Ársskýrsla 2016

1.05.2017

Eins og ítrekað hefur komið fram að þá er Heimilisiðnaðarsafnið viðurkennt safn í samræmi
við safnalög nr. 141/2011. Til að svo skuli vera þarf safn að uppfylla fjölmörg skilyrði t.d. að
vera í opinberri eigu, sjálfseignarstofnun eða í eigu félags eða fyrirtækis , sem tryggir safninu
fjárhagsgrundvöll til rekstrar og eðlilegrar starfsemi og skipar því stjórn. Þá skal safn ekki
rekið í hagnaðarskyni, það skal hafa sjálfstæðan fjárhag, starfa eftir stofnskrá og/eða
skipulagsskrá sem Safnaráð hefur staðfest, sbr. 7. gr. safnalaga. Stofnskrá skal birt í B-deild
Stjórnartíðinda. Einnig þurfa viðurkennd söfn að hafa starfsleyfi frá heilbrigðis- og
eldvarnareftirliti og hafa öryggis- og viðvörunarkerfi í lagi. Eftirlit sé með ljósmagni, hitastigi
og rakastigi í húsnæði safnsins, til staðar sé neyðaráætlun fyrir gesti, starfsfólk og safnkost þá
sé aðgengi í samræmi við lög og reglugerðir. Skráning á safnmunum þarf að uppfylla skilmála
Safnaráðs og lögð áhersla á að faglega sé unnið að söfnun og varðveislu. Skila skal höfuðsafni
(Þjóðminjasafni) stefnumörkun um starfsemina á fjögurra ára fresti. Safnið skal vera opið
almenningi á auglýstum opnunartíma og upplýsingar um skráða gripi aðgengilegar
almenningi. Stunda skal rannsóknir og miðlun og taka þátt í samstarfi svæðisbundið og á
landsvísu. Safnið skal starfa í samræmi við siðareglur Alþjóðaráðs safna (ICOM) og ákvæði
laga. Forstöðumaður skal hafa menntun á ábyrgðarsviði safnsins eða hafa aflað sér
hliðstæðrar hæfni og færni.
Með Safnalögum er verið að samræma starfsemi safna á Íslandi og tryggja að viðkomandi
söfn starfi faglega. Einnig er verið að vekja eigendur safnanna til vitundar um að viðurkennd
söfn starfi eftir lögum sem um þau gilda og að þeir beri fjárhagslega og faglega ábyrgð á
þeim.

Fjárhagur

Rekstaralega verður að segjast að starfsárið 2016 hafi verið erfitt. Á vordögum kom í ljós að
veigamiklar forsendur fyrir rekstraráætlun safnsins höfðu brugðist þar sem annarsvegar
framlög frá Atvinnuleysistryggingasjóði lögðust af vegna breyttra reglna hjá sjóðnum og
hinsvegar lægri úthlutun en gert var ráð fyrir frá Safnasjóði. Þegar þetta varð ljóst stefndi í
allt að tveggja milljón króna rekstrarhalla á árinu. Heimilisiðnaðarsafninu var því vandi á
höndum og kynnti stöðuna strax bréflega til Byggðasamlags um atvinnu- og menningarmál.
Því miður tókst ekki að greiða úr þessum vanda fyrir árslok.
Safnið leitaði ýmissa annarra leiða til að lágmarka rekstrartapið og sótti m.a. til
Menningarsjóðs Kaupfélags Skagfirðinga um rekstrarstyrk, sem brást vel við, auk
tímabundinnar lánafyrirgreiðslu í Arionbanka. Þá reyndust tekjur af aðgangseyri og sölu
bóka meiri en áætlað var.

Sérverkefni – lopapeysuverkefni

Ekki hefur náðst að ljúka við hönnun á Farandsýningu um íslensku lopapeysuna.
Farandsýningin er byggð á rannsóknarskýrslu Ásdísar Jóelsdóttur, lektors við Háskóla Íslands,
sem vann hana að tilstuðlan samstarfsverkefnis Heimilisiðnaðarsafnsins, Hönnunarsafns
Íslands og Gjúfrasteins, hús skáldsins. Vonir standa til að sýningin verði fullmótuð fyrir
Hönnunarmars 2017. Þá er vert að geta þess að Ásdís vinnur núna að bókarskrifum um
íslensku lopapeysuna sem byggð er á skýrslunni og verður gefin út af Háskólaútgáfunni.

