Líflegir fyrirlestrar í safninu

12.11.2021

Ágætis aðsókn var á fyrirlestra sem haldnir voru í Heimilisiðnaðarsafninu, laugardaginn 30 október sl.

Sigríður Sigurðardóttir, sagnfræðingur og fyrrum safnstjóri Byggðasafnsins í Glaumbæ, fjallaði um þvota og þrif í torfbæjum og Jón Torfason, sagnfræðingur og fyrrum starfsmaður á Þjóðskjalasafni Íslands, hélt fyrirlestur um sull og sullaveiki.

Fyrirlestrarnir kölluðust skemmtilega á en Sigríður fór nokkuð aftur í aldir og fram á okkar daga varðandi þrif og þvotta á húsakynnum, fatnaði og fólkinu sjálfu og má segja að hún hafi vakið áheyrendur til umhugsunar um hve miklar breytingar hafa orðið á síðustu hundrað árum hvað þrifnað varðar.

Jón ræddi um sullaveiki, smitleiðir frá hundum og þær einföldu leiðir til að stoppa veikina sem því miður margur átti erfitt með að skilja og átta sig á. Einnig sagði hann frá ungum manni sem hraktist á milli bæja í Húnavatnssýslum á næst síðustu öld og lést úr sullaveiki eftir að hafa verið látinn sofa hjá hundum.

Eftir að frummælendur höfðu lokið máli sínu spunnust líflegar umræður á milli þeirra og gesta og ljóst að fyrirlestrarnir vöktu áhuga áheyrenda.

Í lok dagskrár áttu gestir góða stund í kaffirými safnsins þar sem boðið var upp á kaffi og ástarpunga en aðgangur að þessum viðburði var ókeypis en styrktur af Safnasjóði.