Ársskýrsla 2014

7.05.2015

Heimilisiðnaðarsafnið hlaut viðurkenningu mennta og menningarmálaráðherra sem fullgilt safn samkvæmt safnalögum nr. 141/2011. Viðurkenningarskjalið er dagsett 26. febrúar 2014. Þetta þýðir að safnið er styrkhæft frá Safnasjóði og má nota einkennismerki Safnaráðs. Ráðherra er heimilt að afturkalla viðurkenninguna, telji Safnaráð að safnið uppfylli ekki skilyrði viðurkenningarinnar.
Til að njóta viðurkenningar skal safn vera í eigu opinberra aðila, sjálfseignarstofnun eða í eigu félags eða fyrirtækis , sem tryggir safninu fjárhagsgrundvöll til rekstrar og eðlilegrar starfsemi og skipar því stjórn. Þá skal safn ekki rekið í hagnaðarskyni, það skal hafa sjálfstæðan fjárhag, starfa eftir stofnskrá/skipulagsskrá sem Safnaráð hefur staðfest, sbr. 7. gr. safnalaga. Stofnskrá skal birt í B-deild Stjórnartíðinda. Þá þurfa viðurkennd söfn að hafa starfsleyfi frá heilbrigðis- og eldvarnareftirliti, hafa öryggis- og viðvörunarkerfi í lagi. Eftirlit sé með ljósmagni, hitastigi og rakastigi í húsnæði safnsins, til staðar sé neyðaráætlun fyrir gesti, starfsfólk og safnkost þá sé aðgengi í samræmi við lög og reglugerðir. Skráning á safnmunum þarf að uppfylla skilmála Safnaráðs og lögð áhersla á að faglega sé unnið að söfnun og varðveislu. Skila skal höfuðsafni (Þjóðminjasafni) stefnumörkun um starfsemi á fjögurra ára fresti. Safnið skal vera opið almenningi á auglýstum opnunartíma, upplýsingar um skráða gripi aðgengilegar almenningi, stunda rannsóknir og miðlun og taka þátt í samstarfi svæðisbundið og á landsvísu. Safnið skal starfa í samræmi við siðareglur Alþjóðaráðs safna (ICOM) og ákvæði laga. Forstöðumaður skal hafa menntun á ábyrgðarsviði safnsins eða hafa aflað sér hliðstæðrar hæfni.
Skilmálar Safnaráðs fyrir viðurkenningu safna eru fyrst og fremst settar fram til að samræma starfsemi safna á Íslandi og tryggja að viðkomandi söfn starfi faglega. Þá er einnig verið að vekja eigendur safnanna til vitundar um að viðurkennd söfn starfi eftir lögum sem um þau gilda. Til samanburðar er rétt að minna á að safnalög gilda ekki um setur. Það er því ekki hægt að jafna stöðu safna og setra saman, hér er um ólíkar stofnanir að ræða sem báðar eiga rétt á sér. Söfn og setur geta hinsvegar átt samstarf, en aðeins á forsendum safnsins sem ávallt verður að uppfylla skildur sínar samkvæmt lögum. Eigendurnir þurfa því að átta sig á þeirri fjárhagslegu og faglegu ábyrgð sem þeim er gerð við að uppfylla gildandi lög.

 

