Sauða- og prjónatónar í safninu

10.07.2021

Nokkuð óvenjulegir tónleikar voru haldnir í Heimilisiðnaðarsafninu sunnudaginn 4. júlí. Þar voru á ferðinni Hafdís Bjarnadóttir og Passepartout Duo sem fluttu tónlist, einskonar óð til kvöldvöku gamla tímans, þegar fjölskyldur sátu saman í baðstofum, unnu úr ullinni og hlýddu á sögur og kveðskap.

Tónlistina nefndu þau “sauða- og prjónatóna” sem þau framkölluðu með gítar, slagverki, hljómborði og tölvu fyrir utan mjög svo óhefðbundin hljóð eins og braki frá hesputré, spunahljóði rokksins, kembingu ullar og klið frá prjónum áheyrenda.

Af öllum þessum óvenjulegu hljóðum myndaðist afar afslappandi tónlist sem áheyrendur nutu og voru að hluta til þátttakendur við sköpun hennar.