Rausnarleg gjöf afhent Heimilisiðnaðarsafninu

25.07.2016

Nú í sumar bættist forkunnar fallegur skautbúningur/kyrtill við þjóðbúningasafn Heimilisiðnaðarsafnsins.
Það var Björg (94 ára) elsta dóttir, Kristínar Vigfúsdóttur (1891-1946) og Jóns Eyþórssonar (1895-1968) veðurfræðings, ásamt tveimur börnum og tengdabörnum sem afhentu kyrtilinn. Þau hjón áttu ættir að rekja hingað í Húnaþing. Jón var einn af brautryðjendum á sviði veðurfræði og jöklarannsókna á síðustu öld.
Kristín móðir Bjargar saumaði kyrtilinn á árunum í kringum 1920 og er hann mikil gersemi og því ánægjulegur fengur fyrir safnið. Kyrtillinn er úr silki, svartur að lit, útsaumurinn einstaklega fallegur í gulum tónum og munstrið hennar sjálfrar. Kyrtillinn er afhentur uppsettur á gínu ásamt faldi, blæju og spöng.
Elín forstöðukona, ásamt nokkrum meðstjórnendum tók á móti gjöfinni. Sagði Elín safninu sýndan mikinn heiður með því að fá kyrtilinn til varðveislu. Rifjaði einnig upp í örstuttu máli hugmynd Sigurðar Guðmundssonar, málara (1833-1874) að skautbúningnum sem hann hannaði um 1860. En tíu árum síðar eða um 1870 er talið að hann hafi hannað kyrtilinn sem léttari búning, eins konar dansbúning, brúðar-eða fermingarbúning.
Að lokum þakkaði Elín gefendum fyrir þessa merku gjöf og þann hlýhug og virðingu sem safninu er sýnt með henni.