Fjárhagur

Ársreikningar Heimilisiðnaðarsafnsins fyrir árið 2014 sýna verulegar breytingar á fjárhagsstöðu safnsins á milli ára. Rekstrarhalli er fjármagnaður með því að eyða þeirri inneign (varasjóði) sem safnið átti og stofna til skulda. Hingað til hefur safnið ævinlega getað staðið undir rekstri og lítilsháttar viðhaldi og átt svolítinn sjóð sem hægt hefur verið að grípa til.
Í mörg undanfarin ár hefur legið fyrir að endurnýja þyrfti þakið á gamla safnhúsinu. Ákveðið var að ganga til verksins á sl. ári og hljóðaði kostnaðaráætlun upp á tæpar 2 milljónir króna. Sveitarfélögin lögðu fram kr. 500 þús. til verksins og kvenfélögin ásamt Sambandi austur-húnvetnskra kvenna kr. 568 þúsund. Til að að ljúka verkinu var gripið til „varasjóðsins“ og safnið stendur frammi fyrir því í fyrsta sinn að eiga ekki nægilega fjármuni til rekstrar.
Svo vísað sé til ársreiknings þá lækkaði framlag Safnasjóðs á milli ára. Öll söfnin fengu kr. 1 milljón í rekstrarstyrk og í okkar hlut komu einnig kr. 850 þúsund til tveggja verkefna. Annað verkefnið vegna styrkjandi forvörslu að upphæð kr. 500 þúsund en hitt verkefnið vegna varðveislu á safnmunum kr. 350 þúsund.
Þá veitti Menningarráð kr. 300 þúsund til tveggja viðburða í safninu og Menningarsjóður Kaupfélags Skagfirðinga veitti kr. 300 þúsund til menningarstarfsemi.
Í geymslum safnsins er „góður slatti“ af Vefnaðarbók Halldóru og hvert selt eintak kemur inn sem hreinar tekjur þar sem allur kostnaður er löngu greiddur.
Um árabil hafa safnmunir Heimilisiðnaðarsafnsins verið skráðir í gagnagrunninn Microsoft Acces okkur að kostnaðarlausu. Vitað var að þessi gagnagrunnur samræmdist ekki kröfum Safnaráðs og verður ekki lengur umflúið að flytja skráninguna inn í Sarp. Hefur verið gerður notendaleyfissamningur við Rekstrarfélagið Sarp þar að lútandi en á móti bætist enn einn útgjaldaliður við rekstur safnsins.

 

Lopapeysuverkefni

Heimilisiðnaðarsafnið ásamt Hönnunarsafni Íslands og Gljúfrasteini sóttu sameiginlega um styrk til Safnasjóðs til að rannsaka uppruna, hönnun og þróun íslensku lopapeysunnar. Verkefnið hlaut 900 þúsund króna styrk. Auglýst var eftir einstaklingi til að framkvæma rannsóknina og var Ásdís Jóelsdóttir, lektor við Háskóla Íslands valin úr hópi fjölda umsækjenda. Umsóknaraðilar lögðu allir fram vinnu við undirbúning og framkvæmd rannsóknarinnar, auk þess að veita rannsakanda aðstoð við upplýsingaöflun og heimildavinnu. Styrkur Safnasjóðs gekk allur til að greiða laun Ásdísar. Eigin vinnu og kostnað bar hvert safn fyrir sig. Verkefninu er lokið og verður skýrslan birt innan skamms á heimsíðu safnanna þriggja.

 

