Frá opnun sumarsýningar

2.06.2016

Sumarsýningin Vinjar var opnuð að viðstöddu fjölmenni í Heimilisiðnaðarsafninu þ. 22. maí síðastliðinn.

Að þessu sinni er það Anna Þóra Karlsdóttir, myndlistamaður sem sýnir í safninu. Í verkum Önnu Þóru má sjá beina skírskotun til náttúrunnar og lífsbaráttunnar. Listrýnar hafa ævinlega lokið miklu lofsorði á sýningar Önnu Þóru og telja hana í broddi fylkingar í listsköpun þar sem grunnhráefnið er íslenska ullin.

Við opnunina söng Guðrún Helga Stefánsdóttir, sópransöngkona, dóttir listakonunnar nokkur lög, við undirleik heimafólksins Benedikts Blöndal og Nínu Hallgrímsdóttur.

Mæðgurnar luku báðar miklu lofsorði á safnið og sýningar þess. Anna Þóra taldi mikinn heiður að hafa verið boðið að sýna í safninu og lagði áherslu á hve aðstandendur þess mættu vera stoltir af að eiga slíka menningarstofnun sem hér er að finna.

Við opnunina flutti Elín S. Sigurðardóttir ávarp sem sjá má hér að neðan.

Komið þið öll blessuð og sæl og verið hjartanlega velkomin til opnunar Sumarsýningar Heimilisiðnaðarsafnsins.
   
Sérstaklega vil ég bjóða listakonuna Önnu Þóru Karlsdóttur ásamt gestum hennar velkomna. Ég vil einnig þakka dóttur hennar Guðrúnu Helgu Stefánsdóttur sópransöngkonu, fyrir fallegan söng – fáum væntanlega að heyra aftur í henni hér á eftir og þakka þér Benni fyrir undirspilið.
Þetta er þrettánda vorið í röð sem opnuð er Sumarsýning hér í safninu og í minningunni ævinlega gott veður þegar þegar þessi athöfn fer fram.
Hver einasta sýning er sérstök og allar afar ólíkar en gefa innsýn í fjölbreytta textílflóru íslenskra listamanna. Sýningarnar eru líka eitt sterkasta sérkenni safnsins og skapa því mikla sérstöðu í starfi og má segja að þær auki vægi safnsins í íslenska safnaheiminum og fyrir ferðaþjónustu héraðsins. Rúmlega helmingur safngesta eru erlendir ferðamenn og dæmi eru um, að heimsókn í þetta litla safn sé aðalmarkmið Íslandsheimsóknarinnar.
Margir gestir spyrja – hvernig getur lítið safn norður í landi opnað nýja sérsýningu á hverju vori? Og svo sannarlega er það ekki sjálfsagt mál.
Það segir sig sjálft að undirbúningurinn er mikill og það þarf töluvert skipulag. Yfirleitt er búið að ákveða næstu Sumarsýningu haustið áður og hefst þá oftast nær undirbúningsvinna hjá viðkomandi listamanni og eftir því sem nær dregur aukast samskipti við forstöðumann safnsins sem einnig þarf að hnýta marga enda svo allt gangi upp.
  
Ég hef stöku sinnum nefnt vorhreingerninguna í safninu – nokkuð sem ekki endilega sést en ef ekkert eða lítið væri aðhafst mundi okkur ekki þykja notalegt að heimsækja safnið. Margir safngestir eru reyndar mjög undrandi á því hvernig hægt sé að halda öllum þessum sýningarmunum jafn hreinum og vel útlítandi, enda ekki óvanalegt að sjá fremur óhrjálega textílmuni í söfnum. Þá skiptir miklu máli að umhverfið sé aðlaðandi og höfum við reynt að standa vörð um það. Á síðastliðnu hausti tók lóð Kvennaskólans gagngerðum breytingum og vonandi að hægt verði að tengja þessar tvær lóðir betur saman og ljúka við frágang þeirra sem allrar fyrst.
Allt þetta hefur áhrif heimsókn ferðamanna inn á viðkomandi stofnanir – njóta ekki aðeins þess sem þar er að finna heldur líka ótrúlegrar náttúrufegurðar hér á bökkum Blöndu.
  