Viðburðir

Sumarsýningin „Vinjar“ var opnuð með viðhöfn sunnudaginn 22. maí. Það er Anna Þóra
Karlsdóttir, listakona sem á heiðurinn að þessari sýningu. Sýningin vakti verðskuldaða athygli
ekki síst erlendra gesta en öll verkin eru unnin úr íslenskri ull, ýmist eingöngu úr togi eða
samblandi af togi og þeli. Listrýnar hafa lokið miklu lofsorði á verk Önnu Þóru og telja hana í
broddi fylkingar í listsköpun þar sem grunnhráefnið er íslenska ullin. Við opnun sýningarinnar
söng dóttir hennar Guðrún Helga Stefánsdóttir, sópransöngkona.
Safnadagurinn sem nú er alþjóðlegur bar upp á 18. maí. Þema dagsins var
menningarlandslag og þótti því tilhlýðilegt að tengja þetta saman við opnun
sumarsýningarinnar og hafa safnið opið allan þann dag.
Fyrirlestur Ásdísar Jóelsdóttur í byrjun júní um íslensku lopapeysuna sem byggður var á
rannsóknarskýrslu hennar var bæði fróðlegur og skemmtilegur. Dregnir voru fram úr
safnkostinum nokkrir munir sem koma við sögu í fyrirlestrinum sem gestum þótti forvitnilegt
að skoða.
Á Húnavöku sátu konur í öllum rýmum safnsins og unnu ýmiss konar hannyrðir s.s. útsaum,
hekl, gimb og orkeringu. Einnig var tekið ofan af, kembt og spunnið, prjónað og slegið í vef.
Eins og vant er á Húnavöku var safnhúsið og ljósastaurar skreyttir m.a. með prjónagraffi.
Stofutónleikar Heimilisiðnaðarsafnsins fóru fram þann 27. nóvember. Það voru hjónin Lára
Sóley Jóhannsdóttir og Hjalti Jónsson, sem fluttu nýjar og gamlar klassískar söngperlur.
Tónleikarnir voru ágætlega sóttir og gestir mjög ánægðir. Eftir tónleikana þáðu allir heitt
súkkulaði og smákökur í kaffirými safnsins.
Á aðventu lásu lestrarvinir safnsins úr nýjum bókum við mjög góðar undirtektir áheyrenda og
eins og venja er til var gestum boðið upp á heitan súkkulaðidrykk ásamt smákökum.
Heimsóknir grunnskólabarna héraðsins er fastur liður í starfsemi safnsins. Nemendur fá þá
leiðsögn um safnið og síðan tækifæri til að kemba og spinna og fylgja þræðinum í vef.
Töluvert er um heimsóknir nemenda innlendra sem erlendra á efri skólastigum s.s. frá
Listaháskóla Íslands og ýmsum framhaldsskólum. Þá er vert að geta þess að listafólk sem
dvelur í Kvennaskólanum heimsækir safnið eftir þörfum að lágmarki einu sinni í mánuði.