Viðburðir

Einn af hápunktum í starfi safnsins er opnun Sumarsýningar. Útsaumsýningin „Sporin mín“ eftir Þórdísi Jónsdóttur var opnuð á Uppstigningardag. Sýningin hlaut mjög jákvæða dóma og töluverða umfjöllun í fjölmiðlum. Við opnunina söng Móheiður Guðmundsdóttir við undirleik Guðmundar Árnasonar og Jóns Heiðars Sigurðssonar og að vanda var gestum boðið upp á kaffi og kleinur.
Íslenski Safnadagurinn var að venju haldinn hátíðlegur og sátu konur við ýmiss konar handavinnu, s.s. útsaum, gimb, hekl og prjón. Þá var kembt, spunnið og slegið í vef og gestum boðið að taka þátt.
Á Húnavöku er ævinlega reynt að lífga upp á safnhúsið með skreytingum. Í ár vísuðu skreytingarnar til Sumarsýningar safnsins. Á síðasta degi Húnavöku flutti Jóhanna E. Pálmadóttir, fyrirlestur sem fjallaði um nokkrar hannyrðakonur héðan úr héraði, flestar fæddar á seinnihluta 19. aldar. Allar áttu þær það sammerkt að hafa verið sérlega listfengar og eru varðveittir ýmsir munir í safninu úr fórum þeirra.
Á vordögum voru haldnir Stofutónleikar þar sem Ellen Kristjánsdóttir og Eyþór Gunnarsson, fluttu fjölbreytta tónlist. Tónleikarnir voru fjölsóttir og mæltust mjög vel fyrir.
Á aðventu sóttu okkur heim góðir gestir, hjónin Elín Guðmundsdóttir þýðandi og Jón Þ. Þór sagnfræðingur og lásu þau uppúr og kynntu verk sín. Einnig las Kolbrún Zophoníasdóttir uppúr bókinni Smalinn. Að kynningu lokinni var gestum boðið upp á heitt súkkulaði og smákökur.
Heimsóknir grunnskólabarna héraðsins er fastur liður í starfsemi safnsins. Nemendur fá þá leiðsögn um safnið og síðan tækifæri til að kemba og spinna og fylgja þræðinum í vef. Margir aðrir nemendur komu á síðasta ári og má nefna að í tengingju við svokallað Comeníusarverkefni, sem er samstarfsverkefni nokkurra skóla í Evrópu heimsóttu safnið u.þ.b. 60 nemendur á grunnskóla aldri.

 

Innra starf

Heimilisiðnaðarsafnið og Þekkingarsetrið endurnýjuðu samstarfssamning sinn sem felur í sér 30 klukkustunda vinnuframlag sérfræðings í þágu safnsins. Einnig felur samningurinn í sér að Heimilisiðnaðarsafnið stendur listafólki sem dvelst ótímabundið í Kvennaskólanum opið eftir nánara samkomulagi.
Rannsóknarvinna á árinu 2014 tengdist aðallega fyrrnefndu rannsóknarverkefni um uppruna og þróun íslensku lopapeysunnar og tengsl hennar við íslenska arfleifð. Þá vann Hildur Hákonardóttir rannsókn á gamla salons vefnaðinum. Alltaf er nokkuð um heimildaöflun vegna verkefna nemenda af öllu landinu á efri skólastigum.
Styrkjandi forvarsla (viðgerð) fer fram á söðuláklæði frá árinu 1850. Eins og fram hefur komið er sú vinna styrkt af Safnasjóði. Vinnan er í höndum Þórdísar Baldursdóttur, forvarðar og vonandi hægt að ljúka verkinu á þessu ári.
Árlega berast safninu munir sem þarf að flokka, forverja og skrásetja. Á síðasta og næstsíðasta ári bárust m.a. grænlenskir munir til safnsins og var samþykkt að taka við hluta af þeim til varðveislu. Sem dæmi ber að nefna treyjur þ.s. perlumunstur og litir tengjast mjög munstrum ísl. lopapeysunnar. Einnig ýmsir perlusaumaðir smádúkar sem vísuðu beint til íslenskra heklaðra dúka. Ýmsir aðrir perlusaumaðir munir s.s. belti, hálsskraut, ambönd og festar svo nokkuð sé nefnt var gefið og afhent til Safnasafnsins á Svalbarðsströnd á síðasta ári.
Bókin Íslenskt Prjón eftir Hélene Magnússon kom út á íslensku á sl. ári en bókin kom út á ensku árið 2013. Bókin byggir á rannsóknarvinnu sem gerð var á prjóni í safninu og er mikil kynning fyrir Heimilisiðnaðarsafnið.
Greinar um Heimilisiðnaðarsafnið og sýningar þess hafa birst bæði á netmiðlum, blöðum og tímaritum hér á landi. Einnig má nefna umfjöllun í N4 og í ÍNN um safnið og sýningar þess. Þá hafa greinar birst í erlendum fagtímaritum og má þar nefna Haandarbejde Nu 3. tbl. 49 árg. og Rapporter fra tekstilernes verden nr. 4. Grein sú sem rituð var í bókina Icelandic Handknits um Heimilisiðnaðarsafnið ásamt formála eftir undirritaða hefur líka birst í bókinni Íslenskt prjón.

