Opnun sumarsýningar

4.06.2013

Sumarsýning Heimilisiðnaðarsafnsins „Lesið í prjón“ var opnuð sunnudaginn 2. júní sl.
Í ávarpi Elínar S. Sigurðardóttur, forstöðukonu safnsins kom fram að þetta væri í tíunda skiptið sem opnuð væri sérsýning í Heimilisiðnaðarsafninu en fyrir réttum tíu árum síðan var nýja safnhúsið vígt og tekið í notkun og tveimur árum síðar var húsið skuldlaust. Elín sagði að húsið hefði reynst vel til sýningarhalds og vekti athygli margra gesta fyrir form og skipulag, auk þess að falla vel að gamla hlutanum, sem eitt sinn hýsti mjólkurkýr og heyforða. Fyrir utan hefðbundnar sýningar safnsins færu fram margskonar menningarviðburðir, s.s. upplestur og tónleikar en hljómburður væri sérlega góður í opna sýningarrýminu.
Þá kom fram að auðvitað væri hægt að nýta þetta rými undir safnmuni, en þessi tilbreyting í safnastarfi vekti mikla athygli ekki aðeins á safninu heldur einnig á Blönduósbæ, en algengt er að innlendir og erlendir ferðamenn tengi saman Heimilisiðnaðarsafnið og Blönduós. Fyrir utan sérstakar kveðjur frá safngestum innanlands og utan að þá hefur færst í aukanna að okkur berast í hendur erlendar tímarits- og blaðagreinar. Vitnaði Elín í loka málsgrein eftir Jane Patrick sem hún ritaði í þekkt handavinnutímarit “If your travels take to Iceland – which I highly recommend – plan to spend worthwhile day at The Textile Museum“
Sýningin „Lesið í prjón“ tengist útgáfu bókar Héléne Magnússon „Icelandic Handknits“ sem nú þegar hefur komið út í Bandaríkjunum, en efni bókarinnar byggir á rannsóknum Héléne á handprjónuðum munum sem varðveittir eru í safninu. Helen ásamt aðstoðarkonum hefur prjónað og endurgert muni en einnig hannað nýjar flíkur með beinni skírskotun til safnmuna. Fjöldi mynda prýða bókina, auk þess sem forstöðumaður hefur ritað grein um tilurð Heimilisiðnaðarsafnsins og Halldórustofu, ásamt formála.
Með útgáfu bókarinnar er gefin sérlega góð innsýn í prjónahefð Íslendinga á seinni hluta 19. aldar og fyrri hluta 20. aldar. Hárfínn þráðurinn var spunninn úr þeli eða togi íslensku ullarinnar og nýttur í listfengt prjón og vefnað, ýmist með sínum fjölbreytilegu náttúrulegu litum eða jurtalitaður. Á sýningunni er hægt að sjá upprunalegu munina á ýmsum stöðum í safninu – hvernig hvunndagsflíkur sem varðveittar eru hér hafa skapað innblástur og öðlast nýtt líf sagði Elín.
Bandarísku sendiherrahjónin á Íslandi höfðu þegið boð Héléne um að opna sýninguna en vegna forfalla kom fulltrúi frá sendiráðinu Jamila Attaoui ásamt fleiri gestum og opnaði sýninguna.
Ásdís Guðmundsdóttir og Sorin Lazar fluttu nokkur lög við athöfnina við góðar undirtektir.
Í lokin þáðu gestir kaffi og kleinur og nutu samveru og skemmtilegheita hvors annars.

Fleiri myndir frá opnun sumarsýningarinnar má sjá hér á myndasíðu safnsins.