Innra starf

Samstarfssamningur Heimilisiðnaðarsafnsins og Þekkingarsetursins var endurnýjaður en
hann felur í sér 30 klukkustunda vinnuframlag sérfræðings í þágu safnsins. Einnig felur
samningurinn í sér að Heimilisiðnaðarsafnið stendur listafólki sem dvelst ótímabundið í
Kvennaskólanum opið eftir nánara samkomulagi.
Rannsóknarvinna á árinu 2016 var fyrst og fremst framhald frá síðasta ári vegna verkefnis
Guðrúnar Hannele á vettlingum í safninu. Guðrún Hannele, kennari og verslunareigandi,
vinnur að útgáfu bókar sem byggir alfarið á vettlingum sem varðveittir eru í safninu. Þá voru
ýmsir munir safnsins nýttir til rannsóknar vegna meistararitgerða og M ed ritgerðar og felst
töluverð vinna hjá forstöðumanni við heimildaöflun vegna ýmiss konar verkefna- og
rannsóknarvinnu nemenda af öllu landinu á efri skólastigum.
Styrkjandi forvörslu (viðgerð) á silkipúða er lokið einnig á prjónaðri mynd en báðir þessir
munir þykja einstakir. Eins og kom fram í síðustu ársskýrslu var lokið við styrkjandi forvörslu á
söðuláklæði frá 1850 en Safnasjóður hefur styrkt öll þessi verkefni og hefur vinnan verið í
höndum Þórdísar Baldursdóttur, forvarðar.
Góðar gjafir berast safninu árlega sem þarf að flokka og forverja. Á síðasta ári bættist
forkunnar fallegur skautbúningur/kyrtill við þjóðbúningasafn Heimilisiðnaðarsafnsins.
Kyrtillinn var gefinn af Björgu Jónsdóttur og fjölskyldu en Björg var dóttir Jóns Eyþórssonar
(1895-1968), veðurfræðings og Kristínar Vigfúsdóttur (1891-1946) en hún saumaði kyrtilinn
um 1920.
Skráning á munum safnsins er kominn á svokallaðan ytri vef Sarps sem er skráningarkerfi
safna. Á síðasta ári fékkst ekki styrkur frá Safnasjóði til að vinna að samræmingu og
leiðréttingum á skráningum en 30 klukkustunda samstarfssamningur sem
Heimilisiðnaðarsafnið hafði gert við Þekkingarsetrið kom að góðum notum hvað þetta
varðar.
Greinar um Heimilisiðnaðarsafnið og sýningar þess hafa birst bæði í dagblöðum og má þar
nefna Bændablaðið og Feyki, einnig á netmiðlum og ýmsum tímaritum hér á landi og
erlendis. Mikið er bloggað um safnið og töluverðar umræður og ábendingar um heimsóknir á
samfélagsmiðlum. Aftur skal nefnt sem og í síðustu ársskýrslu að  bókin Íslenskt Prjón eftir
Hélene Magnússon sem byggir á prjónuðum munum hér í safninu, hefur bæði komið út á
íslensku og ensku og vekur veðskuldaða athygli. Er alveg ljóst að fjölgun gesta frá
Bandaríkjunum tengist að stórum hluta þessari bók og virðast sumir safngesta koma í
pílagrímsför til að upplifa það sem er að finna í safninu og fjallað er um í bókinni.

Hið daglega starf

Síðastliðin tvö ár hefur starfshlutfall forstöðumanns verið 60% en hann er eini fastráðni
starfsmaður safnsins. Þess skal getið að 50% starfshlutfall er lágmarks starfshlutfall til að
uppfylla skilyrði safnalaga.
Forstöðumaður ber ábyrgð á daglegum rekstri safnsins s.s. opnun safnins utan venjubundins
opnunartíma, annast bréfaskriftir, gerð umsókna vegna rekstrar og annarra verkefna. Þá
skipuleggur forstöðumaður og hefur umsjón með öllum viðburðum í safninu s.s. opnun
sýninga, námskeiðum, skólaheimsóknum, fyrirlestrum, málþingum og tónleikum. Tekur á
móti fræðafólki og aðstoðar það við rannsóknir og heimildaöflun. Forstöðumaður annast
fjármál (þó ekki útreikning launa) og skrifar ársskýrslu og aðrar skýrslur. Forstöðumaður ber
ábyrgð á þrifum og að munir safnsins séu varðveittir með öruggum hætti, hefur umsjón með
rekstri og viðhaldi á húsnæði safnsins. Þá sér forstöðumaður um móttöku og forskráningu
muna ásamt sérfræðimenntaðri aðstoðarkonu í hannyrðum.
Margir undrast hvernig lítið safn norður í landi getur opnað nýja sérsýningu árlega. Það segir
sig sjálft að undirbúningur slíkrar sýningar er mikill og stendur oftast frá haustinu áður. Þá
spurja margir safngesta um safnmunina finnst ótrúlegt hvernig hægt sé að halda þeim svona
hreinum og vel útlítandi. Svarið er einfalt – hér er þrifið – og það á sér stað vorhreingerning á
hverju ári, auk þess sem farið er yfir alla safnmuni, sumir teknir út og hvíldir og aðrir teknir
til sýninga. Í safnhúsi sem þessu, dugir ekki að þrífa í lok dags – eftir hvern hóp þarf að fara
yfir snyrtingar, moppa gólf, raða stólum osfrv. Upplifun safngestsins er að hann sé einstakur
og að tekið sé sérstaklega á móti honum. Þetta er m.a. sjarmi safnsins sem svo margir tala
um.