 

Hið daglega starf

Forstöðumaður er eini fastráðni starfsmaður safnsins með 50% starfshlutfall sem er lágmark til að uppfylla skilyrði safnalaga. Forstöðumaður ber ábyrgð á daglegum rekstri safnsins s.s. opnun safnins utan venjubundins opnunartíma, annast bréfaskriftir, gerð umsókna vegna rekstrar og annarra verkefna. Þá skipuleggur forstöðumaður og hefur umsjón með öllum viðburðum í safninu s.s. opnun sýninga, námskeiðum, skólaheimsóknum, fyrirlestrum, málþingum og tónleikum. Tekur á móti fræðafólki og aðstoðar það við rannsóknir og heimildaöflun. Forstöðumaður annast fjármál (þó ekki útreikning launa) og skrifar ársskýrslu og aðrar skýrslur. Forstöðumaður ber ábyrgð á þrifum og að munir safnsins séu varðveittir með öruggum hætti, hefur umsjón með rekstri og viðhaldi á húsnæði safnsins. Þá sér forstöðumaður um móttöku og forskráningu muna ásamt sérfræðimenntaðri aðstoðarkonu í hannyrðum. Á árinu sótti forstöðumaður vor- og haustfund Þjóðmunasafns Íslands sem ætlaðir eru til að upplýsa um og samræma störf safna að hinum nýju safnalögum. Með hliðsjón af fjárhag safnsins taldi forstöðumaður sér ekki fært að sækja hinn árlega Farskóla safnamanna sem að þessu sinni var haldinn í Berlín.
Tvær námsstúlkur vinna í safninu á föstum opnunartíma á sumrin og undanfarin ár hefur fengist styrkur frá Atvinnuleysistryggingasjóði vegna hluta af launum þeirra.
Nokkrar eldri konur aðstoða í sjálfboðavinnu við móttöku og sýnikennslu nemenda á grunnskólastigi og hafa einnig tekið þátt í viðburðum s.s. á ísl Safnadeginum og Húnavöku.
Þá má geta þess að undanfarin ár hefur KPMG endurskoðun, skrifstofan á Blönduósi, annast launaútreikninga fyrir safnið án endurgjalds.

 

Niðurlag

Ánægðir safngestir er besta auglýsingin og ljóst að hróður safnsins berst víða bæði innanlands og utan. Flestir safngestir koma á eigin vegum þó hefur hópum fjölgað nokkuð. Á síðasta ári var helmingur um 3000 safngesta Íslendingar og hinn helmingurinn erlent ferðafólk. Hlýjar kveðjur og umsagnir skreyta ekki aðeins gestabók safnsins heldur fær undirrituð einnig margar póstsendar og rafrænar kveðjur. Safnið þykir „djásn“ sýningarnar fallegar og faglegar og svo þykir sérlega merkilegt að lítið safn í svona fámennu byggðarlagi skuli standa fyrir nýrri sérsýningu á hverju ári.
Nauðsynlegt er að þeir sem standa að þessari stofnun átti sig á þeirri ábyrgð sem á þeim hvílir, gleðjist yfir því sem vel er gert og styðji stofnunina. Það hefur sýnt sig að Heimilisiðnaðarsafnið styrkir og eflir menningartengda ferðaþjónustu í héraði sem við getum öll verið stolt af.
Að lokum skal bent á heimasíðu safnsins www.textile.is þar sem sjá má skemmtilegar myndir frá ýmsum viðburðum ársins.

Elín S. Sigurðardóttir, forstöðum.