ÞRÁÐLAG – Sumarsýning Heimilisiðnaðarsafnsins

17.06.2022

 

Ragnheiður Björk Þórsdóttir, veflistakona er höfundur Sumarsýningar  Heimilisiðnaðarsafnsins 2022. Nefnist sýningin ÞRÁÐLAG  og opnaði Ragnheiður hana sunnudaginn 29. maí að viðstöddum gestum. Verkin eru flest ný og gefa góða innsýn í fjölbreyttan heim veflistarinnar.

Við opnunina sungu og spiluðu hjónin Hugrún Sif Hallgrímsdóttir og Jón Ólafur Sigurjónsson (Hugrún og Jonni) nokkur lög við góðar undirtektir áheyrenda.

Í ávarpsorðum Elínar safnstjóra, kom fram hve Sumarsýningarnar hafi ævinlega verið ólíkar, en eigi þó það sameiginlegt að gefa innsýn í fjölbreyttan listiðnað og handmennt íslenskra kvenna.  Oft hafi verkin verið innblásin af munum safnsins og bæði sjónrænni og hugmyndafræðilegri upplifun af verkum sem varðveitt eru í safninu. Benti hún sérstaklega á ákveðin verk Ragnheiðar þar sem leiðarstefið er svuntudúkur sem unninn var um aldamótin 1900. Dúkurinn var ofinn úr fínasta þræði sem vitað er um að hafi verið handspunninn úr ull á Íslandi. Eru 25 þræðir í einum sentimetra en í verki Ragnheiðar teljast sex þræðir í sentimetra, úr fínasta þræði sem fáanlegur er í dag.

Nú eru nítján ár frá því fyrsta sérsýning Heimilisiðnaðarsafnsins var opnuð og líkja má þessum þætti í starfsemi starfsemi safnsins við lítið frjó sem í tímans rás hefur borið ríkulegan og fjölbreyttan ávöxt.

Þá rifjaði Elín upp að föðuramma Ragnheiðar og nafna, Ragnheiður Brynjólfsdóttir hafi verið kennslukona í Kvennaskólanum um árabil og svo hafi það gerst að sonardóttir hennar hafi nánast stígið í fótspor ömmu sinnar en undanfarin 5-6 ár hefur Ragnheiður Björk starfað hjá Textílmiðstöðinni í Kvennaskólanum.

Ragnheiður er hámenntuð á sviði vefnaðar, hún hefur haldið fjölda einkasýninga og tekið þátt í  fjölmörgum samsýningum hérlendis og erlendis. Hún starfaði við Verkmenntaskólann á Akureyri í 30 ár þar sem hún var m.a. kennslustjóri listnámsbrautar og vefnaðarkennari skólans.

Þess skal getið að sýning Ragnheiðar er sölusýning.

Heimilisiðnaðarsafnið er opið alla daga frá 1. júní til 31. ágúst frá kl. 10:00 til 17:00 og á öðrum tímum ársins samkvæmt sérstöku samkomulagi.