Gerðar eru kröfur til þess að starfsmenn safnsins sinni safngestum með leiðsögn, skynji hvenær nærveru sé þörf og hvenær ekki og komi hlýlega fram. Séu rólegir og yfirvegaðir í fasi, þannig að jafnvel þó margt sé um manninn fái gesturinn þá upplifun að hann sé einstakur. Ég vil geta þess að sumarstarfsmenn safnsins verða þær Hrafnhildur Una Þórðardóttir frá Blönduósi sem er að hefja sitt þriðja sumar hér í safninu og Dagmar Guðmundsdóttir frá Öxl sem er að taka fyrstu sporin hér í dag. Okkur hefur ævinlega haldist vel á sumarstarfsstúlkum sem hafa gjarnan komið til starfa sumar eftir sumar eða þar til þær flytja úr heimahögum.
  
En það eiga sér stað ýmsir aðrir viðburðir í safninu en opnun Sumarsýningar. Má þar til dæmis að nefna Stofutónleika, ýmiss konar fyrirlestra, upplestur á aðventu, heimsóknir skólabarna þ.s. börnin fá að sjá og læra hvernig þráður verður til og fylgja honum í vef.
Töluverð rannsóknarvinna á sér stað hér í safninu og hafa nokkrar bækur og rit verið gefin út sem byggja alfarið á rannsóknarvinnu hér í þessu safni. Þá er algengt að birtar séu greinar ekki aðeins í íslenskum tímaritum heldur einnig erlendum. Við hæfi er að nefna að á þessu ári eru 50 ár frá því bók Halldóru Bjarnadóttur Vefnaður á íslenskum heimilum á 19 öld og fyrri hluta 20. aldar kom út. Þessi útgáfa er löngu uppseld en fyrir nokkrum árum endurútgaf safnið bókina með dálitlum viðbótum og breytingum. Eins og ykkur er sjálfsagt kunnugt að þá er þessi bók til sölu hér í safninu á gjafverði.
Þá skal nefnt að Safnasjóður styrkti Heimilisiðnaðarsafnið, Hönnunarsafn Íslands og Gljúfrastein, hús-skáldsins til að vinna að sameiginlegu rannsóknarverkefni á uppruna, hönnun og þróun íslensku lopapeysunnar. Má sjá viðamikla skýrslu um rannsóknarniðurstöðurnar á heimasíðu safnanna þriggja. Í framhaldi fengu hin sömu þrjú söfn framhaldsstyrk frá Safnasjóði á síðasta ári til að koma upp farandsýningu sem byggir á þessari skýrslu. Unnið er að þessari sýningu og verður hún opnuð næstkomandi haust.
Innan skamms mun Ásdís Jóelsdóttir, flytja hér í safninu fyrirlestur sem byggður verður á skýrslunni.
  
Heimilisiðnaðarsafnið er samkvæmt safnalögum viðurkennt safn – sem þýðir að það uppfyllir allar skyldur sínar hvað varðar faglega starfsemi.
Eitt af mörgum skilyrðum fyrir viðurkenningu er að eigendum safna er skylt að tryggja þeim fjárhagsgrundvöll til rekstrar og eðlilegrar starfsemi.
Safnasjóður veitir árlega rekstrar-og verkefnastyrki til safna, fyrst og fremst til viðurkendra safna en í ár fáum við mun lægri styrk þaðan en 2015. Til að bæta gráu ofaná svart þá fáum við ekki styrk frá Atvinnuleysistryggingasjóði vegna sumarstarfsmanna þar eð reglum hefur verið breytt á þeim bæ.
  
Heimilisiðnaðarsafnið stendur því frammi fyrir miklum rekstrarvanda á þessu ári og mun vanta hátt í 2 milljónir króna til að endar nái saman. Það skiptir því miklu að eigendur átti sig á þeirri fjárhagslegu og faglegu ábyrgð sem á þeim hvílir við að uppfylla gildandi lög og tryggi safninu nægilegt rekstrarfé.
  
