Ársfundur 2012 – ársskýrsla

3.04.2012

Ársfundur Heimilisiðnaðarsafnsins var haldinn 19. mars sl. Kynnt var skýrsla stjórnar og reikningar svo og rekstraráætlun fyrir 2012. Góðar umræður – Ásgerður Pálsdóttir stýrði fundi af skörungsskap. Eftirfarandi er ársskýrsla safnsins fyrir árið 2011.

Ársskýrsla

Aldrei í sögu Heimilisiðnaðarsafnsins hafa niðurstöðutölur rekstrarreiknings verið á þann veg sem nú, hreint tap sem nemur um 1.9 milljónum króna. Ástæður þessarar niðurstöðu eru ljósar, reksturskostnaður hefur hækkað milli ára og framlög lækkað  og tekjur af aðgangseyri nánast staðið í stað.

Það er sárt að horfa til þess að safnið, sem á glæsilegt skuldlaust hús, hefur fengið margskonar viðurkenningar fyrir faglegt og fjölbreytt starf á undanförnum árum, oftast skilað örlitlum hagnaði og þar með átt borð fyrir báru (sem bjargar stöðu sl. árs), skuli vera í þeim sporum  að þurfa að minnka þjónustu til að mæta skertum framlögum. Þá er óvíst að safnið uppfylli lengur lágmarks skilyrði til að fá fjárframlög frá Safnasjóði. Víst er að um þessar mundir er staða sveitarfélaga og þjóðfélags okkar bág, en aðstandendur þessarar stofnunar eru fyrst og fremst sveitarfélögin í héraðinu og við öll íbúarnir. Sú staðreynd að framlög sveitarfélaga voru lægri í krónutölu 2011 en árið 2009 þýðir töluverða raunlækkun, auk þess sem ýmiss önnur framlög hafa lækkað.

Kuldatíð síðasta sumars ásamt elsdneytishækkunum er væntanlega ein aðalástæða fækkunar safngesta, sem voru umtalsvert færri en undanfarin ár, vonandi að við náum til fleiri ferðamanna á næsta sumri.

Fyrir utan að endurgera útsaumsýninguna (Herbergið hennar) var Sumarsýning safnsins opnuð á vordögum. Að þessu sinni var það yfirlitssýning á verkum Guðrúnar Vigfúsdóttur, veflistakonu frá Ísafirði. Sýningin bar heitið „Úr smiðju vefarans mikla“ afar falleg sýning sem vakti verðskuldaða athygli safngesta. Í tengslum við sýninguna var haldin tískusýning í safninu á Húnavöku og sýndir  glæsikjólar og föt úr fórum Guðrúnar.

Íslenski Safnadagurinn var haldinn hátíðlegur sem venja er til, en aðsókn hefur dalað undanfarin ár ef til vill vegna þess að hér í héraði er aðeins vika  á milli Safnadagsins og Húnavökuhátíðar. Á Húnavöku og íslenska Safnadeginum sýna konur ýmiss konar handavinnu s.s. margskonar útsaum, einnig er heklað gimbað og orkerað. Þá er kembt og spunnið, prjónað og slegið í vef.

Í tengslum við verkefnið „Huggulegt haust“ var haldin svokölluð „Söguleg safnahelgi“ á Norðurlandi vestra þar sem söfn og setur á svæðinu buðu upp á sérstaka dagskrá. Heimilisiðnaðarsafnið tók þátt og annan daginn gladdi Alexandra Chernyshova safngesti með söng sínum.

Heimsóknir grunnskólabarna og annarra nemenda eru venjubundnar frá ári til árs og ævinlega sinnt af alúð og gefst hinum ungu safngestum tækifæri til að kemba og spinna og fylgja þræðinum síðan í prjón og vef.

Aðventustemning með upplestri úr nýjum bókum er fastur liður í starfsemi safnsins og nýtur vinsælda. Að lestri loknum er viðstöddum boðið upp á heitt súkkulaði og smákökur.

Töluvert er um rannsóknarvinnu í safninu. Ber að nefna frá síðasta ári, rannsóknir á útprjóni vettlinga, útsaumi altarisdúka og viðamikilli rannsóknarvinnu hjá Hélene Magnusson vegna útkomu bókar um íslenskt prjón í Heimilisiðnaðarsafninu sem verður gefin út innan tíðar.

Þá má nefna að safnið er að verða vinsæll staður fyrir fyrirlestra og fundi.

Eins og fram hefur komið virðist afkoma og framtíð Heimilisiðnaðarsafnsins í upphafi árs 2012 vera nokkuð óljós. Reynt verður að halda sjó þetta árið og mun starfsemi safnsins því væntanlega verða í nokkurri kyrrstöðu. Það er mjög slæmt því á sama tíma eru væntingar ferðaþjónustunnar um að safnið veiti meiri þjónustu og lengi opnunartímann.

Ekki verður hugað að endurbótum og viðhaldi nema því allra nauðsynlegasta, en í raun hefur legið nokkuð lengi fyrir að fara í endurbætur á þaki gamla safnhússins en ljóst er að það verður ekki gert að sinni.

Ný endurgerð heimasíða hefur verið opnuð, www.textile.is sem kemur til með að veita ennþá betri kynningu á safninu. Þá verður lögð áhersla á að auka sölu á „Vefnaðarbók Halldóru“, en sala hennar mun skila sér sem hreinar tekjur.

Eins og vikið var að hér fyrr í ársskýrslunni,  þá hafa sveitarfélögin í mörg horn að líta en þau þurfa líka að forgangsraða. Saga þessa safns er orðin nokkuð löng, en það var opnað upphaflega árið 1976 á hundrað ára afmæli Blönduóss sem verslunarstaðar. Frá árinu 1993 hefur safnið verið Sjálfseignarstofnun. Vorið 2010 undirrituðu öll sveitarfélögin ásamt Sambandi austur- húnvetnskra kvenna endurgerða skipulagsskrá. Í því fellst ábyrgð…ábyrgð eigenda stofnunarinnar um að reka hana og þróa áfram með sómasamlegum hætti, héraðinu til framdráttar og sóma.

Fjölmargir safngestir láta í ljósi aðdáun á hve glæsilega sé staðið að safninu. Þeir hinir sömu horfa hinsvegar í forundran ef upplýst er hvaða fjármunum safnið  hefur úr að moða og að það séu fjögur sveitarfélög sem standa að því. Öllum eru ljós hin óbeinu áhrif af starfseminni á ferðaþjónustu og aðra aðila í héraðinu.

Sjálfsagt er að spyrja „hvað getum við sem búum þetta hérað gert til styrktar safninu?“ Svarið er einfalt – heimsækjum Heimilisiðnaðarsafnið – förum með gesti okkar þangað – gerum það að árlegum vana, treystum og eflum starfsemi safnsins á þann hátt.