Forstöðumaður sótti Farskólafund safnmanna sem að þessu sinni var haldinn í Reykjanesbæ
og einnig Vorfund Þjóðminjasafnsins sem haldinn var í Reykjavík. Veitti Safnasjóður safninu
svokallaðann símenntunarstyrk til þessa. Árin tvö á undan sá forstöðumaður sér ekki fært að
sækja þessa fundi með hliðsjón af fjárhagslegri stöðu safnsins en annað árið var
Farskólafundurinn haldinn í Berlín og seinna árið á Egilsstöðum.
Tvær námsstúlkur vinna í safninu á föstum opnunartíma á sumrin. Undanfarin ár hafði
fengist styrkur frá Atvinnuleysistryggingasjóði vegna hluta af launum þeirra, sem kom sér
afar vel. Eins og áður hefur komið fram féll þessi styrkur niður á síðasta ári og þrátt fyrir
ábendingu í fjárhagsáætlun ár hvert um að þetta tillag væri ekki öruggt er ljóst að ákvörðun
sjóðsins kom í opna skjöldu þeirra sem ábyrgð bera á rekstri safnsins.
Gerðar eru kröfur um að starfstúlkur sinni safngestum með leiðsögn, skynji hvenær nærveru
sé þörf og hvenær ekki, komi hlýlega fram, séu rólegir og yfirvegaðir í fasi, þannig að jafnvel
þó margt sé um manninn fái gesturinn þá upplifun að hann sé einstakur.
Nokkrar eldri konur aðstoða í sjálfboðavinnu við móttöku og sýnikennslu nemenda á
grunnskólastigi og hafa einnig tekið þátt í viðburðum s.s. á ísl. Safnadeginum og Húnaöku.
Á síðasta ári hefur Blönduósbær annast launaútreikninga fyrir safnið án endurgjalds og skal
sá stuðningur hér með þakkaður.

Niðurlag

Safngestir voru vel á fjórða þúsund, meirihluti þeirra erlendir og komu flestir á eigin vegum.
Láta gestir í ljósi mikla ánægju með Heimilisiðnaðarsafnið. Margir tjá ánægju sína í gestabók
safnsins. Hlýjar kveðjur og umsagnir gefa byr undir báða vængi sem við aðstandendur þessa
safns eigum að meðtaka og vera ánægð með. Undanfarin ár hefur mikil umræða skapast um
textíl og textílmennt og ber þá gjarnan á góma þessi litli bær Blönduós og hvað hann hefur
upp á að bjóða. Það hefur og sýnt sig að nemendur og listafólk ásamt handverksfólki hefur
nýtt sér þann brunn sem er að finna í safninu til fjölþættra rannsókna og útgáfu á bókum og
fræðilegra ritgerða.
Á Farskólafundi safnmanna síðastliðið haust áttu sér stað m.a. umræður um „söfn í þágu
samfélags – hvað vilja eigendur með söfn“ Þar kom fram að áhersla væri lögð á að safn væri
stolt samfélagsins burtséð frá því atriði að stoltið mælist ekki alltaf í gestafjölda. Einstaklingur
í samfélagi getur verið stoltur af safninu sínu og haft skoðun á starfsemi þess án þess að hafa
komið þangað. Söfnin eru mikilvæg fyrir samfélagið og samfélagið er á vaktinni. Þau eru líka
mismunandi og dæmi var gefið – Grasagarður á heimsvísu, Heimilisiðnaðarsafnið á landsvísu
og Byggðasafnið á byggðavísu (bæjar-eða héraðsvísu).
Heimilisiðnaðarsafnið er viðurkennt safn samkvæmt safnalögum sem við öll hljótum að vera
stolt af. Það leggur hinsvegar miklar skyldur á okkur um að uppfylla skilyrði Safnalaga. Til að
standa undir þeim skyldum, þarf að halda vel utan um þessa viðkvæmu og dýrmætu stofnun
– það getum við vel gert með samstilltu átaki.

Elín S. Sigurðardóttir, forstöðum.