Íslenskir vettlingar, ný bók til sölu í Heimilisiðnaðarsafninu

20.12.2020

Á dögunum kom út bókin “Íslenskir vettlingar” sem inniheldur 25 nýjar útfærslur á gömlum mynstrum. Höfundur bókarinnar er Guðrún Hannele Henttinen og útgefandi er Vaka-Helgafell, sem er hluti af Forlaginu ehf.

Allar uppskriftirnar í bókinni byggja á vettlingum sem varðveittir eru í Heimilisiðnaðarsafninu. Er þessi útgáfa enn eitt dæmið um hvernig munir í Heimilisiðnaðarsafninu verða að yrkisefni höfunda, hönnuða og listamanna við nýja listsköpun.

Í bókinni eru myndir af upprunalegu vettlingunum sem  sjá má í safninu en með hverri mynd er uppskrift af nýju vettlingunum. Í mörgum tilfellum eru vettlingarnir skrautlegir en hæfa þó mjög vel gömlu vettlingunum bæði með tilliti til prjónatækni og mynsturgerðar.

Bókin sem er bæði vegleg og falleg, útgefin á íslensku og ensku er nú þegar fáanleg í Heimilisiðnaðarsafninu. Þeir sem óska eftir að kaupa bókina hafi vinsamlegast samband við Elínu í síma 8626147 eða í tölvupósti textile@textile.is

Því miður er ljóst að ekki eru tök  á að halda hinn árlega viðburð Upplestur á aðventu í safninu fyrir þessi jól sem hefur verið ein af jólahefðunum.

Heimilisiðnaðarsafnið sendir héraðsbúum bestu hátíðaóskir með von um bjarta tíð.