En víkjum nú að listakonunni Önnu Þóru Karlsdóttur og þessari einstöku sýningu sem verður opnuð eftir örstutta stund.
Anna Þóra á glæsilegan feril að baki en fyrir utan myndlistakennslu um árabil s.s. í Myndlistaskóla Akureyrar, Myndlistaskóla Reykjavíkur, Myndlista- og handíðaskóla Íslands, Listaháskóla Íslands og mörgum grunnskólum í Reykjavík og út á landi, hefur hún tekið þátt í hátt í 50 samsýningum bæði hérlendis og erlendis. Þá hefur hún haldið fjölmargar einkasýningar og um 12 ára skeið tók hún þátt í rekstri listmunaverslunarinnar Kirsuberjatréð. Þá er gaman að geta þess að árið 2000 vann Anna Þóra samkeppni um listaverk í Flugstöð Leifs Eiríkssonar ásamt og með Guðrúnu Gunnarsdóttur.
Anna Þóra sótti aðalega menntun sína í Myndlista- og handíðaskóla Íslands en nam einnig við Konstfack Stockholm í Svíþjóð. Þess má geta að hún hefur í tvígang fengið starfslaun úr Launasjóði myndlistamanna og einnig ferða- og menntunarstyrk frá Myndstefi.
  
Yrkisefni Önnu Þóru hefur gjarnan verið náttúran og lífsbaráttan og efniviðurinn íslenska ullin. Hún nefnir þessa sýningu „Vinjar“ sem minnir okkur á gróinn blett, vin í eyðimörk, haga eða engi. Ég ætla að láta hana sjálfa kynna sýninguna sína en það verður að segjast að listrýnar hafa ævinlega lokið miklu lofsorði á sýningar Önnu Þóru og telja hana í broddi fylkingar í listsköpun þar sem grunnhráefnið er íslenska ullin.
Það er líka ánægjulegt að þema Alþjóðlega safnadagsins sem haldinn var 18. maí síðast liðinn er menningarlandslag og ákváðum við að tengja þetta saman og hafa safnið opið í dag þar sem þetta rímar.
  
Kæra Anna Þóra – um leið og ég óska þér til hamingju með sýninguna býð ég þér að koma hér fram og opna sýninguna.
 
 
Ágætu gestir:
  
Nú eru það ekki góðu kleinurnar hennar Bjargar frá Sveinsstöðum með kaffinu – við látum okkur nægja jólaköku í dag.
  
Heimilisiðnaðarsafnið á sem betur fer marga vildarvini sem rétta stundum hjálparhönd – nefni t.d. konurnar sem koma hingað ár eftir ár og aðstoða við heimsóknir skólabarna, sýna þeim hvernig var kembt og spunnið, lofa þeim að spreyta sig og skynja hve langan tíma tók að búa til þráð sem síðan var nýttur í prjón eða vef.
  
Lengi vel áttum við nokkra hollvini sem lögðu safninu lið með því að leggja krónur á reikning safnsins. Nú eru aðeins örfáir eftir og leyfum við okkur að láta liggja hér frammi í anddyri blað með bankaupplýsingum ef eitthvert ykkar hefði áhuga á að gerast hollvinur safnsins.
Ég vil taka fram að Uppbyggingarsjóður Norðurlands vestra styrkir þessa sýningu og vil ég flytja góðar þakkir fyrir.
  
Að síðustu – Anna Þóra – þá viljum við afhenda þér þessa bók – Vefnaðarbók Halldóru með kæru þakklæti fyrir samstarfið og þér Guðrún, löber með munstri sem heitir „blómi lífsins“. Benedikt fær grillsvuntu með sama munstri og Nína gluggaskraut Guðbjargar þ.s. hugmyndir munstursins er sótt í þjóðbúningamunsturs ísl. kvenbúningsins.
  
  Anna Þóra Karlsdóttir við opnun sýningar. Mynd: KSE/Feykir