Fyrirlestur á Húnavöku

20.07.2015

Það var fámennt en góðmennt á Ömmufyrirlestri Kristínar Ástgeirsdóttur, sagnfræðings, sem fluttur var í Heimilisiðnaðarsafninu í gær – á síðasta degi Húnavöku.

Fyrirlesturinn sem bar yfirskriftina „En amma hafði á öldunni gát og aflann úr fjörunni dró“ var bæði skemmtilegur og fróðlegur.

Kristín gaf viðstöddum innsýn í líf ömmu sinnar og langömmu og fléttaði saman við þjóðfélagsstöðu íslenskra alþýðukvenna á öldinni sem leið og þar á undan. Í fyrirlestrinum og samræðum gesta eftir hann kom svo greinilega fram að á þessum tíma var líf alþýðukonunnar nokkuð svipað hvar á landinu sem hún bjó.

Undanfarin ár hefur Heimilisiðnaðarsafnið boðið upp á sérstaka dagskrá á síðasta degi Húnavöku. Oft hefur verið sýnikennsla á vinnubrögðum fyrri tíma á ull og handíðum, tískusýning og sýning á íslenskum þjóðbúningum en einnig fyrirlestrar og ávallt verið margt um manninn.

Í ár hafa söfn á Íslandi verið hvött til þess að minnast þeirra tímamóta að 100 ár eru frá því að íslenskar konur fengu kosningarétt. Sumarsýning safnsins „Fínerí úr fórum formæðra“ og þessi fyrirlestur Kristínar eru innlegg Heimilisiðnaðarsafnsins til að minnast  þessara tímamóta og tileinkuð þeim. Þá hefur  Kvenfélagasamband Íslands hvatt „fólk sem á eða hefur aðgang að þjóðbúningum til að klæðast þeim og almennt að vera spariklætt við hin fjölmörgu hátíðlegu tækifæri sem tengjast 100 ára kosningaréttarafmæli kvenna“. (tilvitn. Húsfreyjan 2 tbl. 2015)

Það var því miður hve fáir sáu sér fært að mæta en það kom berlega í ljós að viðtaddir fóru heim með sitthvað í farteskinu – ef til vill reikaði hugur sumra til ömmu og langömmu og spurningarinnar hver staða okkar sé – hver arfleifð okkar verður þegar saga okkar verður skoðuð eftir nokkur ár.

Í lokin færði Elín safnstjóri, Kristínu Vefnaðarbók Halldóru að gjöf og minntist þess að árið 2008 var haldið málþing í safninu í tilefni 135 ára fæðingarafmælis Halldóru Bjarnadóttur. Einn fyrirlesara málþingsins var Kristín Ástgeirsdóttir og um þetta leiti var undirbúningur hafinn að endurútgáfu á bók Halldóru sem kom út vorið eftir. Var því vel við hæfi að geta afhent Kristínu bókina við þetta tækifæri.

Í lokin áttu gestir saman notalega stund og sötruðu kaffi ásamt meðlæti.

        

 

Meðfylgjandi myndir eru af blómarósunum Elínu Söru Richter í 19. aldar telpubúningi og Jóhönnu Björk Auðunsdóttur í 20. aldar telpubúningi.

Einnig Hrafnhildi Unu Þórðardóttur,  safnverði sem skartar skautbúningi og Elínu S. Sigurðardóttur sem klæðist upphlut. Við ræðupúltið er Kristín Ástgeirsdóttir, sagnfræðingur.