Opnun sumarsýningar

11.06.2021

Textílbókverkasýningin Spor verður opnuð í Heimilisiðnaðarsafninu sunnudaginn 13. júní kl. 15:00.

Eftir opnunina verður boðið upp á kaffi og kleinur. Ókeypis aðgangur á opnunina.

 

Hér er um að ræða mjög óvenjulega sýningu þar sem tvær listgreinar tvinnast saman þ.e. bóklist og textíllist. Sum verkanna vísa í íslenskar textílhefðir, vefnað, útsaum, jurtalitun og fleira, auk þess að vera innblásin af náttúru Íslands, menningu kvenna og sögu.

Það er bókverkahópurinn Arkir sem stendur að sýningunni en 11 íslenskar listakonur og 5 erlendar eiga verk á sýningunni.

Allar þekkja þær vel til Heimilisiðnaðarsafnsins.

Sýningin var sett upp fyrir ári síðan en vegna Covid var ekki hægt að opna hana formlega þá. Vegna sömu ástæðna drógust gestakomur í safnið verulega saman og varð því að ráði að framlengja sýninguna um eitt ár. Sýningin hefur verið uppfærð, sum verkanna tekin út og önnur ný sett í staðinn.

Fjölmörg verkanna eru innblásin af munum safnsins, sjónrænni og hugmyndafræðilegri upplifun af verkum sem þar eru varðveitt. Listahópurinn nýtir þannig þann merka fjársjóð sem grunn að listsköpun sinni.

Sérsýningar Heimilisiðnaðarsafnsins hafa allar verið afar ólíkar frá ári til árs. Enn á ný mun sýning í safninu draga fram fyrir hinn almenna safngest nýja fleti í tengslum menningararfs og listsköpunar í nútímanum og undirstrikar að söfn eru ekki aðeins geymslustaðir heldur skapandi og lifandi vettvangur.