Sumarsýning 2011: Úr smiðju vefarans mikla

3.07.2011

Sýningin er yfirlitssýning á verkum Guðrúnar J. Vigfúsdóttur, veflistakonu. Í ávarpsorðum Elínar S. Sigurðardóttur, forstöðumanns safnsins, kom fram að á hverju ári frá því nýja safnhúsið var tekið í notkun árið 2003 hefur verið opnuð ný sýning á íslenskri textíllist. Sýningarnar hafa verið gjörólíkar frá ári til árs sem sýnir hve við eigum margt fjölhæft og frjótt listafólk.
Guðrún J. Vigfúsdóttir, var fædd að Litla-árskógi í Eyjafirði árið 1921. Hún var vefnaðarkennari við Húsmæðraskólann Ósk á Ísafirði í 43 ár og rak “Vefstofu Guðrúnar Vigfúsdóttur hf.” á Ísafirði í 26 ár.
Framleiðsla Vefstofunnar var þekkt um land allt og unnu þar margar konur. Árið 1988 flutti Guðrún í Kópavog og leiðbeindi þar í vefnaði og myndvefnaði í félgasstarfi aldraða. Hún átti einkar auðvelt með að stjórna hópverkefnum og vann t.d. veflistaverk með eldri borgurum sem hangir uppi í Félgasmiðstöðinni Gjábakka í Kópavogi, en fengið var að láni fyrir þessa sýningu.
Vefnaðarlist Guðrúnar hefur verið ótrúlega fjölbreytt allt frá litlum nytjahlutum s.s. löberum, púðum, herrabindum, sjölum, treflum svo eitthvað sé nefnt til kjólefna sem síðan hafa orðið að klassískum tískuflíkum. Hinsvegar er Guðrún ef til vill þekktust fyrir hökla og stóla sem til eru í nokkrum kirkjum landsins og ekki má gleyma sérlega fallegum myndverkum, sem prýða mörg heimili og stofnanir.
Við sýningaropnunina sungu og spiluðu þau Lára Sóley Jóhannsdóttir og Hjalti Jónsson og vöktu mikla hrifningu sýningargesta.
Eyrún Ísfold Gísladóttir, dóttir listakonunnar kynnti verk móður sinnar og gæddi þau lífi með skemmtilegri frásögn af lífi hennar og störfum. Hún opnaði síðan sýninguna “Úr smiðju vefarans mikla”.
Ánægjulegt var hve margir héraðsbúar um það bil 80 – 90 manns, sáu sért fært að vera viðstaddir athöfnina og eftir að hafa notið sýningarinnar þáðu allir kaffi og kleinur og áttu notalega stund í Heimilisiðnaðarsafninu við bakka Blöndu.