Rannsóknarverkefni um sögu og tilurð íslensku lopapeysunnar

4.06.2014

Gljúfrasteinn, Hönnunarsafn Íslands og Heimilisiðnaðarsafnið á Blönduósi, auglýsa eftir fræðimanneskju til að vinna að rannsókn um sögu og tilurð íslensku lopapeysunnar.

 Miðað er við þriggja mánaða verkefni og að rannsóknarvinnan hefjist eigi síðar en 1.september 2014. Niðurstöðum skal skilað í skýrslu og með kynningu.

Verkefnið hefur það að markmiði að varpa ljósi á hönnunarsögu íslensku lopapeysunnar, þátt Auðar Sveinsdóttur Laxness og annarra kvenna sem sannarlega tóku þátt í þróun og hönnun peysunnar.

Söfnin þrjú leggja rannsakanda til efnivið og heimildir. Safnstjórar munu vinna náið með rannsakanda og veita aðgang að safnkosti eftir því sem þurfa þykir. Gert er ráð fyrir að rannsakandi muni einnig afla gagna víðar.

Söfnin sem standa að þessu rannsóknarverkefni meta sem svo að rannsóknin sem slík sé sjálfstæð en hún gefi tilefni til að hluti af niðurstöðunni geti mögulega nýst til sýningargerðar.

Um er að ræða mjög áhugavert verkefni og því nauðsynlegt að umsækjandi sé samviskusamur, nákvæmur og hafi brennandi áhuga á verkefninu.

 Hæfniskröfur:

  • Háskólapróf í hug- og félagsvísindum eða skyldum greinum.
  • Reynsla af svipuðum rannsóknarverkefnum gagnleg.
  • Umsækjandi þarf að geta starfað sjálfstætt.

Tilgangur verkefnis:
Að kanna uppruna, hönnun og þróun íslensku lopapeysunnar og tengsl hennar við íslenska arfleifð. Margar hugmyndir hafa komið fram um uppruna og þróun íslensku lopapeysunnar. Ljóst er að fyrst var prjónað úr lopa á prjónavél árið 1920 og heimildir herma að örfáum árum fyrr hafi konur verið farnar að handprjóna vettlinga úr lopa. Um miðjan sjötta áratug síðustu aldar er farið að prjóna lopapeysur eins og við þekkjum í dag og köllum „íslensku lopapeysuna“. Víst er að á Norðurlöndum voru garnpeysur með svipuðum bekkjum vinsælar og gjarnan nefndar „Grænlandspeysur“ sem er ekki óeðlilegt þar sem munsturgerðinni svipar til perluskreytinga á grænlenskum kvenbúningum. Oft hefur nafn Auðar Sveinsdóttur Laxness borið á góma í tengslum við íslensku lopapeysuna og stundum fullyrt að hún hafi hannað íslensku lopapeysuna. Kemur það fram í viðtölum við hana sjálfa og víðar. Eðli málsins samkvæmt er þessi afstaða ekki óeðlileg í ljósi áhuga og vinnu Auðar á hannyrðum og miðlun hugmynda um þátt þeirra í sögusköpun íslensks samfélags. Auk þess hannaði Auður og þróaði fjölda prjónamynstra og gerði tilraunir með liti og garn. Vitað er að hugmynd að peysumunstri sem hún prjónaði á fyrri hluta fimmta áratugarins fann hún í bók um list Inkaveldisins sem Halldór hafði keypt fyrir hana í Bandaríkjunum. Nú á fyrri hluta 21. aldar er íslenska lopapeysan orðin íslensk arfleifð. Þegar horft er til síðasta áratugar er ljóst að yngsta kynslóð hönnuða „leitar í arfleifðina“. Íslenska lopamynstrið er ekki aðeins að finna í öllum sínum fjölbreytileika á íslensku lopapeysunni, heldur sjáum við það á ótrúlegustu hlutum s.s. bolum, servíettum, innkaupapokum og svo mætti lengi telja. Þó lopapeysan okkar sé ekki gömul hefur hún fest sig í sessi sem íslensk arfleifð og hluti af hönnunarsögu þjóðarinnar.

 

Nánari upplýsingar um verkefnið veitir Guðný Dóra Gestsdóttir, gudny@gljufrasteinn.is Verkefnislýsingu má einnig finna á heimasíðum safnanna: Lopapeysuverkefnið www.honnunarsafn.is    www.gljufrasteinn.is    www.textile.is

Umsóknarfrestur er til 16. júní nk. og skal senda ásamt starfsferilskrá til Gljúfrasteins, b.t. Guðnýjar Dóru Gestsdóttur, Gljúfrasteini, 270 Mosfellsbæ, eða á netfangið: gudny@gljufrasteinn.is