Vel heppnaðir stofutónleikar

30.07.2020

Heimilisiðnaðarsafnið hefur undanfarin ár staðið fyrir Stofutónleikum, en sérstaða þeirra er að þeir eru gjarnan fluttir í litlum rýmum.

Leitast hefur verið við að hafa tónleikana ólíka frá ári til árs og hafa þeir spannað yfir vítt tónlistarsvið. Flytjendur hafa ýmist verið heimafólk eða tónlistarfólk lengra að komið.

Á síðasta degi Húnavöku þ. 19. júlí sl. héldu þau Bára Grímsdóttir og Chris Foster sem skipa tvíeykið Funa, Stofutónleika í safninu. Fluttu þau íslensk og ensk þjóðlög í eigin útsetningum, sungin og leikin á gítar, langspil, kantele og shruti box. Má þar nefna kvæðalög, veraldleg og trúarleg lög sem fundist hafa í gömlum heimildum og einnig enskar ballöður.Textarnir eru bæði nýjir og gamlir, allt frá kvæðum úr Íslendingasögunum og sálmum frá 17. öld til kvæða eftir Grím Lárusson, föður Báru frá Grímstungu í Vatnsdal.

Þau Bára og Chris hafa síðustu tvo áratugi verið iðin við að blása lífi í íslenska þjóðlagatónlist en áður fyrr voru flest laganna sungin án undirleiks en þau hafa bætt við hljóðfæraleiknum.

Bára, söng- og kvæðakona er einn virtasti flytjandi íslenskra þjóðlaga og nýtur einnig mikillar virðingar sem tónskáld. Hún ólst upp við söng og kveðskap foreldra sinna og afa og ömmu í Grímstungu.

Chris ólst upp í Sommerset á Suðvestur-Englandi. Hann er frábær flytjandi enskrar þjóðlagatónlistar og þekktur fyrir kraftmikinn söng og einstaklega flottan gítarleik.

Þau hafa komið víða fram hér á landi sem og á Norðurlöndunum, Evrópu, Bandaríkjunum og Kína og gefið út plöturnar Funi og Flúr og fengið mikið lof fyrir.

Það var bæði mjög skemmtilegt og ekki síst fróðlegt að hlusta á þau Báru og Chris og má segja að þau hafi opnað huga tónleikagesta fyrir þessum einstaka menningararfi sem þjóðlagatónlist er.