðrum menningarviðburðum safnsins ásamt yfirliti um starfsemi þess. 

Elín S. Sigurðardóttir, forstöðumaður